13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

51. mál, bygging útvarpshúss

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er vissulega ánægjulegt að menningarmál skuli vera á dagskrá í hv. þingi. Það mætti fjalla verulega um þennan málaflokk allan og reyndar fleiri mál, einkum og sér í lagi miðað við þær upplýsingar sem komu fram í hv. fjvn. og síðasti hv. ræðumaður minntist örlítið á í sinni ræðu.

Það kemur í ljós, að baráttan við vísitöluhækkanir setur svip sinn á stöðu menningarmálanna ekki síður en annarra mála í þjóðfélaginu, þar á meðal má benda á Þjóðleikhúsið, auk þess sem Ríkisútvarpið er í miklum fjárhagsörðugleikum. Á það hefur verið bent rækilega, að verði ekki úrbætur í þeim málum verður engin innlend dagskrárgerð í íslenska Ríkisútvarpinu, hvorki hljóðvarpi né sjónvarpi, þegar liðir eru nokkrir mánuðir af næsta ári. Þetta eru vissulega varnaðarorð. Það er ekki verið að fjalla um upphæðir í hundruðum milljóna, heldur upphæð sem nemur líklega nálægt 1 milljarði. Sýnir það best hvílíkar fjárhagsáhyggjur forráðamenn þessarar stofnunar hljóta að hafa varðandi dagskrárgerðina.

Annað dæmi um skuldir opinberra fyrirtækja má nefna, Póst og síma. Ég veit ekki hvort það hefur komið fram, en það mun vera staðreynd að fjmrn. verður að borga út starfsmönnum Pósts og síma um næstu mánaðamót án þess að um slíkar fjárhæðir sé að ræða í sjóðum þeirrar stofnunar einfaldlega af því að hún er komin langt umfram fjárhagsáætlun sína. Allir peningar eru búnir og hækkanir á gjöldum hafa ekki fengist að ósk stofnunarinnar, aðeins 9% hækkun, og þykir þó ýmsum nóg um. Þannig má oft leika sér með tölur. Það má koma í ræðustól í fjárlagaræðu og tala um stöðu ríkissjóðs, en þegar málið er grannt skoðað kemur í ljós að flestallar ríkisstofnanir og opinberar stofnanir sem háðar eru gjaldskrárákvörðunum ríkisstj., líða önn fyrir og þar er um mikinn fjármagnsskort að ræða.

Ég ætla ekki að fjalla hér um teikningar eða byggingarkostnað útvarpshússins sem rætt er um vegna þáltill. frá hv. þm. Markúsi Á. Einarssyni. Það er hins vegar ljóst að þetta mál hefur strandað í kerfinu á dálítið skringilegan hátt. Í raun og veru held ég að þar séu ýmsir þættir að verki. Hér hefur verið minnst á nokkra þeirra.

Það er ágreiningur um hlutverk byggingarsjóðsins. Ljóst er að sumir aðilar, þ. á m. þeir sem sæti eiga í samstarfsnefndinni um opinberar framkvæmdir, telja að byggingarsjóðurinn eigi að standa undir kostnaði við ýmislegt fleira en sjálft húsið. Það er þó ekki ágreiningur um að hann eigi að ná til tækja og búnaðar, en þegar rætt er um langbylgjukerfið og dreifikerfið kemur annað hljóð í strokkinn.

Á fundi útvarpsmanna og samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir á sínum tíma varð niðurstaðan sú, að forráðamenn útvarpsins skyldu gera heildarframkvæmda- og fjárfestingaráætlun fyrir Ríkisútvarpið til nokkurra ára, þar sem ekki væri einungis minnst á útvarpshúsið, heldur á annan kostnað, svo sem kostnað við að byggja upp langbylgjusenda, sem nú eru löngu úr sér gengnir, eins og raunar hefur komið fram hér í umr. Því miður hafði það dregist, og á meðan það dróst að hagsýslan og samstarfsnefndin fengju þessar upplýsingar notaði samstarfsnefndin það sem skálkaskjól og aðhafðist ekki í málinu, notfærði sér þennan ágreining, notfærði sér það tómlæti, sem Ríkisútvarpið sýndi, til að sitja á málunum. Þannig er um að ræða gífurlegt sambandsleysi milli tveggja opinberra stofnana, milli fjárlaga- og hagsýslustofnunar og útvarpsins og þá um leið milli fjmrn. og menntmrn.

Það er athyglisvert að fyrrv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, var settur af núv. hæstv. menntmrh. sem formaður útvarpsráðs. Mér er kunnugt um að Vilhjálmur Hjálmarsson ætlaði sér í þeirri stöðu að halda áfram því starfi sem hann hóf með fyrstu skóflustungunni að útvarpshúsinu fyrir tveimur árum u.þ.b. Því miður hefur útvarpsráð ekki þau völd, en vegna stöðu sinnar situr hann þó sem einn af þremur stjórnendum fyrirtækisins og áhrifamaður um þessi mál. Það er því leitt til þess að vita, að hann skuli nú lenda í þeirri stöðu að fá ekki þessu máli framgengt þótt flokksbróðir hans sé menntmrh.

Eftir að hafa hlýtt á hæstv. menntmrh. verð ég að taka undir þau ummæli hv. þm. Alberts Guðmundssonar, að það er aldeilis furðulegt hvaða stefnu svona mál geta tekið, sem verða á milli í kerfinu. Þannig fær hv. fjvn. bréf frá hæstv. menntmrh. þar sem hann biður fjvn. um að greiða fyrir þessu máli. Þetta hlýtur auðvitað að leiða til þess að maður spyr hæstv. menntmrh.: Talaði hann ekki við hæstv. fjmrh. sem er hæstv. fyrrv. menntmrh.? Og af því að hæstv. fjmrh. er hér staddur langar mig til að spyrja hann: Mundi hann ekki eftir þessu máli þegar hann skipti um ráðherrastól?

Ég held að hér sé verið að breiða yfir þetta mál. Ég held að sannleikurinn sé sá, að hér er verið að setja á svið sjónleik sem byggist á því að ríkisstj. er að þvo sér eins og þegar köttur þvær sér. (Gripið fram í: Eins og hvað?) Eins og þegar köttur þvær sér. Ég veit að hæstv. ráðh. Ingvar Gíslason kannast við það. Hann er utan af landi. Þar er mikið af slíku skepnum. — En það má lýsa þessu með því, að ríkisstj., hæstv. ráðh., tali ekki saman, komi sér ekki saman um hvernig eigi að haga þessum málum. Málið er sagt stranda í kerfinu hjá embættismönnum sömu hæstv. ráðh. Annar ráðh. skrifar síðan fjvn., sem er nefnd sem tekur við fjárlagafrv. sem hæstv. fjmrh. flytur hér á þinginu, og svo koma allir hér í ræðustól og segja að það sé ófært að ekki skuli vera byrjað á útvarpshúsinu. Þetta er skemmtilegur sjónleikur, en ég verð að segja að það hefði verið huggulegra fyrir þá, sem í alvöru vilja fá byggt hús, að verkin væru látin tala, en ekki bara orðin.