13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

51. mál, bygging útvarpshúss

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri þáltill. sem hér er komin fram, en sérstaklega vil ég þó fagna því, að ráðh. hefur nú gert það upp við sig að hann ætli að hafa sigur í þessu máli. Það er ástæðulaust að láta svo sem menn viti ekki hvaða nefnd er um að ræða og hverjir þar hafa völdin.

Ég kann því dálítið illa að hér hafa tveir komið upp og farið eins og köttur í kringum heitan graut þegar þeir hafa verið að tala gegn þessu máli. Aftur á móti eru kettirnir ekki taldir með skepnunum þar sem ég þekki til. Ég vona að hæstv. menntmrh. sé það jafnframt ljóst þegar hann hefur gefið yfirlýsingu sína um að hann ætli að hafa sigur í þessu máli, að eftir því verður tekið, og hann má vita að hann hefur stuðning þm. úr Framsfl. til þeirra verka. Það er því rétt að það komi alveg skýrt fram hér á Alþ. hverjir það eru sem ætla að stöðva það að Ríkisútvarpið eignist hús fyrir eigið fé.

Hitt er svo annað mál, að það er ekki óeðlilegt að þingheimi verði gerð grein fyrir því, hvaða stærðir er verið að tala um, því að vissulega er rétt að gætt sé hófsemdar á þessu sviði sem öðrum.