13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Tildrög þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, eru atvik sem ég hef komist í tæri við undanfarna daga.

Við lifum á tímum jafnréttis. Allir tala um jafnrétti og vilja sinna þeim efnum. Hæst ber kröfur kvenna. Samtök kvenna hafa eflst. Konur hafa skynjað betur það misrétti sem þær hafa þurft við að búa til þessa. Djarfhuga konur hafa sótt fram og framkallað úrbætur sem vissulega eru þjóðfélagi okkar til sóma. Þrátt fyrir marga sigra er þó langt í land, ekki aðeins hvað varðar kvenréttindi, heldur og á fleiri sviðum.

Sennilega er skortur á jafnrétti hvergi eins grimmilegur og gagnvart feðrum sem eignast barn í óvígðri sambúð. Má nefna ýmis skelfileg dæmi. Þau eru mörg og eru alltaf að koma upp.

Þessa dagana er í gangi mál af þessu lagi. Barnsfaðir hafði búið með barnsmóður sinni í þrjú ár. Barn þeirra var næstum eins árs þegar þau slitu samvistum. Barnsmóðirin skildi barnið eftir í höndum tengdamóður sinnar er hún hvarf á braut. Hún sótti barnið um hálfum mánuði síðar og kom því í fóstur annars staðar. Af eðlilegum ástæðum sóttist barnsfaðirinn, sem komist hafði í tilfinningasamband við barnið, eftir því að umgangast það. Hann kemst þá að því að það er honum fyrirmunað og að barnsmóðirin hyggst gefa barnið vandalausum. Piltinum brá fyrst er upplýst var að samkv. forneskjulegum íslenskum lögum kæmi honum það í raun ekki við. Réttur hans er enginn. Barnsmóðir má gefa barn sitt án samþykkis barnsföður. Mótmæli duga ekki. Lögin kveða skýrt á um að móðirin ein ráði því, hvað af barninu verður.

Í því dæmi, sem ég er hér að greina frá og er að eiga sér stað þessa dagana, er svo háttað að umræddur barnsfaðir leitar fast eftir því að mega fá barnið til uppeldis. Foreldrar hans bjóða honum aðstoð við uppeldi þess, og foreldrar barnsmóðurinnar gera það einnig. Allir þessir aðilar reka sig á vegg. Rétturinn er samkv. gildandi lögum hjá barnsmóðurinni.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér hjá félagsráðgjöfum hér í Reykjavík, eru hliðstæð mál til meðferðar alltaf annað slagið. Feðrum er fyrirmunað að umgangast börn sín. Feður þurfa að þola það himinhrópandi ranglæti, að barnsmóðir ein ráði því hvort hún ættleiði barn sitt. Í gildandi ættleiðingarlögum ber að leita umsagnar þess aðila sem eigi þarf að samþykkja ættleiðingu. Sú umsögn skiptir hins vegar engu máli. Barnsmóðir ræður.

Í fyrra féll dómur í Hæstarétti í máli þar sem faðir krafðist umgengnisréttar við dóttur sína. Dómarar Hæstaréttar voru ekki sammála um niðurstöðuna. Meiri hl. féllst á kröfu barnsmóður, sem neitaði barnsföður að umgangast barn sitt. Í niðurstöðu dómsins segir að í lögum nr. 87 frá 1947, er fjalli um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, séu engin ákvæði um rétt föður til umgengni við óskilgetið barn sitt. Þá er áréttað í niðurstöðu dómsins að verulegur munur sé á réttarstöðu skilgetinna og óskilgetinna barna, sérstaklega að því er varðar afstöðu foreldra þeirra. Í dómsniðurstöðunni segir einnig, með leyfi forseta:

„Það er gömul skipan, að faðir óskilgetins barns hafi eigi umgengnisrétt við barn sitt án samþykkis móður, meðan hún hefur forræði þess. Verður því eigi breytt nema með lögum.“

Tveir hæstaréttardómarar skiluðu séráliti í þessu máli og í niðurstöðu annars þeirra, þ.e. Ármanns Snævarr, er vitnað í allöra lagaþróun í þá átt að gera hlut sambúðarfólks að ýmsu leyti svipaðan og hjóna. Þá getur hann þess, að fyrir Alþ. liggi frv. að barnalögum sem þá hafði þrisvar verið lagt fyrir Alþingi.

Áðurgreint frv. hefur nú verið lagt fyrir Alþ. í fimmta sinn. Nú hefur þetta frv. verið margendurskoðað og betrumbætt og tekur af það misrétti sem nú gildir hvað varðar rétt barnsmóður til að gefa barn sitt án samþykkis föður og það veitir barnsföður svokallaðan umgengnisrétt. Er hæstv. dómsmrh. talaði fyrir frv. óskaði hann eftir að afgreiðslu þess yrði flýtt. Nú eru liðnir 18 dagar síðan frv. var vísað til allshn. Nd. Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, hefur það ekki enn verið rætt í n. Frv. liggur óafgreitt meðan fjöldi manns þarf um sárt að binda vegna þeirrar grimmdar sem núverandi lög hafa dæmt þá til að lúta.

Ég greindi frá atburði áðan sem nú er að eiga sér stað. Barnsfaðir sér á eftir barni sínu, sem hann hefur bundist tilfinningaböndum, til vandalausra án þess að fá nokkuð að gert. Móðirin, sem ekkert vill með barnið hafa að gera, gefur barnið. Fjölskylda hennar mótmælir, en fær engu ráðið. Fjölskylda hans mótmælir, en fær engu ráðið. Lögin eru skýr. Barnsfaðirinn er réttlaus.

Þar sem enn er nokkur umþóttunartími áður en gengið verður endanlega frá málum, því að þrír mánuðir þurfa að líða frá því að barn er gefið þangað til það er staðfest, sá ég ástæðu til að reifa þetta mál hér. Ég bið hv. þm. að hafa í huga að ég er ekki að tala um einsdæmi. Þetta er alltaf að ske. Þeir eru fjölmargir sem gera sér grein fyrir þessu misrétti. Það er athyglisvert að undanfarin ár hafa kvenfélög og sambönd þeirra lagt á það feikilega áherslu að frv. að barnalögum verði samþ. Jafnréttisráð hefur og látið málið mjög til sín taka. Hér er ekki um kvenréttindi að ræða. Hér er ekki endilega um karlréttindi að ræða. Hér er um sjálfsögð mannréttindi að ræða.

Að síðustu skora ég á hv. allshn., og þá einkum formann hennar, að flýta afgreiðslu frv. að barnalögum og ég mælist til þess að þingforsetar sjái svo um að málið fái hraða afgreiðslu. Það má ekki bíða lengur.