13.11.1980
Neðri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

45. mál, viðskptafræðingar

1. umr. Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég endurflyt hér frv., sem flutt var á síðasta þingi, en fékk ekki afgreiðslu, frv. til l. um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Þetta mál skýrir sig að mestu sjálft. Ég vil taka það fram, að frv. er nú flutt með nokkurri breytingu sem m.a. er gerð vegna þess að aths. komu fram á fyrra þingi þegar málið var til umr.

Efni frv. er það sem fram kemur í 1. gr., að rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga og hagfræðinga eða nota heiti, sem felur í sér orðið viðskiptafræðingur eða hagfræðingur, hafa þeir menn hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi ráðh. Þeir, sem hafa lokið prófi úr viðskiptadeild Háskóla Íslands, þurfa ekki slíkt leyfi ráðh.

Þetta frv. um rétt manna til að kalla sig ákveðnu stöðuheiti er mjög í samræmi við gildandi lög um ýmsar aðrar stöður og ekki óeðlilegt að þetta frv. sé flutt. Það er gert samkv. sérstakri beiðni frá Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Hins vegar hef ég orðið við réttmætum ábendingum nokkurra hv. þm. frá því í fyrra um að breyta í 2. gr. hvað það varðar hverjir skuli hafa úrskurðarvaldið um hvaða skólar séu viðurkenndir og hvaða viðskiptafræðingar og hagfræðingar skuli viðurkenndir til þess að njóta þessara starfsheita.

Eins og frv. var upphaflega frá hendi Félags viðskipta- og hagfræðinga mátti segja að valdið væri þeirra megin í því að skera úr um hvaða menn skyldu gjaldgengir í þessu sambandi. En eins og frv. er núna er nægilegt fyrir ráðh. að leita álits Félags viðskipta- og hagfræðinga og ýmissa annarra aðila, sem ráðh. kynni að ákveða, um hverjir skuli njóta þessa starfsheitis. Úrskurðarvaldið er sem sagt ótvírætt í þessu efni í höndum rn., en þó þannig, að leitað sé álits Félags viðskipta- og hagfræðinga. Þetta var áður þannig orðað, að menn fundu að því í umr. í fyrra hversu mikið vald sjálft stéttarfélagið hefði til að ákveða þetta.

Þess munu víst dæmi úr öðrum lögum um rétt manna til að kalla sig tilteknum starfsheitum, að félagsskapur þeirra hefur mikið ákvörðunarvald í þessu. En ég tek undir þær ábendingar sem fram hafa komið, að ekki er ástæða til að halda lengra á þeirri braut, heldur er vissulega miklu eðlilegra að rn. hafi þarna úrskurðarvald.

Eins og menn sjá er þetta frv. ekki mikið að vöxtum og einfalt að efni og ekki ástæða til að hafa um það mörg orð. Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umr. er lokið verði málinu vísað til hv. menntmn.