17.11.1980
Neðri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

85. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 92, frv. til l. um þingfararkaup alþingismanna. Okkur hefur borist þetta frv. frá hv. Ed., sem afgreiddi málið fyrir skemmstu, en þar náðist mjög góð samstaða um þetta mál.

Frv. og undirbúningur þess var unnið af þingfararkaupsnefnd, en hún var kosin nú með þeim sérkennilega hætti að hana skipa forsetar Alþingis ásamt með formönnum þingflokka. Þetta hefur verið unnið vandlega og vel vandað að undirbúningi málsins og allir þingflokkar hafa fylgst náið með því og tekið þátt í undirbúningnum þannig að óhætt er að hafa skammar signingar nú þegar mælt er fyrir því.

En frv. er þess efnis, að héðan í frá skuli laun og kjör alþm. ákveðin af Kjaradómi. Hingað til, eins og menn þekkja, hafa launin verið miðuð við ákveðin launaflokk í kerfi opinberra starfsmanna eða starfsmanna ríkisins, hin síðari árin hjá starfsmönnum í Bandalagi háskólamanna á vegum ríkisins, en þingfararkaupsnefnd haft með höndum að úrskurða um önnur kjör. Við samþykkt þessa frv., verður í lög tekið að þessi atriði skuli öll heyra undir Kjaradóm til úrskurðar.

Annað í þessu sambandi er óþarft að taka sérstaklega fram. Úrskurður Kjaradóms skal að jafnaði gilda frá 1. okt. til 30. sept. ár hvert, en nú í fyrsta skipti er ákvæði til bráðabirgða um að hann skuli gilda frá 1. maí í ár til 30. sept. næsta ár.

Ég legg svo til, herra forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og fjh.- og viðskn.