17.11.1980
Neðri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

85. mál, þingfararkaup alþingismanna

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir stuðningi við þetta frv. sem hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur mælt fyrir.

Ég vil rifja það upp, að fyrir allmörgum árum upphófst nokkur gagnrýni á kjaramál þm. Af minni hálfu var það aldrei gagnrýnt út af fyrir sig, að þm. hefðu of há laun. Ég er þeirrar skoðunar, að þm. eigi að hafa há laun. Og af hverju eiga þeir að hafa há laun? Það er til þess að þeirra peningalega staða sé þannig að þeir séu engum háðir. Af þeim ástæðum eiga þm. að hafa há laun.

Það, sem var gagnrýnt, var svo hins vegar allt annað. Það var í fyrsta tagi gagnrýnt að þm. skyldu ákveða laun sín sjálfir. Það er vond regla og verður ævinlega til þess að varpa á Alþingi villandi ljósi. Það, sem einnig var gagnrýnt, voru skattamál — sú staðreynd að hlunnindi, sem þm. fengu, bílastyrkir og annað slíkt, voru ekki færð inn og út á skattaskýrslum. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kvaddi sér hljóðs utan dagskrár, að mig minnir fyrir ári eða tveimur, um þessi efni. Ég hygg að þetta hafi nú verið lagfært og er það af hinu góða. Í þriðja lagi var það gagnrýnt á sínum tíma að þm. fengu greitt fyrir ferðir sem þeir sannanlega fóru ekki. Því var komið svo fyrir a.m.k. í einu kjördæmi þessa lands, — ég vil nefna það, það var Vesturlandskjördæmi, — að menn fengu reiknaðan meðaltalskostnað af leiðinni Reykjavík-Stykkishólmur-Reykjavík og fengu þetta greitt 24 sinnum. Þetta er náttúrlega aðferð sem mig langar til að nota stór orð yfir, en stilli mig um. Og í fjórða lagi var það gagnrýnt, og ég veit ekki hvort hæstv. samgrh. kynni einhverju við það að bæta, en það var altalað, að menn flygju í kjördæmi sín, en legðu fram bensínnótur í staðinn. Hver einasti hv. þm. veit við hvað er átt í þessum efnum. Svo var komið þegar verðbólgan hér var meira nýjabrum og ekki óðaverðbólga, að menn voru orðnir gersamlega siðlausir og skynlausir á hvað heimilt væri í þessum efnum.

Ég vil hins vegar segja að ég met mikils þann kjark sem fram hefur komið í málflutningi hv. þm. Sverris Hermannssonar um þessi mál. Ég veit að honum finnst Alþ. vera hálfaumingjalegt þegar það hefur afsalað sér þessu valdi. Og aldrei hef ég heyrt að hann hafi með einum eða neinum hætti misnotað aðstöðu sína. Hann hefur þvert á móti verið baráttumaður fyrir tilteknu grundvallarsjónarmiði sem Alþ. skyldi hafa.

Saga þessa máls er sú, að sá, sem fyrstur flutti hér frv. um Kjaradóm, var hv. þm., sem þá var, Gylfi Þ. Gíslason. Við Eiður Guðnason endurfluttum þetta frv., þegar við komum hér inn á þing, mjög snemma á 100. löggjafarþinginu árið 1978. Þá fékk það ekki hljómgrunn. Þegar launamál þingmanna komust í hnút eina ferðina enn s.l. vor gerði hæstv. forsrh. þessa hugmynd að sinni og sparkaði þá drengilega aftan í samþingismenn sína og vildi nú að málin væru lögð í Kjaradóm.

Þetta er auðvitað tilraun. Alþ. getur hvenær sem er tekið þessi mál að sér aftur ef það svo kýs. Ég vil aðeins minna á það, um hvaða gagnrýni liðinna ára hefur snúist. Sumt hefur verið fært til betri vegar. En ég endurtek, herra forseti, að ég styð þetta frv.