17.11.1980
Neðri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Við framsögu þessa máls gaf hæstv. fjmrh. ærin tilefni til að mál þetta verði rætt á víðara grundvelli en efnið að öllu jöfnu gefur ástæðu til. Annars vegar ræddi hann frv., sem til umr. er, mjög afmarkað, en fór síðan í að ræða orsakir þeirra samninga sem að baki samkomulagsins um frv. eru, um hve góðir samningarnir við BSRB væru og um áhlaup ríkisstj. á verðbólguna. Hæstv. ráðh. ræddi jafnframt um verðbólguna almennt og efnahagsráðstafanir ríkisstj., sem hann kvað til þessa hafa verið framkvæmdar af ríkisstj., og taldi jafnframt upp undir fjórum töluliðum hverjar þær leiðir hefðu verið sem farnar hefðu verið til þessa. Fjórði liðurinn í aðgerðum ríkisstj. gegn verðbólgunni var svokallaðir frjálsir samningar opinberra starfsmanna og hæstv. fjmrh. Að mati hæstv. ráðh. eru þessir samningar efnahagsráðstöfun.

Það er ærin ástæða fyrir hv. þd. að nýta tækifærið, sem hæstv. ráðh. gefur með yfirlýsingum þessum, til umr. um öll þessi mál, því það hefur verið nær ómögulegt til þessa að fá nokkrar upplýsingar hjá hæstv. ráðh. og hjá hæstv. ríkisstj. í heild um einstaka þætti þessara mála eða um fyrirhugaðar ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum, sem þó hafa verið margboðaðar og mjög ítarlega í stefnuræðu hæstv. forsrh. En áður en ég kem að því eru hér nokkrar fsp. sem mig tangar til að leggja fyrir hæstv. ráðh. varðandi efnisatriði málsins sjálfs.

Það, sem um er að ræða, er að gerðir hafa verið samningar og hæstv. ríkisstj. eða hæstv. fjmrh. fyrir hennar hönd hefur tekið að sér að tryggja framgang þessa frv. í deildum Alþ. til staðfestingar þeim samningi sem hann gerði við opinbera starfsmenn þess efnis, að ég tel að sumu leyti að jaðrað geti við skerðingu þeirra réttinda sem stjórnarskrá Íslands kveður á um. En varðandi eignarrétt í þessu máli leyfir hæstv. ráðh. sér, án þess að ræða nokkuð við forsvarsmenn eða eigendur þeirra stofnana sem frv. getur um, að semja við þriðja aðila um stöðu þessara stofnana, um rekstur þeirra og fjárhag. Það tel ég hefði átt að vera lágmarkskurteisi af hæstv. ráðh. og fulltrúum hans að ræða við þá aðila sem sjálfseignarstofnunum stjórna og eru í sumum tilfellum fulltrúar eigenda.

Með frv. er verið að samþykkja kvaðir á þessar stofnanir sem ekki liggur neitt fyrir um hvernig eigi að mæta eða leysa. Að vísu segir í 1. gr. frv. um kjarasamninga BSRB að til þurfi að koma samþykki viðkomandi stofnana. Ég leyfi mér að fullyrða að þegar um er að ræða önnur eins réttindi og fríðindi og er að finna í samningum opinberra starfsmanna fyrir það fólk sem ekki nýtur t.d. sambærilegra lífeyrisréttinda og þeir búa við, þá er auðvitað útilokað fyrir þessar stofnanir að standa gegn óskum starfsfólks um að taka þátt í og fá hlutdeild í slíkum fríðindum. Þetta hefur verið hægt og hefur verið gert fram til þessa, en það hefur verið gert á þann hátt, að viðkomandi stofnanir hafa notað heimildarrétt t.d. til aðildar að lífeyrissjóði og viðkomandi stofnanir hafa orðið að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis, að þær væru reiðubúnar að greiða endurkröfu vegna verðtryggingarinnar frá ríkissjóði eða Tryggingastofnun ríkisins, sem fer með stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs í þeim tilfellum sem þekkst hafa til þessa. Af illri nauðsyn hefur verið staðið á móti þessum réttindum fyrir þá sem ekki eiga lagalegan eða samningslegan rétt til þessa, en auðvitað hafa margir úr röðum þeirra, sem starfa á slíkum stofnunum, átt þennan rétt, læknar, a.m.k. sumir þeirra, hjúkrunarkonur og ýmsir sérmenntaðir aðilar sem eiga hlut að. Nú mun að sjálfsögðu vaxa ásókn í að fá þessa aðild, en ég sé ekki enn þá að nokkur möguleiki sé á að mæta þeirri ásókn nema hæstv. ráðh. hafi líka gert ráðstafanir til þess að koma á móti auknum kostnaði sem af því leiðir.

Þá má benda á atvinnuleysisbæturnar, sem eru sjálfsögð mannréttindi fyrir það fólk sem við stofnanir þessar starfa eins og alla aðra í þjóðfélagi okkar. Meðan við búum við það kerfi, sem þessar stofnanir búa við, verður að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því, hvernig eigi að mæta þeim kostnaði sem ætlað er að geti fallið á þessar stofnanir vegna atvinnuleysisbóta. Gert er ráð fyrir í frv. að ef eigandinn er annaðhvort ríkið sjálft í sameign við sveitarfélag eða sveitarfélögin falli kostnaður þeirra á skattborgarana í báðum tilfellum, en ég veit satt að segja ekki hvert hæstv. ráðh. ætlar að þessi kostnaður eigi að falla hjá sjálfseignarstofnunum sem sumar hverjar verða að búa eingöngu að því fé sem kemur inn í vistgjöldum fólks sem borgar fyrir sig sjálft að öllu leyti eða stórum hluta, en meginhluti tekna kemur frá slíku fólki, en lítill hluti frá sjúkratryggingum ríkisins, enda eru þær greiðslur ekkert annað en greiðslur fyrir veitta þjónustu, eins og hæstv. ráðh. einnig yrði að greiða fyrir ef hann t.d. færi í ferðalag og dveldi á hóteli.

Það eru þessi tvö atriði sem mér finnst að hæstv. ráðh. þurfi að útskýra nánar hér í hv. deild áður en málið fer til nefndar eða nefndin kanni nánar með hliðsjón af því sem ég hef sagt.

Ég skal viðurkenna fúslega að það hefur gengið nokkuð vel á liðnum árum að útskýra fyrir þeim, sem fara með þessi mál, erfiðleika þessara stofnana, og þar á ég við daggjaldanefnd. En staðreyndin er sú, að daggjaldanefnd er ekki ein í ráðum. Það er hæstiréttur yfir daggjaldanefnd sem úrskurðar um svokölluð daggjöld, ríkisstj. sjálf. Þar á meðal er hæstv. fjmrh., sem hvað þyngstur hefur verið fyrir þegar þurft hefur að leita til hæstv. ríkisstj. um að koma á móti verðbólguauka þeirra gjalda og til viðbótar þeim gjöldum sem sjúkratryggingarnar eiga að borga. Betri skilningur hjá daggjaldanefnd hefur m.a. fengist af því að þeir hafa betra upplýsingastreymi frá viðkomandi stofnunum og þeir hafa fallist á, sem er ekki aðeins skoðun, heldur staðreynd, að allt annað líkan verði að setja upp fyrir slíkar stofnanir en t.d. fyrir spítala á höfuðborgarsvæðinu eða sjúkrahús úti á landi. Það er allt önnur uppbygging á rekstrinum, það er allt önnur skipting á starfsfólki.

Það tók nokkur ár að koma viðkomandi ráðh. í skilning um að láglaunastefna hlýtur að hafa miklu meiri áhrif á rekstur þeirra stofnana sem eru að meginhluta til með táglaunafólk á lista sínum yfir launagreiðslur. Það er ekki nema eðlilegt að aðgerðir, sem beinast sérstaklega að því að bæta kjör þessa fólks, láglaunafólksins, komi hvað þyngst niður á slíkum stofnunum. Ég hef áður bent á, og hef reyndar bent á það bæði fyrr og síðar, að auðvitað er ekki hægt fyrir þessar stofnanir að standa á móti því að viðkomandi fólk, ef það hefur nokkurn möguleika á því að ná til þeirra góðu kjara sem um er að ræða hjá opinberum starfsmönnum, fái aðild að þeim góðu kjörum sem það fólk býr við, og vega lífeyrisréttindin þar mest.

Til viðbótar þessu hlýtur sú spurning að vakna, hvort baksamningar hafi verið gerðir um að starfsmenn ákveðinna starfsgreina hjá sjálfseignarstofnunum, sem BSRB hefur samið fyrir á ríkisspítölunum, verði að gerast meðlimir í félögum BSRB. Sá ótti hefur komið upp. Ég bendi á að í viðkomandi stöðum hafa oft og tíðum verið aðilar sem tilheyra félögum sem eru innan ASÍ eða jafnvel í félögum hjá öðrum landssamtökum. Ég hef ekki trú á því, að þetta sé svona, en gott væri ef n. vildi láta heyra frá sér varðandi þetta atriði til þess að það valdi ekki misskilningi út í frá.

Það, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. varðandi 1. gr. frv., er að með samþykkt þessa frv. sé verið að áskilja samþykki viðkomandi stofnana við því, að þær afhendi hæstv. fjmrh. umboð til þess að semja fyrir sína hönd við samtök starfsmanna. Þetta eiga stofnanirnar að gera á sama tíma og þær hafa enga tryggingu fyrir því neins staðar frá, að neitt fjármagn komi á móti, að stofnanirnar fái neinar tekjur til að mæta þeim aukna kostnaði sem hæstv. ráðh. semur um. En það vita auðvitað allir, að þetta kemur nær því af sjálfu sér hjá þeim stofnunum sem eru í eigu ríkisins eða sveitarfélaganna.

Í ræðu sinni svaraði hæstv, ráðh. aðfinnslum sem höfðu komið fram í sambandi við mál sem var á dagskrá nokkru á undan, en í þessari ræðu tók hæstv. ráðh. undir þær aðfinnslur sem fram höfðu komið frá hv. 10. þm. Reykv. Friðrik Sophussyni, varðandi fátæklegan búnað slíkra frv. til staðfestingar brbl. frá ríkisstj., ekki aðeins þessari ríkisstj., heldur á hverjum tíma, þar sem þær grg., sem fylgdu frv., væru ákaflega lítils virði til þess að fá upplýsingar um hvert í raun og veru væri verið að fara með viðkomandi frv. Má vera að sumar af þeim spurningum, sem ég hef leyft mér að bera hér fram, séu einmitt fram bornar vegna þess að hvorki í frv. né ræðu hæstv. ráðh. hafi verð að finna nægar skýringar á viðkomandi atriðum.

Þessu næst sneri hæstv. ráðh. sér að því að ræða um kjarasamningana sem þátt í efnahagslegum aðgerðum. Hann sagði m.a. að þessir samningar hefðu ótvírætt marga kosti frá efnahagslegu sjónarmiði, hér hafi verið um hóflega samninga að ræða. Það er rétt, að hér er um að ræða mjög hóflega samninga þegar haft er í huga að kaupmáttur þessa fólks, eins og allra annarra á þessu landi, hefur verið að skerðast stórlega síðustu misserin — ekki aðeins frá því að þessi hæstv. ríkisstj, tók við völdum, heldur og ekki síður frá því að sú ríkisstj. tók við völdum sem lofaði því og gekk til kosninga og sigraði í kosningum á grundvelli þess, að kaupmátturinn skyldi ekki verða minni en hann varð eftir samningana 1977, svokallaða sólstöðusamninga.

Það vita auðvitað allir, hvernig þetta hefur farið, en þó mun ég koma aðeins að því síðar. En um leið og hæstv. ráðh. viðurkennir að þessir launajöfnunarsamningar hafi mikla virkni fyrir viðkomandi aðila, þá vitna ég aftur til þess sem ég sagði áðan um sjálfseignarstofnanirnar, sem frv. fjallar um, að þeir hljóta þá að hafa langmestu áhrifin á þær stofnanir sem eru með innan sinna vébanda 85–90% af starfsfólkinu í svokölluðum láglaunaflokkum.

Hæstv. ráðh. kom inn á það í umræðum sínum um efnahagsmál almennt, að verðbótavísitalan nú mældi ekki jafnmikla hækkun og framfærsluvísitalan, og kom réttilega inn á það líka, að þetta væri vegna þess að miðað væri við að ekki kæmu til framkvæmda inn í framfærsluvísitöluna allar breytingar sem yrðu á viðskiptakjörum. Það væru auðvitað nokkrir liðir sem væru dregnir frá við útreikning verðbótavísitölunnar. Þetta er, eins og hv. þm, muna, eitt af ákvæðum svokallaðra Ólafslaga sem allir vinstri flokkarnir, Framsfl., Alþfl. og Alþb., hrósuðu hvað mest og allir vildu þá Lilju kveðið hafa, ekki síst Alþfl., og má segja að Alþb. hafi gengið á hæla þeirra í því að hrósa þessum lögum. Í sjálfu sér má segja að það, sem hafi unnist með þessum lögum, hafi fyrst og fremst verið að staðfesta klókindi hæstv. þáv. forsrh., Ólafs Jóhannessonar, sem vann frækinn sigur með því að fá þessi lög samþykkt, en þau voru einmitt í anda skoðana hans, Geirs Hallgrímssonar, Gunnars Thoroddsens o.fl. ráðh. sem áttu sæti í ríkisstj. 1974–1978 og héldu margoft fram að einmitt slíkar lagfæringar þyrftu að fást fram, breytingar á verðbótavísitölunni. En það var ekki fyrr en í stjórn komu Alþb. og Alþfl. að Ólafi Jóhannessyni tókst að ná þessu fram. Áður var það ekki hægt vegna þeirra sem ráða í verkalýðshreyfingunni. Þeir gátu ekki hugsað sér og töldu af hinu illa allt það sem gert yrði til breytinga á þessari verðbótavísitölu.

Niðurstaðan er sú, eftir að þetta kerfi er búið að vera í gangi, og er öllum augljós eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi, að þetta kemur ekki aðeins niður á láglaunafólki, heldur á öllum launamönnum. En að sjálfsögðu hlýtur það að koma hvað þyngst niður á þeim sem eru með lægstu launin. Það liggur í hlutarins eðli. Hinir launaháu verða síður varir við þá skerðingu sem af þessu hlýst. En ósköp er hjákátlegt að hlusta á það hér á hv. Alþ., að einn af frumkvöðlum þess, þm. sem stóð fyrir því ásamt flokksbræðrum sínum að koma ríkisstj. 1974–78 frá, skuli hafa gripið til sömu aðgerða og þá höfðu verið boðaðar af ráðh. og stuðningsþingmönnum þeirrar ríkisstj., að hann skuli hafa gripið til þess að telja það af hinu besta sem gert var, þvert ofan í sín fyrri orð, og standa nú upp á Alþ. og hrósa því sem hefur náðst út úr þessum aðgerðum, þessum ákvæðum Ólafslaga, þ.e. um rýrnandi og stórminnkandi kaupmátt launa vegna versnandi viðskiptakjara. Öðruvísi mér áður brá.

Nú sagði hæstv. ráðh. líka í þessari sömu ræðu að verðbólgan væri á fullri ferð niður á við. Það eru alveg furðulegir talnaleikir sem hafa verið viðhafðir í sambandi við þetta atriði. Í Þjóðviljanum 13. nóv. segir m.a. efnislega á þessa leið: Verðbólgan er á niðurteið, hún var 61% í fyrra, en 51% nú. Og síðan eru reiknaðir síðustu þrír mánuðirnir. Það eru teknar með í þann útreikning allar niðurgreiðslurnar, sem nema tugum milljarða króna, og framreiknað síðan til heils árs, og síðan leyfir hæstv. ráðh. sér — og reyndar ríkisstj. í heild — að fullyrða að verðbólgan sé á fullri ferð niður á við. Aðrar eins blekkingar hafa líklega sjaldan komið fram hér á hv. Alþ. eins og þessar fullyrðingar, sem hafa verið bæði í stuðningsblöðum ríkisstj. og hjá hæstv. ráðh. í sambandi við stöðu verðbólgunnar í dag.

Það var mjög góð skýring á þessu í Alþýðublaðinu fyrir skömmu og kemst nú ekki oft mikið fyrir í því blaði, en þetta komst þó í litla rammagrein á forsíðu blaðsins, þar sem á þetta var bent m.a., með leyfi forseta:

„Á seinustu fimm mánuðum í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar árið 1979 hækkaði framfærsluvísitalan um 27%. Það þýðir 80% verðbólgu, framreiknað til heils árs. Næstu fimm mánuði í tíð minnihlutastjórnar Alþfl. hækkaði framfærsluvísitalan um 16–17%. Það þýðir 44% verðbólgu á heilu ári. Niðurstaðan er því sú, að á þeim rúma meðgöngutíma sem ríkisstj. Gunnars Thoroddsens hefur setið við völd, hefur hraði verðbólgunnar aukist úr 44% í 51% miðað við sambærilegar forsendur. Hraði verðbólgunnar hefur m.ö.o. aukist um tæplega fjórðung. Það er nú öll niðurtalningin.“

En það hefur auðvitað komið í ljós í sambandi við þessar fullyrðingar, að öll markmið og allar áætlanir ríkisstj. um niðurtalninguna — um að verðbólgan mundi minnka og mundi verða þetta og þetta á ákveðnum tímum, ekkert af því hefur staðist. Nú síðast var ætlað að hún ætti að verða miklu minni en nú er, og það er meginmálið. En það er ekki meginmál, eins og virðist vera hjá hæstv. fjmrh., hvort hún sé 10.5, 11 eða 11.5% á einhverju ákveðnu tímabili. Samkvæmt stefnu ríkisstj. og með þeim aðgerðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert til þessa, átti hún að vera miklu minni. Og það hefur brugðist. Eins hafa brugðist allar áætlanir þeirra í öll þau skipti sem verðbólguna átti að telja niður og hún átti að fara niður á við. Og það er meginmál.

Auk þess hefur auðvitað aldrei verið gegnið framar í þeirri ósvífni sem hefur oft og tíðum verið sýnd launafólki á Íslandi með blekkingum í sambandi við verðbætur launa eða vísitöluna sem liggur þar til grundvallar. Það hefur aldrei verið jafngegndarlaust reynt að svíkja og falsa þessa vísitölu til þess að koma í veg fyrir að þær launahækkanir, sem í kjölfarið áttu að koma, næðu fram. Þetta hefur verið gert m.a. með því að greiða niður kjöt sem ekki hefur verið til. Það hafa verið haldnar skyndiútsötur á smjöri og seld hundruð tonna, aðeins til þess að geta sýnst, til þess að sýndarmennskan gæti verið enn um sinn við völd í þessu þjóðfélagi og haldið áfram á sama hátt og hún byrjaði.

Það er að sjálfsögðu full ástæða til þess og Alþ. á fulla kröfu á að fá skýringar frá hæstv. ríkisstj. á því, hvaða leiðir ríkisstj. ætli að fara upp úr áramótunum í efnahagsaðgerðum sínum. Ríkisstj. hefur gefið út yfirlýsingar um að margar þýðingarmiklar og áhrifamiklar efnahagsaðgerðir muni fylgja í kjölfar myntbreytingarinnar um áramót, sem ein út af fyrir sig — eins og hér hefur margoft verið bent á — hefur nákvæmlega ekkert að segja í sambandi við baráttuna við verðbólguna, alls ekki neitt, og hefur ekkert upp á sig annað en kostnað fyrir þjóðarbúið í heild ef ekki fylgja einhverjar aðgerðir.

Það er sjálfsögð krafa, að nú láti ríkisstj. eitthvað heyra í sér áður en þessi mánuður líður. Síðari hluta þessa mánaðar eru að koma hingað til þings í Reykjavík fulltrúar um 53 þús. launþega víðs vegar að af landinu, sem hafa þá staðreynd fyrir framan sig, m.a. úr yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að kaupmáttur hefur stórrýrnað í stjórnartíð núv. hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir það að þessir ráðh. hafi komist í stjórn m.a. með stuðningi þessa sama fólks sem er að koma til ASÍ-þings í haust og kemur á fjögurra ára fresti, þeir hafi komist til valda í þjóðfélaginu meðfram vegna stuðnings einstaklinganna þar og vegna misnotkunar á einstökum verkalýðsfélögum innan heildarsamtaka verkalýðsins, sem jafnframt voru misnotuð af þessum sömu herrum óbeint. Það hefur verið gert óbeint í gegnum alla þá mútupakka sem hafa verið á ferðinni í þessu þjóðfélagi á undanförnum árum. Þeir hafa verið þar samhliða ágætum félagsmálapökkum.

Ég skal, herra forseti, láta þessu máli lokið, vil þó aðeins benda á eitt atriði til viðbótar úr ræðu hæstv. fjmrh. — eða reyndar fjögur: þau atriði sem hæstv. fjmrh. taldi til efnahagsaðgerða ríkisstj. fram að þessu.

Fyrsta efnahagsaðgerðin, sagði hæstv. ráðh., var að samþykkja fjárlög á s.l. ári. Verðbólgan hefði átt að vera komin ofan í núll því að það voru samþ. eða lögð fram tvenn fjárlög, meira að segja Alþfl. tókst að koma fram fjárlagafrv., en aldrei heyrði ég þá tala um það í forsendum fyrir því frv., að þeir væru sérstaklega að kveða verðbólguna í kútinn, enda held ég að allir, sem hafa fylgst með málum hér á hv. Alþ. á liðnum árum og efnahagsaðgerðum sem ríkisstj. á hverjum tíma hafa orðið að gera, viðurkenni að samþykkt fjárlagá er í sjálfu sér ekki efnahagsaðgerð. Að vísu geta fjárlög haft ákveðið stjórnunargildi. En fjárlög verður og á auðvitað að samþykkja á hverju ári, þannig að þetta var ekkert kraftaverk hjá hæstv. ríkisstj., henni bar lagaleg skylda til að fá samþykkt fjárlög. En fjárlög þau, sem voru samþykkt hér á Alþ. fyrri hluta þessa árs, voru verðbólgufjárlög, verðbólguhvetjandi í einu og öllu. Þótt innan ramma fjárlaga sé getið um niðurgreiðslur sem stöðvuðu um sinn framgang verðbólgu eða kannske rétt á meðan verið er að reikna út vísitölu launa, er ekki hægt að segja að það sé einhver sérstök aðgerð, efnahagsleg aðgerð í baráttunni við verðbólguna. Þetta er hinn mesti misskilningur.

Önnur efnahagsaðgerðin, sem hæstv. ráðh. gat um að hann og hæstv. ríkisstj. hefðu afrekað á liðnu ári, var samþykkt skattalaga á s.l. vori. Hann hafði orðrétt, með leyfi forseta, þessi orð yfir eftir að hann hafði getið um þessar tvær efnahagsaðgerðir sínar:

„Ef hvorugt þessara mála hefði náð fram að ganga vegna allsherjarstjórnleysis hér á Alþ. og í þjóðfélaginu, þá býst ég við að efnahagsástandið mundi vera allmiklu verra en það er.“

Ja, sei, sei. Það hefði bara verið algert stjórnleysi ef þetta hefði ekki verið samþykkt! Undir þetta getum við allir tekið heils hugar.

Heldur hæstv. fjmrh. virkilega að Alþingi Íslendinga hefði ekki komið saman fjárlögum án hans og þessarar hæstv. ríkisstj., að ég tali nú ekki um vegna þess að fullsmíðað fjárlagafrv. lá fyrir? Eða heldur hæstv. fjmrh. að Alþingi Íslendinga hefði ekki getað samþykkt þau skattalög sem þeir segja, þegar aðfinnslur eru uppi um núgildandi skattalög, að hafi verið samþykkt í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens og Ólafs Jóhannessonar? Þurfi hins vegar að hrósa þeim eru þau gerð og samþykkt af núv. hæstv. ríkisstj. Sá sannleikur, sem í þeirri gagnrýni og hrósi hins vegar liggur„ er að þau skattalög, sem voru samþykkt í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar, voru miðuð við að staðgreiðslu skatta yrði komið á, en nú er mikilvægum atriðum núgildandi skattalaga haldið óbreyttum frá því þá án þess að taka þá höfuðstaðreynd til greina.

Þriðja stóraðgerðin í efnahagsmálum, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur framkvæmt á liðnu ári að mati hæstv. fjmrh., er að undirbúin var lánsfjáráætlun sem — eins og hann sagði — varðar vissulega verulega miklu fyrir allt efnahagslífið. Nú hef ég átt sæti á þingi um tveggja áratuga skeið og um langt árabil hefur verið samin og samþykkt hér á Alþ. svokölluð lánsfjáráætlun. Ég hef aldrei heyrt það fyrr, að þessi lánsfjáráætlun væri talin til mikilvægustu efnahagsaðgerða. Þetta er eitt af stjórnunartækjum ríkisstj. á hverjum tíma og það er bundið í lögum að samþykkja lánsfjáráætlun, svo að það verða allar ríkisstj. að gera, en að þetta sé einhver sérstök efnahagsaðgerð fæ ég ekki séð. Ekki eins og hún kom úr garði þeirra sem að henni unnu.

Að síðustu var fjórða aðgerðin í efnahagsmálum kjarasamningarnir við opinbera starfsmenn og sú mikla vinna sem í þá var lögð. Ég hef nokkuð getið um hlut þeirra og þau áhrif sem þeir hafa. Það hefur tekist með harmkvælum að ná fram fyrir aðra launþega í landinu hluta þess sem opinberir starfsmenn fengu í sínum samningum, aðeins hluta, vegna þess að þeir eiga alls ekki kost á og það er útilokað að þeir eigi kost á því að ná fram þýðingarmestu atriðunum sem opinberir starfsmenn njóta í sínu launakerfi, og þar á ég að sjálfsögðu við hinn verðtryggða lífeyrissjóð. Það er margt annað sem allur þorri launamanna í landinu nýtur ekki þótt opinberir starfsmenn njóti þess. Og það eru fleiri en ég sem telja að þeir samningar, sem gerðir voru nú milli opinberra starfsmanna og hæstv. fjmrh., hafi enn teygt bilið sem þegar þótti ærið á milli almennra launamanna annars vegar og svo opinberra starfsmanna hins vegar. Og satt að segja sé ég ekki fram úr því hvernig má ná þessum endum saman þannig að láglaunafólk í þessu landi megi vel við una, það fólk sem hvað frekast ætti að búa við verðtryggðan lífeyri í þessu landi. Ég held að það væri full ástæða til fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að ná höndum saman við alla aðila hér á þingi, ekki aðeins eigin flokksbræður, heldur stjórnarandstöðuna líka, til að ráða fram úr þessu mikla vandamáli. Ég minni enn einu sinni á það — ég hef gert það áður úr ræðustól á Alþ. — ég minni enn á það frv. sem tvívegis var lagt fram hér á Alþ. af þáv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, sem ég persónulega er sannfærður um að er þannig úr garði gert að það getur leyst þann vanda sem að er stefnt að leysa, enda veit ég að tillögur hans í þessum málum eiga mjög vaxandi fylgi að fagna innan verkalýðshreyfingarinnar.

Herra forseti. Að síðustu vil ég enn aðeins minna á að nú hafa verið lagðar fram tvær fsp. til hæstv. forsrh. hér á Alþ. um það, hvort ríkisstj. ætli að skýra annars vegar Alþingi og hins vegar fulltrúaþingi 53 þús. launþega frá því, í hverju hinar eiginlegu efnahagsaðgerðir ríkisstj. verði fólgnar upp úr áramótunum, sem ríkisstj. hefur lofað. Ég tel að þessir aðilar eigi kröfu á því, að ríkisstj. láti vita um í hvaða formi sú kjaraskerðing og kaupmáttarrýrnun eigi að verða sem nú er unnið að innan hæstv. ríkisstj. að koma á. Mér finnst að það eigi að vera svo mikill mannsbragur á þessum mönnum, að þeir geti komið og rætt þetta við viðkomandi aðila, þótt ég hins vegar hafi ekki þá trú á núv. hæstv. forsrh., að hann hafi kjark eða þor forsrh. 1958 sem kom þá á Alþýðusambandsþing sællar minningar. Hins vegar getur hæstv. ríkisstj. svarað bæði hér á þingi og tilkynnt þinginu sjálfu hvað sé fyrirhugað. Annars tel ég óhjákvæmilegt að Alþýðusambandsþing sjálft annaðhvort fresti sínu þinghaldi fram í marsmánuð eða að það samþykki að kalla saman nýtt þing í þann mund er þessar ráðstafanir birtast hjá hæstv. ríkisstj., þannig að löglega kjörnir fulltrúar alls þessa mikla fjölda eigi kost á því að taka afstöðu til þeirra á þingi sínu, hvort sem það heitir framhaldsþing eða aukaþing.