17.11.1980
Neðri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á lögum nr. 15 1979, um breyt. á lögum nr. 101 1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarafurðum o.fl., er flutt til þess að teita staðfestingar Alþingis á brbl. sem gefin voru út hinn 23. júní s.l.

Áður en ég hef að skýra efni frv. tel ég rétt að rifja það upp, að á síðari árum höfum við átt í vaxandi erfiðleikum við að ná viðunandi verði fyrir landbúnaðarafurðir okkar erlendis. Þetta á þó einkum við um mjólkurafurðir því nú er svo komið, að fyrir flestar leg undir af ostum fáum við á Bandaríkjamarkaði aðeins sem svarar vinnslukostnaði, en þá um teið ekkert upp í framleiðslukostnað. Hvað snertir sauðfjárafurðir er staðan nokkuð önnur þar sem við fáum í kringum 35% af framleiðslukostnaði fyrir þær vörur erlendis. Þessar erfiðu markaðsaðstæður stafa auðvitað fyrst og fremst af þeirri miklu verðbólguþróun sem staðið hefur á Íslandi í fjölda ára og þó einkanlega nú á síðasta áratug. Framleiðslukostnaðurinn hefur vaxið miklu hraðar hér innanlands heldur en unnt hefur verið að mæta með verðhækkunum erlendis.

Á sama tíma hefur það gerst, að neysla landbúnaðarvara innanlands hefur ekki fylgt eftir fjölgun þjóðarinnar, og raunar má segja að í neyslu á flestum tegundum landbúnaðarafurða hafi orðið samdráttur á síðari árum, einkum þó á nýmjólk og smjöri. Forustumönnum bændasamtakanna hefur verið þessi þróun ljós og jafnframt hefur þeim verið ljós nauðsyn þess að bregðast við þessu ástandi. Þannig höfðu forustumenn bændasamtakanna óskað eftir því allt frá árinu 1972, að fá lögfestar heimildir í framleiðsluráðslögum sem beita mætti til áhrifa á framleiðsluþróun.

Síðari hluta vetrar 1979 voru samþykkt lög á Alþingi um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem fela í sér allvíðtækar heimildir til Framleiðsluráðs landbúnaðarins og bændasamtakanna til þess að hafa áhrif á framleiðslu búvara. Lögin heimila í fyrsta lagi að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda, t.d. á þann veg að skerðing komi á verð fyrir ofan tittekið framleiðslumagn, eins og gert var ráð fyrir í tillögum svokallaðrar sjö manna nefndar. Enn fremur er heimilt að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir tiltekinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem þar er umfram, og er þar átt við svokallað kvótakerfi. Þá er heimilt með samþykki ríkisstj. að greiða hluta af niðurgreiðslu til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn, allt að ákveðnu marki, en síðan lækkandi eftir því sem framleiðsla vex þar fyrir ofan. Einnig er heimilt, svo sem verið hafði í lögunum, að innheimta framleiðslugjald til verðjöfnunar, en tekið upp að það mætti vera mishátt eftir bústærð ef ástæða þætti til. Heimilt var að nota samtímis ofangreindar heimildir. Í lögunum var enn fremur veitt heimild til þess að leggja sérstakt gjald á innflutt kjarnfóður, en sú heimild var miklum takmörkunum háð sem gerðu lagaákvæðin mjög erfið í framkvæmd.

Aðalfundur Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins ákváðu á árinu 1979 að velja þá af þessum leiðum sem kölluð hefur verið kvótakerfi. Síðan hefur verið unnið að útfærslu á þessu kerfi og hefur sú vinna reynst meiri og erfiðari en flestir höfðu gert ráð fyrir í upphafi. Fljótt komu í ljós vankantar á kvótakerfinu sem lagaheimildir var talið skorta til að hægt væri að sneiða hjá. M.a. af þessum sökum var ákveðið að gefa út þau brbl. sem hér eru í frumvarpsformi lögð fyrir Alþingi.

Margar fleiri ástæður lágu til þeirrar ákvörðunar. Frv. og brbl. fela einkum í sér tvö efnisatriði. Í fyrsta lagi rýmkaðar heimildir til að mæta sérstökum ástæðum einstakra bænda, þegar greitt er mismunandi verð til framleiðenda eða beitt kvótakerfi. Einkum er um að ræða heimildir til að rýmka ákvæði kvótakerfisins hjá þeim sem höfðu nýlega hafið búskap eða lagt í miklar fjárfestingar og bjuggu við mikla fjármagnsbyrði. Margar fleiri ástæður gátu orðið þess valdandi, að nauðsynlegt var að rýmka ákvæði kvótakerfisins. Hafa þær komið í ljós eftir því sem áfram þokar þeirra vinnu sem lögð hefur verið í þetta kerfi. M.a. eru það sérstök áföll, sem menn hafa orðið fyrir, og fleira sem ekki verður rakið hér.

Í öðru lagi er í lögum þessum heimild til að leggja á allt innflutt kjarnfóður sérstakt gjald sem má vera allt að 200% af innkaupsverði vörunnar. Jafnframt eru veittar heimildir til þess að endurgreiða gjaldið að hluta eftir reglum sem Framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður. Í brbl. eru ákvæði til bráðabirgða þar sem landbrh. er heimilað við gildistöku laganna að ákveða að leggja gjald á innflutt kjarnfóður þótt ákvörðun fulltrúafundar Stéttarsambands bænda um það efni liggi ekki fyrir, en aðalregla laganna er sú, að þær aðgerðir, sem gripið er til, séu eftir tillögum Framleiðsluráðs og í samræmi við samþykkt fulltrúafundar Stéttarsambands bænda.

Þegar í stað var ákveðið að nota heimildir laganna um kjarnfóðurgjald að fullu. Jafnframt var gefin út reglugerð um breytingu á reglugerð við framleiðsluráðslögin til samræmis við þær lagabreytingar sem brbl. fólu í sér. Reglugerðinni var enn breytt 29. ágúst, einkanlega í þá átt að gera ákvæði um undanþágur frá kjarnfóðurgjaldi skýrari og einnig að setja skýrari ákvæði um greiðslufrest og annað þess háttar er lýtur að innheimtu kjarnfóðurgjaldsins.

Eins og lögin gera ráð fyrir annast Framleiðsluráð landbúnaðarins framkvæmd þeirra. Var Framleiðsluráði þegar tjáð að nauðsynlegt væri að ákveða þegar endurgreiðslur eða undanþágur að hluta á kjarnfóðurgjaldi til þeirra sem stunda alifuglarækt og svínakjötsframleiðslu. Í reglugerð segir þó um undanþágur frá gjaldinu eða endurgreiðslu, að endurgreiðslan skuli þó að jafnaði vera innan þeirra marka, að niðurgreiðslur erlendis hafi ekki áhrif á söluverð á kjarnfóðri innanlands.

Samtímis þessum aðgerðum ritaði ég bréf til Framleiðsluráðs landbúnaðarins þar sem mælst er til þess, að fé það, sem innheimtist samkv. brbl. verði m.a. notað til að létta verðskerðingu kvótakerfisins þannig að fullt verð fáist fyrir fyrstu 300 ærgildisafurðir hvers bónda á lögbýli.

Nokkrar breytingar hafa orðið á framkvæmd laganna frá því þau voru sett. Í fyrstu var ákveðið að framleiðendur svínakjöts og alifugla og eggjaframleiðendur skyldu greiða 50% gjald af innfluttu fóðri. Þetta gjald var sem næst í samræmi við það ákvæði reglugerðarinnar, að að jafnaði skyldu niðurgreiðslur Efnahagsbandalagsins á fóðri, sem flutt er til Íslands, ekki hafa áhrif á verð þess hér innanlands.

1. ágúst var ákveðið að lækka þetta hlutfall í 40% frá og með 5. ágúst, sem var að nokkru leyti til samræmis við það, að lækkun hafði orðið á niðurgreiðslum Efnahagsbandalagsins á fóðri sem selt var til Íslands. Þá var samþykkt á aðalfundi Stéttarsambands bænda dagana 30. ágúst til 2. sept. að leggja til við Framleiðsluráð, að kjarnfóðurgjaldið yrði lækkað í 33.3%, og gerðar tillögur um eins konar kjarnfóðursskömmtun. Hefur kjarnfóðurgjaldið verið í samræmi við þetta frá 1. sept. s.l. og ákvörðun um þá hlutfallstölu verið staðfest til bráðabirgða.

Ástæður fyrir því, að nauðsynlegt var að leggja á kjarnfóðurgjald, eru margar. Í fyrsta lagi eru það markaðsaðstæður sem ég vék nokkuð að í upphafi ræðu minnar. Þrátt fyrir 6.8% fækkun mjólkurkúa haustið 1979 varð samdráttur í mjólkurframleiðslunni fyrstu 10 mánuði verðlagsársins 1979–80 aðeins 2.1%, en fyrstu 10 daga júnímánaðar kom 11% meiri mjólk til Flóabúsins — sem er langstærsta mjólkurbúið — heldur en á sama tíma í fyrra. Óvenjuleg árgæska var um land allt og heyskaparhorfur góðar. Verð á innfluttu kjarnfóðri var sennilega lægra en það hefur verið nokkurn tíma áður miðað við verð á nýmjólk. Þannig var meðalverð á kjarnfóðri 136 kr. í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins 1. júní s.l., en verð á mjólkurlítra 306 kr. Það gat því a.m.k. verið veruleg hvatning til þess fyrir bændur að nota kjarnfóður meira en góðu hófi gegndi til þess að framleiða sumarmjólk, en hún hefur skapað meginhlutann af þeim vanda sem við hefur verið að etja í mjólkurframleiðslunni og sölu mjólkurvara á síðustu árum. Að sumarlagi verður til stærsti hlutinn af vinnsluvörum mjólkurinnar sem þessum vandamálum hafa valdið. Þessar vinnsluvörur er ekki hægt að flytja úr landi fyrir hærra verð en svo, að rétt dugar fyrir vinnslukostnaði þegar best lætur, eins og áður er sagt. Þessi verðhlutföll mjólkur- og fóðurvara ásamt mikilli árgæsku hefðu getað sett af stað nýja sveiflu til aukningar í mjólkurframleiðslu sem hefði valdið stórvandræðum ef af hefði orðið.

Hið lága verð á innfluttu kjarnfóðri dró líka mjög úr viðleitni og hneigð til að bæta og auka innlenda fóðurframleiðslu og hefði kippt stoðunum undan rekstri graskögglaverksmiðjanna, ef ekki hefðu önnur ráð komið til, svo og valdið erfiðleikum í rekstri fóðurblöndunarstöðva sem reknar eru fyrir blöndun á innlendu fóðri.

Ég vil sérstaklega taka fram, að ég tel að það sé með öllu óeðlilegt að niðurgreiðslur Efnahagsbandalags Evrópu á fóðri, sem okkur Íslendingum eru óviðráðanlegar hafi áhrif á framleiðsluhætti hér á Íslandi og dragi úr möguleikum þeirra framleiðslugreina sem að mestu leyti nota innlent fóður. Við Íslendingar þurfum ekki síður en aðrar þjóðir að nota þau gæði, sem land okkar býður, og efla og bæta innlenda framleiðslu, enda þótt eðlilegt sé að leggja upp úr fjölbreytni í framleiðslugreinum þótt til þess þurfi að halda uppi nokkrum innflutningi. Ef við hefðum á hinn bóginn þurft að halda áfram að flytja inn niðurgreitt fóður frá Efnahagsbandalagslöndunum án gjaldtöku værum við í raun að rétta þau framleiðsluvandamál, sem þessar þjóðir eiga við að etja, um leið og við værum að taka á eigin herðar þyngri bagga, sem gerðu vandamál landbúnaðarins erfiðari úrlausnar. Framleiðsla og markaðsvandamál íslensks landbúnaðar voru ærin fyrir þótt við værum ekki á þann veg að taka að okkur að hjálpa til við að leysa þau vandamál sem aðrar þjóðir eiga við að etja.

Þau vandamál, sem eru samfara erfiðum markaðsaðstæðum fyrir framleiðslu búvara, eru ekkert séríslenskt fyrirbæri og margar þjóðir Vestur-Evrópu eiga við svipuð vandamál að etja. Í ágúst s.l. gafst mér kostur á að kynna mér aðferðir Norðmanna við að hafa hemil á og beita stjórnun við mjólkurframleiðslu. Þær aðferðir þóttu mér nokkuð athyglisverðar.

Norðmenn hafa notað svokallað bónuskerfi þar sem greiddur er bónus, allt að 7 aurum norskum á hvern lítra mjólkur, þeim sem draga úr framleiðslu sinni eða halda henni í sama horfi og verið hefur. Jafnframt taka þeir gjald af kjarnfóðri, sem er það hátt að kjarnfóðurverð er 15% hærra en mjólkurverð á hvern lítra. Ef þetta gilti hjá okkur væri verð á kjarnfóðri, miðað við mjólkurverð 1. okt. s.l., 391 kr. Jafnframt er fyrirhugað hjá Norðmönnum að hækka kjarnfóðurgjaldið þannig að kjarnfóðurkíló verði 30–50% dýrara en 1 lítri mjólkur. Væri þessi regla tekin upp hér yrði fóðurverð hjá okkur, miðað við verð á mjólk 1. okt. s.l., 442–510 kr. á kg eða nokkuð sambærilegt við það, sem nú væri með 200% gjaldi á innflutt fóður, og þó heldur hærra. Þessar aðgerðir Norðmanna miða auðvitað að því að vernda innlenda fóðurframleiðslu, hafa hemil á mjólkurframleiðslunni og auka innlenda fóðurnotkun. Norðmenn hafa ekki útilokað það að grípa til kvótakerfis, ef þær aðgerðir sem hér hafa verið raktar að framan, duga ekki. En þeir létu þess getið, að það væri sú aðferð sem þeir vildu forðast í lengstu lög.

Það er auðvitað enginn gleðiboðskapur að leggja á kjarnfóðurgjald og slík ákvörðun verður ævinlega umdeild, en það var þó nauðsynlegt miðað við þær aðstæður sem voru ríkjandi á s.l. sumri. Það sýndi sig einnig að þessi leið er ákaflega virk til áhrifa á framleiðsluþróun, a.m.k. í mjólkurframleiðslu.

Talið er að samdráttur mjólkurframleiðslu á verðlagsárinu 1979–80 hafi verið 6 millj. titra eða 5.2% þegar árið er talið í heild, en ég hafði áður getið þess, að samdráttur fyrstu 10 mánuði verðlagsársins var aðeins 2.1%. Á hinn bóginn urðu umskipti í framleiðslumagninu við það að kjarnfóðurgjaldið var lagt á, sem sýnir að það hefur verkað. Það hafði þau áhrif, sem að var stefnt, að halda aftur af framleiðsluaukningu á sumarmjólkinni og átti þátt í að draga hana saman. Í júlímánuði varð innvegin mjólk hjá ýmsum mjólkurbúum landsins þannig 10–15% minni en var á sama tíma í fyrra, og svipuð þróun hefur haldist síðan, þó þannig að í október hefur framleiðslan dregist enn meira saman hlutfallslega eða sem nemur 10.2%, sem er nokkuð mikið og meira en gert hafði verið ráð fyrir að mundi verða. Það er því augljóst að hafa þarf fulla gát á því, að framleiðsla á mjólk fari ekki um of niður. Enda þótt októbermjólkin hafi orðið lítil að þessu sinni er enn ekki ástæða til að ætla að samdráttur í mjólkurframleiðslunni sé að nálgast hættumörk.

Það er augljóst að kjarnfóðurgjald gefur mjög rýmilegt svigrúm til þess að mæta breytilegum aðstæðum í framleiðslu og hafa snögg og virk áhrif á framleiðslumagnið eftir því sem þróun framleiðslu og markaðsaðstæður gefa tilefni til. Enn fremur var það hlutverk kjarnfóðurgjaldsins að létta verðskerðingu kvótakerfisins, einkanlega á minni búunum, um leið og brbl. höfðu inni að halda ákvæði sem gerðu mögulegt að sníða af ýmsa mikla ágalla þessa kerfis sem komu í ljós við vinnslu málsins.

Kjarnfóðurgjaldið leggur ekki höft eða bönn á bændur. Allir eru sjálfraðir að því, hvað þeir kaupa af fóðurbæti með háu gjaldi eða hvort þeir spara við sig kjarnfóðurgjöf og nota meira heimafengin gæði. Með kjarnfóðurgjaldi er á engan hátt vegið að sjálfstæði íslenskra bænda. Mér er hugleikið að sjálfstæði og sjálfræði þeirra skerðist sem alka minnst við þær aðgerðir sem gripið er til til framleiðslustjórnunar.

Segja má að 33% gjald sé ekki ákaflega áhrifaríkt til stjórnunar eða líklegt til að hafa mikil áhrif á framleiðslu mjólkur. Ég hygg þó að miðað við það ástand sem nú er, að mjólkin hefur farið svo niður sem raun er á, sé gjaldið nógu hátt.

Við framkvæmd þessara laga hefur Framleiðsluráð ákveðið greiðslufrest til að greiða fyrir því, að þeir, sem annast innflutning og sölu á fóðri, eigi auðveldara með að mæta þessum ráðstöfunum. Vegna þessa greiðslufrests liggur enn ekki mikið fyrir um hvað kjarnfóðurgjaldið mun nema hárri upphæð á þessu ári. Það er í raun og veru að byrja að innheimtast í þessum mánuði og ekki enn hægt að gefa glöggar upplýsingar um hvað inn kann að koma vegna þessa gjalds. Þó er talið að frá því að gjaldið var lagt á eða frá 24. júní til júlíloka hafi gjaldið numið sem svarar 140–160 millj. kr.

Framleiðsluráð hefur lýst áhuga sínum á því að verða við þeim tilmælum, sem beint var til þess um teið og lögin voru sett, að létta verðskerðingu af sem svarar 300 ærgildisafurðum hjá hverjum bónda á lögbýli, en Framleiðsluráð hefur þó tekið ákvörðun um að fyrstu 1000 millj., sem inn koma af kjarnfóðurgjaldinu, verði notaðar til að endurgreiða verðjöfnunargjald og verðskerðingu á mjólkurframleiðslu. Það þarf talsverðar fjárhæðir til að geta greitt að fullu fyrstu 300 ærgildisafurðir hvers bónda, en m.a. þess vegna hefur ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir því, eins og komið hefur fram á Alþ. fyrr, að 1700 millj. verði varið á lánsfjáráætlun næsta árs til að mæta halla á útflutningi. Verður það fé þá væntanlega notað í þessu skyni til viðbótar því sem inn kemur vegna kjarnfóðurgjalds.

Ég vil taka það fram, að ég tel að nauðsynlegt sé fyrir okkur Íslendinga, bæði fyrir bændastéttina og þjóðina í heild,að laga framleiðslu búvara að markaðsaðstæðum. Ég hef skýrt þær aðstæður nokkuð í örfáum orðum að því er snertir mjólkurframleiðsluna, þar sem erlendi markaðurinn hefur í raun og veru hrunið af ástæðum sem flestir þekkja og rakið hefur verið að nokkru. En við þurfum að hafa í huga að þær samdráttaraðgerðir, sem gripið er til, mega ekki verða til þess að gengið sé of langt. Það þarf að fara að í þessum efnum með hófsömum hætti eftir að sýnilegur árangur hefur fengist af þeim aðgerðum sem gripið er til.

Ég vil taka það fram, að samdráttaraðgerðir í búvöruframleiðslu hafa ekki einungis í för með sér erfiðleika fyrir bændur og landbúnaðinn. Það er þegar farið að sjást að þær hafa einnig í för með sér erfiðleika fyrir úrvinnslustöðvarnar, fyrir mjólkurbúin og fyrir ýmis þjónustufyrirtæki sem sinna landbúnaðinum sem atvinnuvegi. Ef um verulegan samdrátt verður að ræða munu afleiðingar þess samdráttar koma fram í erfiðri stöðu slíkra fyrirtækja.

Ég hef getið hér um hvernig þessi mál standa nú hvað snertir mjólkurframleiðsluna. Rétt er að minnast þess í því sambandi, að haustið 1979 fækkaði mjólkurkúm um 6.8%, nautgripum í heild heldur meira, og er eðlilegt að það komi fram í minnkandi framleiðslu.

Í sauðfjárframleiðslunni hefur einnig orðið samdráttur á þessu ári. Haustið 1979 fækkaði sauðfé í landinu um 11% eða um nálægt 95 þús. fjár, og að þessu sinni hefur orðið um verulega fækkun á sláturfé að ræða. Samkv. bráðabirgðatölum er reiknað með að heildarslátrun dilka í haust hafi orðið um 824 200 eða 139 þús. dilkum færra en í fyrra. Dilkar reyndust verulega þyngri í haust en á s.l. hausti dilkakjötsframleiðslan hefur ekki rýrnað nálægt því eins mikið og tala sláturdilka bendir til. Er talið nú að dilkakjötið, sem komið hefur til sláturhúsanna, hafi numið 12 070 tonnum, en var í fyrra 12 540 tonn. Meðalþungi dilka er talinn hafa verið í haust 14.64 kg, en var í fyrra 13.03 kg. Heildarmagn af kindakjöti, sem vigtað hefur verið inn hjá sláturleyfishöfum í haust, mun hafa verið nálægt 13 380 tonnum á móti 15 156 tonnum haustið 1979, sem sýnir að 1776 tonnum minna af kindakjöti kemur á markað í haust en í fyrra. Ástæða er til að vek ja athygli á því, að hér er um bráðabirgðatölur að ræða, en þessar tölur sýna einnig að miklu meiri munur er hvað snertir kjöt af fullorðnu á þessum tveimur haustum en hvað dilkakjötið snertir, sem er eðlileg t miðað við þá fækkun sem varð í stofninum á síðasta hausti.

Ég hef látið þá skoðun í ljós, að ég telji nauðsynlegt, ef við ætlum að halda uppi byggð um landið allt, eins og ég held að öll þjóðin stefni að, og miðað við að við þurfum að draga saman mjólkurframleiðsluna þannig að hún nálgist það að mæta innanlandsmarkaði, þá sé nauðsynlegt að halda sauðfjárstofninum í svipuðu horfi og verið hefur því ella mundi samdrátturinn valda of miklum erfiðleikum fyrir bændastéttina, fyrir úrvinnslufyrirtækin og fyrir þjónustugreinar sem sinna landbúnaði. Sú keðja erfiðleika, sem svo mikill samdráttur mundi hafa í för með sér, hlyti að leiða til þess að okkur tækist ekki að halda byggð með svipuðum hætti og nú er og við stefnum að að verði í landi okkar.

Þessar skoðanir hef ég margoft látið í ljós. Ég tel að í öllum þessum málum þurfum við að fara að með hófsemd og ekki stefna að því að gera erfiðleikana meiri en ástæða er til, en við getum þó þurft að grípa til skjótvirkra ráðstafana sem verða til þess að við náum þeim markmiðum sem við höfum stefnt að, eins og gert var í sumar til að draga úr framleiðslu mjólkur miðað við þær aðstæður sem þá voru og ég hef hér lýst.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um frv. fleiri orð. Ég leyfi mér, herra forseti, að óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.