18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

338. mál, styrkir til bygginga orlofsheimila verkalýðssamtakanna

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Áður en ég sný mér að hinni efnislegu hlið fsp. þykir mér rétt að geta þess, að fyrir u.þ.b. 20 árum var á fjárlögum ákveðinn styrkur til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna. Þar var átt við eitt heimili sem Alþýðusamband Íslands hafði þá fyrirhugað að byggja. Það var á þessum sama tíma, þegar núv. hæstv. forsrh. gegndi störfum fjmrh., að texta þessarar fjárveitingar var breytt í fjárlagaundirbúningi á þann veg, að þetta væri styrkur til orlofsheimila, ekki bundinn við neitt eitt heimili og ekki bundinn við ein verkalýðssamtök, heldur öll þau verkalýðssamtök sem stæðu fyrir og í slíkum byggingum.

Við afgreiðslu fjárlaga á yfirstandandi ári, en þau voru samþykkt 2. apríl s.l., var veitt til þessara mála, til bygginga orlofsheimila verkalýðssamtakanna, 80 millj. kr. Daginn eftir, 3. apríl, sendi ég fyrir hönd sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði umsókn til félmrn. um styrk af þessu framlagi til byggingar þjónustuhúss, sem verið er að byggja í orlofshúsahverfi þessara samtaka í Grímsnesi, en þar er nú 21 orlofshús sem sjómannafélögin allt frá Akranesi til Grindavíkur eiga, ásamt húsum sem samtökin sjálf eiga. Þetta hús er stórt og glæsilegt og það er bara eftir að tengja vatn og annað þess háttar núna, húsið er nær fullgert.

Ekki var hægt að verða við þessari ósk, en í bréfi 24. júní, sem er undirskrifað af einhverjum Backman, skrifað fyrir hönd ráðh., segir svo, með leyfi forseta:

„Þann 3. apríl s.l. barst félmrn. bréf frá yður þar sem þess er óskað, að sjómannadagssamtökunum í Reykjavík og Hafnarfirði sé veittur styrkur úr þeirri fjárveitingu á fjárlögum ársins 1980 sem ætluð er til orlofshúsa verkalýðssamtaka.

Ráðuneytið verður því miður að tilkynna yður það hér með, að ekki hefur reynst unnt að verða við þeirri beiðni, sérstaklega með tilliti til þess, að þegar var búið að gera ráð fyrir ákveðinni skiptingu fjárins á grundvelli tillagna frá ASÍ. Þess í stað hefur félmrn. snúið sér til sjútvrn. um möguleika á því, að yður verði veittur styrkur úr gengismunarsjóði, og stendur sú athugun yfir. Er yður vinsamlegast bent á að snúa yður að sjútvrn. vegna þessa erindis.“

Þótt ekki hafi verið rætt um þetta bréf sérstakleg a við hæstv. félmrn., þá er bersýnileg t að við þurfum ekki að fá nein ráð úr félmrn. til þess að tala við aðila í sjútvrn., enda var ekki verið að sækja um eitt eða neitt þangað, heldur úr þessum sameiginlega sjóði sem hv. Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að veita úr til þessa málefnis. Og ef það eru einhverjir aðilar úti í bæ sem eiga að skipta þessu sé ég ekki annað en að Alþ. verði að taka upp annan hátt á þessari úthlutun og fjvn. sjálf verði að úthluta þessu fé til umsækjenda.

Fsp. mín á þskj. 22 er í sex liðum, og ég sé ekki ástæðu til að vera að lesa fsp. upp, en hún fjallar um það efnislega, ef þm. hafa ekki fsp. hjá sér, hverjir hafi fengið þetta fé á árunum 1979 og 1980 og á hvaða byggingarstigi o. s.frv. viðkomandi byggingar eru.