18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Fsp. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar hafa margir tekið eftir og umr. hafa orðið athyglisverðar hér á hv. þingi, einkum og sér í lagi vegna grafarþagnar hæstv. ráðh. þegar til þeirra hefur verið beint fsp. varðandi efnahagsaðgerðir sem menn hafa boðað í hálfkveðnum vísum að undanförnu. Það er athyglisverðast enn fremur við þessar umr., að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson - sem nýlega gaf út þá yfirlýsingu í útvarpsumræðum að hann mundi verja ríkisstj. falli, sem er orðalag sem annar ágætur hv. þm. hefur notað um þessa ríkisstj. — hann hefur beðið um orðið, en fallið frá því jafnframt. Þessi þögn æpir á þingheim.

Í umr., sem fóru fram hér fyrir skömmu, fór hæstv. utanrrh. fram á að umr. yrði frestað til þess að gefa hæstv. ráðh. Tómasi Árnasyni færi á að komast hér í þingsali — hann hefur verið erlendis — til að svara þeim fsp. sem beint hefur verið til hans. En hæstv. ráðh. Tómas hefur einmitt verið manna kjarkaðastur í ríkisstj. og lýst því yfir, að til aðgerða þurfi að grípa, og m.a. sagt að fresta þurfi verðbótagreiðslum á laun 1. des. n.k. Nú bíður þingheimur eftir því að fá að vita hvort ljóst verður fyrir Alþýðusambandsþing til hvaða efnahagsaðgerða á að grípa í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna. Það er kominn tími til þess að hæstv. ríkisstj. geri hreint fyrir sínum dyrum. Sá maður, sem einn hefur haft kjark til að segja eitthvað, er kominn til landsins. Þingheimur og þjóð bíða eftir svari.