18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Sú fsp., sem hér er á dagskrá, var borin upp á sínum tíma af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og fjallaði um það, hvort ríkisstj. vildi taka til endurskoðunar fyrirætlanir um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils með tilliti til þess, að sú aðgerð sé ekki liður í víðtækri stefnumótun og framkvæmd til að ráða bót á verðbólgunni og koma á stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar og geti því aukið á upplausn og vantrú manna á gjaldmiðlinum í stað þess að treysta hann.

Ég svaraði þessari fsp. hér í Sþ. 4. nóv. s.l. og gerði það aðallega í tveimur liðum. Í fyrsta lagi var ég sammála fyrirspyrjanda um það, að nauðsynlegt væri að gera efnahagsráðstafanir í tengslum við fyrirhugaðar gjaldmiðilsbreytingar, og vísaði til þess, að hæstv. forsrh. kom inn á þetta mál í sinni stefnuræðu og boðaði hreinlega slíkar aðgerðir. Í öðru lagi greindi ég frá því, að ég hefði rætt þetta mál við Seðlabanka Íslands til þess að heyra viðhorf Seðlabankans um það, hvort til greina kæmi að breyta þessu máli eða fresta þeirri breytingu sem fyrirhuguð er og lög hafa verið sett um og reglugerð um framkvæmd á. Svörin, sem ég fékk frá Seðlabankanum, voru á þá leið, að hætt væri við að það kæmi til öngþveitis í efnahagsmálum, viðskiptamálum og atvinnumálum ef þetta yrði gert, vegna þess að það væri hætt að framleiða gömlu seðlana og myntina og þess vegna yrði ný mynt að koma inn í hagkerfið um eða upp úr áramótunum, þegar af þeirri ástæðu væri raunverulega útilokað að fresta þessu. Með þessu svari hef ég í raun og veru svarað þeirri fsp. sem hér er til umr.

Hins vegar hafa svo hv. stjórnarandstæðingar haft tilhneigingu til þess að snúa þessu upp í eins konar eldhúsumræður og ræða atmennt um stjórnmálin, spyrja ríkisstj. um fyrirætlanir hennar í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálum. Um það get ég sagt það eitt, að verið er að fjalla um þessi mál í ríkisstj., þau eru öll í deiglunni. En það er ekki komið svo langt að hægt sé að leggja það fyrir þing. Það verður áreiðanlega gert eins og venja er þegar ríkisstj. gerir þýðingarmiklar ráðstafanir í efnahagsmálum.

Ég hef ekki farið í neina launkofa með það, að horfurnar séu þannig fram undan — og hef þá vísað sérstaklega til verðbólgunnar og þess sem nokkurn veginn blasir við í þeim efnum ef ekkert er að gert — að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir í efnahagsmálum. Það fer því ekkert á milli mála hver mín skoðun er í þeim efnum, og ég held að það sé einnig skoðun ríkisstj.

Eins og ég sagði áður vísaði ég til stefnuræðu hæstv. forsrh., einnig til þess sem segir í aths. við fjárlagafrv., að það verði gerðar ráðstafanir í efnahagsmálum í tengslum við gjaldmiðilsbreytinguna, þannig að hér hefur raunverulega komið fram hvað fyrirhugað er í þessum málum án þess að gerð hafi verið grein fyrir því í einstökum atriðum í hverju ráðstafanir verði fólgnar. Og það stafar eingöngu af því, að það er ekki búið að afgreiða þau mál í ríkisstj. Þess vegna er auðvitað ekki færi á því enn að ræða þau í einstökum atriðum hér á hv. Alþ., en verður áreiðanlega gert þegar ríkisstj. hefur tekið ákvarðanir í þessum málum.