18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Einhver undarlegasta ríkisstj., sem nokkru sinni hefur setið á Íslandi, er sennilega núv. ríkisstj. Hún er bæði mállaus og heyrnartaus og sennilega vantar hana líka hin skilningarvitin sem aðrir hafa. Hún er gagnslaus með öllu. Það er engu hægt að svara. Það er bara setið, setið og beðið, og þeir vita ekki einu sinni eftir hverju þeir bíða. Stuðningsmennirnir eru orðnir hundleiðir og óánægðir, en þegja þó. Þeir eru búnir að gleyma því sumir hverjir, að þeir eru umbjóðendur táglaunafólksins í landinu, en þegja. Einhvern tíma voru þeir harðari, þeir karlar. En nú eru þeir orðnir grautlinir og hræddir.

Ég held að það sé fullkomin ástæða til, herra forseti, að það komi að því næstu daga að stjórnarandstaðan verði að kveðja sér hljóðs utan dagskrár, en nota sér ekki hérna tveggja mínútna ræðutíma, og gera þar allítarlega grein fyrir ástandi þessarar ríkisstj. eða réttara sagt starfsleysi hennar og getuleysi á öllum sviðum. Ég spyr einu sinni enn: Hvar er unnið að nýjum vísitölugrundvelli? Hvar er verið að vinna að honum? Það eru nógir aðstoðarmennirnir, a.m.k. í forsrn. Þar er ekki verið að skera við nögl. Og ekki heldur kaupið þeirra. (ÓRG: Það vita allir hvar er verið að vinna að honum.) Er þá verið að vinna að honum í sölunum í Alþb.? (ÓRG: Nei, á Hagstofunni.) Hagstofan á ekki að leggja nýjan vísitölugrundvöll. Og ef formaður þingflokks Alþb. veit það ekki, þá hefur verið sagt í svokölluðum Ólafslögum að það eigi að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, við launafólkið í landinu. En það er sennilega allt komið á Hagstofuna samkv. upplýsingum formanns þingflokks Alþb.