18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það hefur nú farið svo sem mig grunaði raunar fyrir fram, að hæstv. viðskrh. hefur litlu getað svarað þótt eftir honum hafi hér verið beðið að ósk hæstv. utanrrh. Ég held að ekki verði hjá því komist að vekja enn einu sinni athygli á því fullkomna virðingarleysi sem hæstv. ríkisstj. sýnir Alþingi Íslendinga. En látum það vera. Það er sagt að fólkið beri einhverja virðingu fyrir sjálfu sér. Og það er verið að móðga íslenska þjóð með því framferði sem hæstv. ríkisstj. nú sýnir. Hún neitar viku eftir viku að svara einföldum spurningum. Hún neitar að upplýsa nokkurn skapaðan hlut um þær ráðstafanir sem hún þykist ætla að gera í sambandi við myntbreytinguna. Auðvitað viljum við í stjórnarandstöðu aðstoða hæstv. ríkisstj. til þess að þessi athöfn, myntbreytingin, geti borið tilætlaðan árangur. Við getum það ekki nema við fáum að vita hvað fyrir stjórninni vakir.

Mín skoðun er sú, að það sé óðs manns æði að fara út í þessa myntbreytingu nú um áramótin. Og það er auðvitað engin afsökun að Seðlabankinn geti ekki prentað einn seðil í viðbót, t.d. 50 eða 100 þús. kr. seðil, meðan aðlögunartími líður. Það er út í bláinn. Það er ekki Seðlabanki Íslands sem á að ráða þessu, heldur Alþingi Íslendinga.

Það má raunar segja líka að samtök eins og Alþýðusambandið eigi heimtingu á því nú, þegar þing þess kemur saman á mánudaginn, að fá að vita hvað ríkisstj. hyggst fyrir. Og nú hefur einmitt verið útbýtt svohljóðandi fsp. til hæstv. forsrh. frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni:

„Munu fulltrúar 53 þús. launþega, sem mæta til ASÍ- þings 24. nóv., fá skýrðar fyrirhugaðar ráðstafanir ríkisstj., sem boðaðar voru í stefnuræðu forsrh. að fylgja mundu í kjölfar myntbreytingarnar?“

Það hefur margsinnis verið skorað á hæstv. forsrh. að koma hér upp í ræðupúltið í nokkrar mínútur, leyfa mönnum að sjá framan í sig og heyra hvað hann hefur hér að flytja.

Ég er sammála hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni um það, að þetta er langversta ríkisstj. sem Íslendingar hafa haft. En ég vissi raunar rétt áður en hún var mynduð, að hún mundi verða það, og lýsti því yfir í þessum ræðustól. Og ég er hissa á því, að jafnskarpur maður og hv. þm. Matthías Bjarnason skuli fyrst vera að uppgötva þetta núna, jafnaugljóst og það er.

En ég skora á hæstv. forsrh. að koma hér upp í ræðustólinn, og ef hann vill ekki svara fsp. okkar annarra þm., þá að gera tilraun til að svara þessari fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar og það nú strax, því það eru aðeins örfáir dagar þangað til þing Alþýðusambandsins kemur saman, og ég get ekki ímyndað mér annað en að farið verði eftir tillögum Péturs Sigurðssonar um að fresta því þingi ef ríkisstj. getur ekki sagt eitt einasta orð um hvað hún hyggst fyrir.