18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst það mjög miður að hæstv. forsrh. stendur hér að lokum upp, þegar flestir þm. höfðu talað tvisvar í sambandi við þessa fsp., og gefur þm. almennt áminningu fyrir að þeir hafi farið út fyrir umræðuefnið þó að umræðuefnið sé tengt því: ráðstafanir sem á að gera jafnhliða myntbreytingunni. Það er það sem um hefur verið að ræða allan tímann og ég tel að þeir, sem hafa hér tekið til máls, hafi haft fullan rétt til að ræða það. En rétt þegar hann er búinn að ljúka þessum áminningarorðum sínum byrjar hann sjálfur að tala um það stóra afrek ríkisstj. að hafa lækkað verðbólguna. Það er sennilega einnig í sambandi við myntbreytinguna að hans dómi. Ég ætla ekki að fara efnislega út í það, því ég bað um orðið til að ræða um þingsköp, en ég vil benda hæstv. forsrh. á að byrja á að reyna að sannfæra höfuðmálgagn ríkisstj., Dagblaðið, um þetta afrek ríkisstj. að koma verðbólgunni niður því að Dagblaðið hefur ekki skilið hæstv. forsrh. enn og telur að verðbólgan æði áfram stjórnlaust og vitlaust, eins og við vitum að hún gerir.

Mér finnst líka eðlilegt í sambandi við myntbreytinguna að ræða um hvar er á vegi statt frv. um nýjan vísitölugrundvöll. Ef ríkisstj. er að vinna að nýjum vísitölugrundvelli held ég að stjórnarandstaðan megi fylgjast með því. Það er ekkert einkamál ríkisstj. Það er ekkert síður keppikefli stjórnarandstöðuþingmanna að vinna að nýjum vísitölugrundvelli. Það hafa allir flokkar lýst því yfir. Og með málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar haustið 1978 ákváðu þeir flokkar, sem að þeirri stjórn stóðu, að vinna að breyttum vísitölugrundvelli. Þeir eru því í fullri starfsþjálfun, bæði Alþb. og Framsfl., hvað þetta snertir.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en varðandi hugarfarsbreytinguna langar mig að segja aðeins fjórar setningar þó að það sé ekki beint um þingsköp: Maður einn, sem var töluvert blautur sem við köllum, fór til að fá lækningu á þessum veikleika sínum. Hann kom eftir nokkra mánuði heim í byggðarlag sitt. Hann varð að koma við í kaupstað þar sem var áfengisútsala og lenti aftur á því, eins og áður en hann fór á hælið. En þegar hann kom heim í litla byggðarlagið og þeir sögðu: „Og kemur þú nú fullur aftur,“ þá sagði hann: „Ja, það gerir ekki mikið til, en hugarfarsbreytingin, hún var stórkostleg .“ Og hún er það líka hjá ríkisstj.