18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Sigurgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Venja mun að nýir þm. ræði um eigin frv. í fyrsta skipti og er það yfirleitt kölluð jómfrúarræða. Fyrir mér fer í þetta fyrsta skipti eins og stúlkunni sem réðst til Ríkisskips hérna um árið, því að eftir fyrsta daginn sagði hún: „Hér verð ég ekki lengur jómfrú.“

Hér hefur mikið verið talað um væntanlega myntbreytingu og menn hafa verið að reyna að fá fram ákveðin svör við fyrirspurnum um aðgerðir sem ættu að fylgja þar í kjölfarið. Sem nýr þm. hér inni og varaskeifa kemur mér það dálítið spánskt fyrir sjónir að heyra engan óbreyttan stjórnarliða taka hér til máls. Þeir sitja hér með sælubros á vör og brosa góðlátlega að þessum fyrirspurnum okkar. Þetta finnst mér benda til þess, að þegar hafi verið ákveðnar einhverjar aðgerðir sem þeim hefur verið trúað fyrir, en við hinir fáum ekki um að heyra.

Ég tala eins og mér býr í brjósti um þetta. Mér finnst menn tala nokkuð kæruleysislega um efnahagsmálin hér. Menn grípa fram í. Ég játa fúsleg a að mér finnst mínir flokksmenn ekki vera þar neitt sérstaklega til fyrirmyndar. Þó verð ég að segja eins og er, að þeim er vorkunn.

Þeir eru hér umbjóðendur fyrir stóran hluta þjóðarinnar sem óskar skýrra svara um hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir í sambandi við myntbreytinguna.

Ég er einn af mörgum sem trúði á að hægt væri að koma á þeirri hugarfarsbreytingu sem hér um ræðir. Þó að ráðh. hafi ekki treyst sér til að svara hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur held ég að ég muni það orðrétt að skrifstofustjóri Seðlabankans sagði að myntbreytingin kostaði 600 millj. Þetta er þó tala sem ég mundi vilja að ráðh. staðfestu ef þeir vissu betur.

Ég er farinn að taka mér ráðherravald. Þetta er kannske það sem koma skal, það veit enginn sína ævina. En mér finnst þetta alvörumál, sem hér er á dagskrá, vera slíkt að gjarnan mætti eyða í það meiri tíma. Mér finnst ráðh. gera frekar lítið úr fyrirspurnum okkar með því að virða okkur ekki svars. Ég óska þess innilega, og er þar ekki að tala með neinum útúrsnúningum, heldur sem — ja, nýfalleruð jómfrú, að við fengjum að heyra þá alvöru og þann boðskap sem við okkur hlýtur að blasa um n.k. áramót.