18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason hlýtur að vera einhvers staðar nálægt. (Gripið fram í: Hann er hérna, ráðh.) Ég vildi aðeins, herra forseti, rifja upp að ég var í raun og veru búinn að ræða þá fullyrðingu hv. þm. Karvels Pálmasonar að ég hefði lagt til að það yrði eingöngu tekið á launamálum í sambandi við efnahagsráðstafanirnar.

Ég vil aðeins, til þess að það gleymist ekki, endurtaka að ég hef lagt áherslu á samræmdar aðgerðir í efnahagsmálum og lagt áherslu á það atriði að erfitt væri að ná verðbólgunni niður nema taka á öllum helstu kostnaðarþáttum verðlagsins og þar á meðal er verð á vöru og þjónustu, landbúnaðarvörum, fiski, vextir og verðbætur launa svo og gengi. Það er atveg óþarfi fyrir hv. þm. að vera að snúa út úr þessu. Ég hef aldrei haldið því fram að taka ætti sérstaklega og einvörðungu á launamálum. Hins vegar hef ég sagt að ástæða væri til að lækka skatta til að tryggja kaupmátt lægri launa í landinu. — Ég vildi aðeins taka þetta fram til að það væri algerlega skýrt af minni hálfu hvað ég hefði sagt um þessi efni, og þá ætla ég að hv. þm. hafi vísað til ræðu sem ég flutti við 1. umr. fjárlaga fyrir skömmu.

Ég hef nú svarað fyrirspurninni tvisvar sinnum og tel ekki ástæðu til að svara henni í þriðja sinn, þ.e. þeirri fyrirspurn sem hér er á dagskránni. Hins vegar liggja ýmsar munnlegar fyrirspurnir hv. þm. fyrir. Ég tel ekkert óeðlilegt þó að þm. spyrji um efnahagsráðstafanir. Það er ekkert óeðlilegt út af fyrir sig, en ekki er hægt að ætlast til þess að þeim sé svarað nema það sé dagskrármál sem þar er um að ræða.

Ég vil endurtaka að það er enginn vafi á að efnahagsaðgerðir af hálfu ríkisstj. verða að sjálfsögðu lagðar fyrir Alþ. og ræddar, eins og jafnan hefur verið. (Gripið fram í: Fyrir jól?) Ég skal ekkert segja um neinar dagsetningar í því efni, en þær verða ræddar þegar að þær hafa endanleg a verið ákveðnar af hálfu ríkisstj. og af þeim aðilum sem standa að ríkisstj.