18.11.1980
Neðri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæti fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar virðulegu deildar. Flugleiðamál ætla að því leyti að verða lík Kröflumálum, að Alþfl. stendur einn að því að reyna að bjarga þessu vandræðamáli í höfn, jafnvel þó seint sé. Brtt. þær, sem ég mæli fyrir, eru að öllu leyti þær sömu og hv. þm. Kjartan Jóhannsson mælti fyrir í Ed. fyrir nokkrum dögum. Þó eru tvö frávik, það fyrra stærra, hið síðara smærra.

Lagt er til að 2. liður skilyrða þeirra, sem ríkisvaldið setur Flugleiðum gegn fjármagnsfyrirgreiðslu, sé á þá leið, að samtökum starfsfólks og síðan einstaklingum, sem við fyrirtækið vinna, verði gefinn kostur á því að kaupa hlutafé í Flugleiðum hf. fyrir a.m.k. 200 millj. kr., m.a. í því skyni að auka almennt áhrif starfsfólks á stjórn fyrirtækisins. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að starfsfólk kjósi sérstaklega mann í stjórn fyrirtækisins. Í þeirri lagabreytingu, sem ég er hér að tala fyrir, er lagt til að hann skuli kosinn almennri óhlutbundinni kosningu, þar sem sérhver einstaklingur, sem hefur starf hjá Flugleiðum hf. að aðalatvinnu, skuli hafa eitt atkv., sem sagt reglan: einn maður eitt atkv. Það er ekki verið að leggja til að þegar starfsfólk velur sér stjórnarmann, þá skipti hlutabréfaeign þess máli að því er varðar vægi atkv. Þá er lagt til að stjórnarmaður teljist ekki rétt kjörinn nema hann hafi hlotið minnst 50% atkv. Náist sú niðurstaða ekki í fyrstu kosningu skal kjósa aftur á milli þeirra tveggja sem flest atkv. hlutu og þá er kosningin bundin.

Stjórn samtaka starfsfólksins hjá Flugleiðum hf. skal sjá um framkvæmd kosningarinnar samkv. okkar till., svo sem gert er ráð fyrir í þessum brtt. við lagafrv.

Nú er því að vísu að bæta við, að ég fagna því, að það er nokkur munur á grg. þeirri, sem meiri hl. leggur fram hér í Nd., frá því sem meiri hl. lagði til í Ed., og það er að nokkru leyti tekið tillit til þessara atriða og þessara tillagna. Á hinn bóginn er það ljóst, að grg. hefur ekki lagagildi, og í annan stað er textinn í þessari grg. mjög svo loðinn. Þm. greiða ekki atkv. með grg. svo að Ed. fær ekkert meira að segja um þetta mál. Og enn þá fremur var það loðið í ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, og guði sé lof að enn standa mál þannig, að ræður, sem hér eru fluttar, hafa ekki lagagildi. Hugsið ykkur t.d. ef allt það, sem veltur fram af munni hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, hefði lagagildi jafnóðum og talað væri. Þetta er kjarni málsins og þetta er ástæðan fyrir því, að við höfum lagt svo mikið upp úr því, við jafnaðarmenn, að þetta yrði bundið í lögum.

Hin breytingin er smærri. Hún er í 3. lið og lagt er til að aðalfundur verði haldinn hjá Flugleiðum hf. ekki í febr., eins og frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, heldur í mars. Þessu valda tæknilegar ástæður, sem Örn Ó. Johnson, forstjóri Flugleiða hf. hefur gert væntanlega fjh.- og viðskn. í báðum deildum grein fyrir.

Stórt atriði er einnig hitt, að við jafnaðarmenn leggjum mikið upp úr því, að þessi skilyrði verði ekki sett í grg., heldur bundin sem lagatexti. Við lítum svo til, að ef það á annað borð er ætlun ríkisvaldsins að fara eftir þessum skilyrðum og í framtíðinni hvorki að hygla Flugleiðum hf. né herða fastar að ólinni á hálsinum á þeim, þá sé nákvæmleg a sama hvort það stendur í grg. eða lagatexta. En það, að þetta standi í lagatexta er trygging bæði fyrir Flugleiðir hf., einnig fyrir Arnarflug hf. sem getið er um í 4. lið þessara skilyrða. Lagatexta virða menn, en það er margföld reynsla fyrir því, að grg. með lagafrv. eru ekki pappírsins virði.

Ég vek á því athygli, að á árinu 1978, nánar tiltekið á dögunum fyrir 1. des., deildu þáv. stjórnarflokkar hart um efnahagsráðstafanir. Alþfl. hafði lagt til að fara inn á þá braut sem síðar er farið að kalla niðurtalningu. Ekki náðist samkomulag um að setja þetta í frumvarpstextann, en þetta var sett í grg. Við vorum margir mjög uggandi um að grg. reyndist nokkurs virði. Það reyndist og vera rétt mat. Þessari grg. var aldrei framfylgt og hún reyndist vera einskis virði.

Sömu sögu held ég að megi segja nú. Ef það vakir fyrir ríkisvaldinu að fara að þessum skilyrðum og ganga hvorki lengra né skemmra, þá ætti því beinlínis að vera akkur að því að fá þennan texta felldan inn í lög. Því má svo bæta við, að það er heimilt samkv. hlutafélagalögunum frá 1978, að minni hl. stjórnar sé kosinn eftir öðrum leiðum en beinum tengslum við fjármagnseign. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson gerði raunar grein fyrir þessu í sinni framsöguræðu. Þessi till. okkar er því í fyllsta samræmi við hlutafélagalögin sem samþ. voru á árinu 1978.

Því má svo bæta við, að öll meðferð þessa máls er ekki aðeins vitlaus, heldur óþingleg, það að menn séu að skipta texta í greinargerðum, að grg. meiri hl. fjh.- og viðskn. í þessari d. er önnur en grg. meiri hl. í Ed. Þegar starfsfólk hjá Flugleiðum, stjórn Flugleiða, fótkið hjá Arnarflugi fer að taka til þess, eftir hverju á það þá að fara: meiri hl. í Ed., meiri hl. í Nd. eða yfir höfuð engum? Þetta er sagt til undurstrikunar þess, að þessi nýja aðgerð að setja ágreiningsmál í grg. er kolvitlaus, hún er óþingleg, enda eru grg. til alls annars. Grg. eru til þess að dómarar síðar meir, sem eru að dæma eftir lögum, geti áttað sig á því, hvað vakti fyrir sé eitthvað óskýrt í lagatextanum. En það að ætla að setja stefnumótun fram í grg. sem menn þora ekki að setja inn í sjálfan lagatextann, það er óþinglegt og það er óþingræðislegt að hafa þá aðferð, enda mun málið ekki koma aftur til Ed., heldur verður það væntanlega afgreitt héðan.

Ég minni enn á örlög efnahagsráðstafananna fyrir 1. des. 1978. Og þá minni ég á það, að við höfum, jafnaðarmenn, viljað setja inn í lagatexta að skylda Flugleiðir til að taka upp atvinnulýðræði, ekki fara eftir hlutafjáreign, heldur að taka upp atvinnulýðræði, og mér er raun að því, ef það er rétt, sem mér sýnist að sé að gerast, að til að mynda fulltrúar Alþb. ætla að verða til þess að fella þetta ákvæði, skilja eftir loðinn texta í grg. - og sannið þið til: örlög hans verða þau sömu og örlög grg. með efnahagsráðstöfunum 1. des. 1978.

Herra forseti. Ég vil fara öðruvísi að en frsm. meiri hl. Mér er ljóst, að það er beðið eftir úrslitum þessa máls, og ég mun ekki tefja tímann frekar.