18.11.1980
Neðri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði fjarvistarleyfi frá þingfundum í dag. Ég hef því ekki fylgst með þeim umr. sem hér hafa átt sér stað um Flugleiðamálið, en vil þó að gefnu tilefni standa hér upp og segja nokkur orð.

Það kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, að ráðh. hefði talað um há fargjöld Flugleiða. Ég vona að ég hafi skilið það rétt. (MB: Það kom fram hjá ráðh.) Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að staðfesta að ég hef skilið það rétt.

Ég vil nefna litið dæmi. Um síðustu helgi átti sér stað hér milliríkjaleikur í handknattleik milli Vestur-Þýskalands og Íslands. Handknattleikssambandinu eða íþróttahreyfingunni, sem er fjárvana, bar skylda til að hafa hér erlenda dómara við þann leik, hjá því verður ekki komist. Af tilviljun frétti Handknattleikssambandið að Flugleiðir bjóða svonefndar „Week-end flugferðir“ hingað til Íslands fyrir eitthvað um 202 þús. kr. fargjald fram og til baka og dvalarkostnað þann tíma sem viðkomandi er hér, ég man ekki hvort það eru 3 eða 4 dagar. Handknattleikssamband Íslands hefði getað notað sér þetta og sparað sér líklega um 500–600 þús. kr. á mann hefði það fengið réttar upplýsingar þegar forráðamenn þess gengu eftir þeim á Flugleiðaskrifstofunni hér í Reykjavík. Í staðinn var fargjaldið aðra leiðina á mann 258 þús. kr. eftir þeim upplýsingum sem ég hef, sem sagt tvisvar sinnum á mann, þeir voru tveir, að við bættum 30 þús. kr. dvalarkostnaði á mann. Þá geta menn séð að upplýsingarnar, sem Íslendingar fá hér heima, eru allt aðrar en þær sem útlendingum er boðið án þess að leita eftir erlendis. Eitthvað er bogið við fargjöldin, en ég ætla ekki að gera þau frekar að umræðuefni vegna þess að ég veit ekki hve langt var farið í þær umr. og hve mikið þær snerta það mál sem hér er á dagskrá nú.

Eins og fram kemur í nál. tel ég sjálfsagt að ríkissjóður eignist 20% hlutdeild í félaginu Flugleiðum hf. Hugsunin bak við það er ekki sú, að ríkið eigi að vera rekstraraðili að Flugleiðum. Flugleiðir eru hlutafélag sem er í eign einstaklinga og hefur þróast á eðlilegan hátt og orðið stórveldi. Það hefur komist í vanda sem er stærri en hið almenna peningakerfi eða bankarnir hér ráða við að leysa. Það er ekkert óeðlilegt, vegna þess hve flugsamgöngur eru áríðandi fyrir okkur, á eylandi langt úti í norðurhöfum, að ríkissjóður hlaupi undir bagga og aðstoði fyrirtækið, en aðstoði það á sama hátt og almennt er gert þegar fyrirtæki teita aðstoðar peningastofnana, meðan fyrirtækið er í þessum vanda, en dragi sig síðan til baka þegar fyrirtækið hefur staðið við allar sínar skuldbindingar og ríkisábyrgð er fallin niður.

Þessi hugsun mín er tengd þeirri von, að fyrirtækið nái sér á strik og geti staðið við skuldbindingar sínar. Nú skal ég ekki segja um hvort það getur gert það. Ég lagði þá spurningu fyrir formann stjórnar Flugleiða, þegar hann kom á fund fjh.- og viðskn. sem ég á sæti í, hvort skuldbindingar félagsins, bæði gamlar og þær sem koma til viðbótar, séu ekki orðnar það miklar að vafasamt sé hvort tekjur félagsins, þótt vel gangi, nægi til að standa undir vöxtum og afborgunum og til að reka fyrirtækið. Svar það, sem ég fékk, var afskaplega óákveðið. Hann sagðist vona að tekjurnar nægðu til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af þeim lánum, sem hvíla fyrir á fyrirtækinu, og þeim skuldbindingum, sem nú koma til viðbótar á félagið. Ég vona það líka. Og vegna þess að ég vona að félagið komist út úr þeim örðugleikum sem það nú er í, þá vil ég standa að því að lögbinda þetta, setja þetta í lög, en ríkinu beri þá skylda til að losa sig við þau hlutabréf, sem það eignast í félaginu nú, í samráði og samstarfi við stjórn fyrirtækisins þegar þar að kemur.

En nú er ég ekki alveg nógu sannfærður um að Flugleiðir komist út úr þessum vanda, þó að ég vilji gera ráð fyrir því og vona með formanni stjórnar Flugleiða að svo verði. Þess vegna legg ég á það alla áherslu, að stjórn Flugleiða standi við það fyrirheit, sem felst í svari hennar, að Flugleiðir selji sinn hlut í Arnarflugi. Ég skal skýra hver mín afstaða er og af hverju ég segi það. Það er ekki vegna þess, að það sé stórt fjárhagsatriði í öllum þessum vanda að Flugleiðir selji 57% af 120 millj. kr. hlutabréfum samtals í Arnarflugi, heldur vegna þess að ef Flugleiðir ná sér ekki upp úr þeim vanda þrátt fyrir þá fyrirgreiðslu sem þær eru nú að fá, þá vil ég ekki að þær dragi með sér niður í því hruni, sem hlýtur þá að verða, eina flugfélagið sem þá verður með þekkingu á erlendum mörkuðum og milliríkjasamskiptum í flugmálum, en Arnarflug hefur talsverða reynslu og þekkingu á því að reka millilandaflug. Ef Flugleiðir eiga 57% af Arnarflugi og illa tekst til að rétta Flugleiðir við, þá eigum við ekkert flugfélag, og það er vegna þess, að ég vil halda þessum varnagla, að ég leg g áherslu á að Flugleiðir selji sín hlutabréf.

Ég skrifa undir þetta nál. þrátt fyrir það að orðalag á 4. lið sé ekki alfarið að mínu skapi. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp fyrstu setninguna, hún hljóðar svo:

Nm. eru sammála um, að starfsmannafélagi Arnarflugs sé gefinn kostur á að kaupa hlut Flugleiða hf, í Arnarflugi.“

Ég vona að menn gangi til þessara umr. með opnum augum um að hér erum við að skylda Flugleiðir til að selja starfsmannafélagi Arnarflugs hlutabréfin og þar með erum við að búa til það sem ég kalla, — það getur vel verið að það sé ekki rétt heiti, en ég kalla lokað hlutafélag. Við erum að skylda Flugleiðir til að selja ákveðnum aðila hlutabréf Flugleiða. Þar með erum við ekki að opna félagið, eins og ég tel að nauðsynlegt sé um starfsemi eins og flugsins atmennt, að opna hlutafélögin miklu meira, því að þáttur flugfélaganna er ekki minni en skipafélaganna í sjálfstæði þjóðarinnar. Það á ekki að vera í höndum örfárra manna. Það á að vera í höndum eins margra Íslendinga og vilja taka þátt í starfseminni.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta mál. En það er eitt í viðbót sem ég ætla að biðja hæstv. ráðh. um að hlusta á, því að mig tangar til þess að vita hvort hann getur svarað þessari spurningu: Hvað er eiginlega að ske í Flugleiðum? Ég las í einhverju dagblaði í dag, að þær séu að fjárfesta í nýju flugfélagi í Nígeríu. Hvað er að ske? Erum við að samþykkja fjárframlag til útvíkkunar á starfsemi Flugleiða? Þegar ég las þetta í morgun spurði ég sjálfan mig: Er verið að blekkja mig sem þm. til að samþykkja fyrirgreiðslu til félags sem er í vanda, eða erum við að lauma inn nýju fjármagni, ríkiskapítali, til þess að útvíkka starfsemi félagsins? Og því spyr ég hæstv. ráðh.: Hvað er að ske? Ef hann getur svarað nú þætti mér vænt um það, en þessi spurning er eflaust óvænt fram komin og því get ég sætt mig við að hann svari henni síðar.