18.11.1980
Neðri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég greiddi atkv. gegn till. á þskj. 122 sem flutt var af Vilmundi Gylfasyni, öllum liðum þeirrar till. Þessi 5. gr. snýst fyrst og fremst um skilyrði eins og þau birtast í nál. á þskj. 94 og þskj. 116. Ég tel, að sumt í þessum skilyrðabálki sé þess efnis, að erfitt sé að sætta sig við þau, og nefni sérstaklega fjórða atriðið, sem er mjög varhugavert í því sambandi. Þar er verið að skapa fordæmi sem getur haft mikla hættu í framtíðinni. Þar er um það að ræða, að ákveðnum, tilteknum hópi sé gert hærra undir höfði en öðrum. Hefði skilyrðið verið með þeim hætti, að þar væri um almennt útboð að ræða til þess að laga rekstrarstöðu fyrirtækisins, hefði afstaða mín verið öðruvísi. En þar sem nú hefur verið fellt, að skilyrðin taki lagagildi, og þau eru aðeins í nál. treysti ég því, að farið verði að þeim sjónarmiðum sem ég hef hér lýst, og tel ekki ástæðu til þess að greiða atkv. gegn þessari grein, en kýs að sitja hjá.