19.11.1980
Efri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

42. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að taka undir rök hv. þm. Eiðs Guðnasonar sem hann færði fram í framsöguræðu sinni með þessu lagafrv. Ég geri ráð fyrir að okkur muni ekki greina stórlega á um það atriði sem lýtur að tímamörkum, þ.e. þriggja ára tímamörkunum sem þetta mundi gilda. Það er eðlilegt að hv. þm. Eiður Guðnason setji slík mörk í frv. sitt með tilliti til þess, að það er nú yfirlýst stefna Alþfl. að beita sér gegn mörkuðum tekjustofnunum, og þetta mun, ef mig minnir rétt, vera fimmta málið sem flutt er af hálfu Alþfl.-manna um nýja markaða tekjustofna síðan lýst var af hálfu flokksins yfir algjörri andstöðu gegn mörkuðum tekjustofnum.

Þetta átti ekki að vera illkvitnislegt innskot. Það væri óverðugt í sambandi við þetta mál. Ég mundi prýðilega fella mig við þriggja ára mörkin, því að svo er um ýmis gjöld sem Alþ. samþykkir árlega að þau eru kölluð tímabundin, svo sem tímabundið vörugjald sem afgreitt hefur verið í þessu virðulega húsi árlega á undanförnum árum, æ með því fororði að þetta sé nú í allra síðasta sinn.

Ég hygg að hv. þm. hafi síst ýkt lýsingu.sína á fjárhag Ríkisútvarpsins og þeirri baráttu sem þessi aldna Stofnun hefur mátt heyja nú að viku liðinni í 50 ár eða hálfa öld. Upprunalega var allvel séð fyrir tekjum stofnunarinnar þegar verið var að byggja hana upp: í fyrsta lagi með því að ætla henni einkasölu á öllum innfluttum útvarpstækjum og í öðru lagi með því að haga svo afnotagjaldi, sem notendur greiddu, að nægði til rekstrar og um árabil þó það ríflega að hægt var að leggja fé í sjóð. Ég vil minna hv. þm. á það, að árið 1947 átti Ríkisútvarpið peninga í sjóði sem nægt hefðu til þess að byggja allmyndarlegt útvarpshús, í tíð Jónasar heitins Þorbergssonar útvarpsstjóra. Þó fór það nú svo, að byggingarsjóður Ríkisútvarpsins var tekinn með valdboði ríkisstj. til þess að byggja Þjóðleikhús, samtímis því sem Ríkisútvarpið var knúið til þess með sérstökum ríkisstjórnaraðgerðum að lána verulegan hluta af þessum peningum, óverðtryggðum, til almennra íbúðabygginga á Reykjavikursvæðinu.

Ég hygg að brtt., sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur lagt hér fram, skipti ekki sköpum í sambandi við málið. Ég held að í henni felist nokkurt raunsæi.

Sjálfur sagði hann okkur frá því, hvernig hann barði höfðinu í 19 ár við steininn, vakti raunar þá spurningu hjá mér, hvort ekki væri mesta guðs mildi að annaðhvort skyldi ekki hafa brotnað, höfuðið eða steininn. Og nú stendur hv. þm. Eiður Guðnason, sem jafnframt er útvarpsráðsmaður, í því sama. Ég hygg að tillaga Þorvalds Garðars sé byggð á nokkru raunsæi, en tel ekki að hún skipti sköpum.

Aftur á móti vil ég boða það nú, að ég mun bera fram brtt. á þá lund, að Ríkisútvarpið fái að nýju einkasölu á útvarpstækjum og þá sjónvarpstækjum með, þar sem ég teldi hyggilegt að allar tekjur af innflutningi þessarar tækja til landsins rynnu til þess að standa straum af útvarpsrekstri, ekki aðeins sá hluti sem til ríkisins fellur. Með þeim hætti gætum við drýgt enn fremur og réttlætt tekjur Ríkisútvarpsins af verslun með þessi tæki.

En sem sagt, ég ítreka stuðning minn við frv. og við málflutning hv. þm. Eiðs Guðnasonar er hann mælti fram með því.