19.11.1980
Efri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

42. mál, útvarpslög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir flest þau rök sem hér hafa komið fram. Það er óþarfi að telja upp þau margvíslegu vandræði sem stafa af fjárþröng Ríkisútvarpsins. Því miður er það svo, eins og fram hefur komið, að hallarekstur mun verða e.t.v. í lok þessa árs um einn milljarð. Og frá því hefur verið greint, að flutningur íslensks efnis í þessum mikilvæga menningarfjölmiðli okkar muni dragast stórlega saman á næsta ári. Þetta eru uggvænleg tíðindi með tilliti til þess, að við höfum flestir þá hugsun að þessi mikilvægi fjölmiðill, þ.e. útvarp og sjónvarp, skuli vera í höndum opinbers aðila.

Frjálsan útvarpsrekstur hefur stundum borið á góma, kannske sjónvarpsrekstur líka. Við skulum huga að þeim ríku skyldum sem okkur eru á herðar lagðar að þessi stofnun búi ekki við eilíft fjársvelti. Við skulum huga að því, að eftir því sem við erum þröngsýnni og fastari fyrir með að greiða úr starfsemi þessara stofnana, þeim mun meiri hætta er á að starfsemin riðlist og hreinlega detti niður á ýmsum sviðum.

Ég ætla ekki að fara ofan í þetta frv., það skýrir sig sjálft. Hins vegar vil ég ekki á þessari stundu lýsa yfir afdráttarlausu fylgi við það. Ég vil bíða eftir því, hvað kemur út úr yfirlýsingum hæstv. menntmrh. Hann hefur gefið yfirlýsingar hér á hinu háa Alþingi um það, að málefni Ríkisútvarpsins verði tekin til gaumgæfilegrar athugunar og úrgreiðslu — ef ég hef skilið rétt — í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna. Ég vil bíða eftir því, hvað út úr því kann að koma.

En að endingu: Mér sýnist að þar verði ekki um aðra niðurstöðu að ræða en að þessu mikla menningartæki okkar verði bjargað, þ.e. sjónvarpi og útvarpi, að það verði að tryggja að rekstur þess haldi áfram með eðlilegum hætti.