19.11.1980
Efri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

42. mál, útvarpslög

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað, mjög góðar undirtektir við þetta frv. mitt til breytingar á útvarpslögum. Ég sakna þess raunar, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu, því svo langt sem mitt skamma þingminni og þingseta nær minnist ég þess ekki að hann hafi látið sig vanta við nokkra umræðu um Ríkisútvarpið og jafnan tekið upp hanskann fyrir þá stofnun og mælt til hennar af hinum mesta velvilja. Ég sakna þess, að hann skuli ekki hafa verið hér viðstaddur og tjáð sig um þetta mál. Raunar treysti ég því í ljósi allra hans stórorðu yfirlýsinga um ágæti Ríkisútvarpsins og nauðsyn þess að greiða götu þess fjárhagslega að ekki muni skorta velvilja hans til að þetta frv. nái fram að ganga. Og af þeim undirtektum hv. þm. hér í deild, sem þegar hafa komið fram, vonast ég til og þykist vita að þetta frv. muni eiga greiðan gang í gegnum þingið. Öðruvísi er ekki hægt að skilja þau ummæli sem hér hafa verið látin falla.

Um þá brtt., sem hv. 4. þm. Vestf. mælti fyrir áðan, vil ég aðeins segja það, að hún gengur nokkru lengra en frv. mitt gerir ráð fyrir. Og vegna þeirra orða, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lét falla um afstöðu Alþfl. til markaðra tekjustofna, þá er það rétt sem hann sagði, að Alþfl. hefur lýst andstöðu við þá heildarstefnu sem felst í því. En það þýðir ekki að afnema eigi alla markaða tekjustofna. Slíkt verður auðvitað aldrei hægt. Hins vegar er ástæðulaust að fjölga þeim mikið og rík ástæða til að taka þá til endurskoðunar hvern fyrir sig með ákveðnu árabili, vegna þess að markaðir tekjustofnar takmarka auðvitað möguleikana á virkri fjármálastjórn. Þess vegna ber að stefna að því að fækka þeim. Ég held að þessi aðferð, að ákveða þá til ákveðins tíma, taka þá síðan til endurskoðunar, fella þá niður eða samþykkja að viðhalda þeim um ákveðið tímabil til viðbótar, sú aðferð sé mjög æskileg og ætti í rauninni að gilda um velflesta ef ekki næstum alla markaða tekjustofna.

Hv. 4. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, sagði réttilega áðan að leikinn hefði verið ljótur leikur gagnvart Ríkisútvarpinu. En ef mig misminnir ekki voru það hans ágætu flokksbræður og ríkisstj., sem hann studdi, sem léku þennan ljóta leik sem aldrei skyldi leikinn verið hafa.

Varðandi þá brtt., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. boðaði hér, um að taka upp að nýju einkasölu á útvarpstækjum og sjónvarpstækjum, þá hygg ég að það leysi ekki vanda Ríkisútvarpsins þó gert yrði að nýju. Það væri í andstöðu við þá viðskiptahætti sem hér tíðkast nú orðið, og ég er ekki sannfærður um að ríkisrekstur á þessum innflutningi mundi vera í fyrsta lagi sérlega hagkvæmur, í öðru lagi að hann mundi af sjálfur sér bæta þjónustu við neytendur og í þriðja lagi að hann mundi skila þessari stofnun verulegum tekjum. Ég held að þessari stofnun eigi að afla tekna með réttum afnotagjöldum, með eðlilegri ákvörðun afnotagjalda.

Eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Vestf. hefur verið alveg sama hvaða ráðherrar hafa setið í stjórn. Það hefur engu máli skipt. Þessi stofnun hefur alltaf barist í bökkum fjárhagslega og aldrei fengið eðlilegar hækkanir á afnotagjöldum. Eins og ég hygg að hafi komið fram í minni framsöguræðu kostaði það töluvert meira árið 1930, þegar útvarpið hóf göngu sína, að borga afnotagjald af útvarpstæki í eitt ár en að vera áskrifandi að dagblaði. Nú kostar það sömu fjárupphæð að vera áskrifandi að dagblaði í eitt ár og að njóta þjónustu útvarps, sem útvarpar einar 17–18 klst. á dag, og að njóta þjónustu sjónvarps, sem sjónvarpar 25 klst. í viku. Það misvægi, sem þarna hefur skapast, þarf að leiðrétta, og það er auðvitað eðlilegast að gera það með því að hækka afnotagjöldin, því undan flestu öðru er kvartað um útvarp og sjónvarp, a.m.k. í mín eyru, en að afnotagjöldin séu of há.

Ég vil svo að endingu þakka að nýju þeim þm., sem hér hafa talað, góðar undirtektir við þetta mál og þykist viss að það eigi greiðan og auðveldan gang í gegnum báðar deildir þingsins.