20.10.1980
Neðri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, 3. þm. Vestf., ef hann hefur lesið það út úr orðum mínum að ég hefði á móti því að minn góði vinur, 1. þm. Vestf., væri kosinn í eina eða aðra trúnaðarstöðu. Hann gat ekki fundið það út úr mínum orðum. Og ég segi: Batnandi mönnum er best að lifa ef kratar eru farnir að sjá það nú, eftir að aðeins nokkrir mánuðir eru liðnir frá því að við töluðum síðast saman hér á hv. Alþ., að það er best að hafa sjálfstæðismenn í forustunni, en vera ekki að treysta á menn eins og þm. Alþb.