19.11.1980
Efri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

84. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Um það frv., sem hér liggur fyrir og hv. 4. þm. Vestf. er 1. flm., að mætti margt segja. Ég vil við þessa umr. fara um það nokkrum orðum og um mál sem tengjast skipulagi orkumála í landinu og nokkrum þáttum sem varða undirbúning að endurskoðun orkulaga.

Frv. er að meginstofni byggt á nál. svokallaðrar skipulagsnefndar orkumála, sem starfaði á árunum 1977–1978, eins og hv. flm. hefur gert grein fyrir. Sú nefnd, sem hann var raunar formaður fyrir, var sammála um margt, en hún klofnaði um mikilvægasta þáttinn í endurskoðun orkulaga, þ.e. skipulag orkuvinnslunnar. Þar var formaður nefndarinnar, hv. flm. þessa frv., í minni hl. Hann flytur nú það minnihlutaálit í þessu frv., og þar eru enn boðaðar hugmyndirnar um landshlutafyrirtæki sem heimilt sé að stunda raforkuvinnslu. Þar kveður einnig við þann tón ítrekað, að stefnt skuli að því að Rafmagnsveitur ríkisins verði lagðar niður jafnóðum og aðstæður leyfa, eins og um er fjallað í 32. gr. frv. og vikið er að í allmörgum orðum í grg. með frv.

Nýmæli frá tillögum skipulagsnefndar orkumála, fyrir utan kaflann um orkuvinnslu sem er minnihlutaálit úr þeirri nefnd, er einvörðungu að finna í 4. og 7. gr., þar sem kveðið er á um að Orkuráð skuli annast stjórn Orkustofnunar og um deildaskipan Orkustofnunar. Við yfirlestur á frv. og samanburði við nál. sá ég ekki aðra þætti sem til nýmæla gætu talist frá því sem um var fjallað í nál. á sínum tíma.

Nú vil ég ekki segja það hér, að allt sé ótækt í þessu frv. Þar eru vissuleg a nokkur atriði sem talist geta nýtileg og ættu að verða til athugunar er ráðist verður í heildarendurskoðun orkulaga, en hún hefur verið á dagskrá á vegum iðnrn. frá því að umrædd nefnd, skipulagsnefnd orkumála, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson var formaður fyrir, skilaði áliti sínu.

Það, sem mestu máli varðar, er hins vegar ekki í þessu frv. í því formi að hægt sé að taka undir það eða mæla með samþykkt þess. Þar á ég sérstaklega við kaflann um orkuvinnslu og orkudreifingu. Frv. þetta er þannig ekki tímabært, og það gengur raunar á svig við þá þróun sem nú er í gangi í sambandi við þessi mál. Ég vanmet þó engan veginn framlagningu þessa frv. af hálfu viðkomandi hv. þm. Þeir lýsa hér sínum tillögum og viðhorfum til þessara mála. Ég hefði að vísu vænst þess, að fyrrv. formaður skipulagsnefndar og hv. 1. flm. þessa frv. hefði rætt við mig sem iðnrh. um áform sín um að nýta nál. með þessum hætti, og vil ég þó ekki fullyrða neitt um að ég hefði lagst gegn því að hann flytti það hér inn á þing í tillöguformi. En álitsgjörð þessi var, eins og fram hefur komið, unnin í þágu og að beiðni iðnrn. á sínum tíma.

Til að rökstyðja þá skoðun mína, að frv. þetta sé ekki tímabært og beri ekki vott um að reynt sé að taka tillit til þeirrar þróunar sem í gangi er í sambandi við skipulagsmál orkumála, vil ég hér víkja að nokkrum þáttum sem snerta þessi efni og orkulögin sérstaklega og hljóta að verða til athugunar þegar í alvöru verður tekið á því verkefni, sem æskilegt er að geti orðið fyrr en seinna, að endurskoða orkulögin frá árinu 1967.

Ég vil þá fyrst víkja að raforkuvinnslunni og því sem gerst hefur í sambandi við þann þátt mála frá því að umrætt nál. kom fram í okt. 1978. Í þeim mánuði skipaði iðnrn. aðra nefnd til að undirbúa stofnun landsfyrirtækis til orkuöflunar. Var hún kölluð skipulagsnefnd um raforkuöflun. Þetta var gert í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, sem þá hafði fyrir skömmu verið mynduð, þess efnis, að komið verði á einu landsfyrirtæki er annist meginraforkuvinnslu og raforkuflutning um landið eftir aðalstofnlínum. Nefnd þessi skilaði áliti eftir fárra mánaða starf í febr., 1979. Hún lagði til að myndað yrði landsfyrirtæki úr núverandi Landsvirkjun, Laxárvirkjun og auk þess byggðalínunum, sem svo hafa verið kallaðar, og yrði þetta gert í formi útvíkkunar á fyrirtækinu Landsvirkjun. Viðkomandi eignaraðilar skyldu gera með sér sameignarsamning um slíkt landsfyrirtæki og yrði hann undanfari nauðsynlegra lagabreytinga. Þá var gert ráð fyrir því í tillögum þessarar nefndar, sem voru samhljóða, að hið nýja landsfyrirtæki beitti þegar í upphafi sömu heildsölugjaldskrá á öllum sölustöðum. Í nefnd þessari áttu sæti: Tryggvi Sigurbjarnarson, sem var formaður, Helgi Bergs bankastjóri, Egill Skúli Ingibergsson borgarstjóri Reykjavikur, Jakob Björnsson orkumálastjóri, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri, Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga og Valur Arnþórsson stjórnarformaður Sambands ísl. samvinnufélaga.

Í framhaldi af þessu nál., sem fram kom í febr. 1979, óskaði iðnrn. eftir því við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ, að þessir aðilar tilnefndu menn í samninganefndir um gerð sameignarsamnings og um samningu lagafrv. um nýtt landsfyrirtæki, nýja Landsvirkjun. Samninganefndir þessar, sem settar voru á laggirnar skömmu eftir þessa beiðni rn., unnu mikið og gott starf og skiluðu tillögum um hvort tveggja verkefnin sem þeim voru falin, sameignarsamning og frv. til l. um nýja Landsvirkjun. Þessu áliti var skilað með svofelldri yfirlýsingu af hálfu viðræðunefndanna, með leyfi hæstv. forseta:

„Samninganefndir Akureyrarbæjar, Reykjavíkurborgar og ríkisins hafa náð samkomulagi um sameignarsamning vegna útvíkkunar á starfssviði og eignaraðild Landsvirkjunar. Einnig hafa nefndirnar samið frv. til nýrra laga um Landsvirkjun. Nefndirnar eru sammála um að leggja til við umbjóðendur sína að sameignarsamningurinn verði staðfestur, með fyrirvara um að frv. til nýrra laga um Landsvirkjun verði samþykkt af Alþingi.

6. júlí 1979.

Með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar, fyrir hönd samninganefndar, kosinnar af bæjarráði Akureyrar 8. mars 1979

Valur Arnþórsson,

Ingólfur Árnason,

Helgi Bergs,

Freyr Ófeigsson,

Knútur Otterstedt.

Með fyrirvara um samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur,

fyrir hönd samninganefndar, kosinnar af borgarráði Reykjavíkur 20. mars 1979

Sigurjón Pétursson,

Björgvin Guðmundsson,

Kristján Benediktsson.

Fyrir hönd samninganefndar, skipaðrar af iðnaðarráðherra 27. mars 1979

Tryggvi Sigurbjarnarson,

Pálmi Jónsson,

Helgi Bergs,

Magnús E. Guðjónsson.“

Þessar tillögur að sameignarsamningi og frv. til l. um Landsvirkjun voru lagðar fyrir eignaraðila væntanlegs fyrirtækis, og samþykkti bæjarstjórn Akureyrar samninginn, að ég hygg samhljóða, 11. sept. 1979. Þá samþykkti ríkisstj. þessa gjörð fyrir sitt leyti í byrjun okt. 1979 og heimilaði flutning umrædds lagafrv. En það var raunar stuttu síðar að sú ríkisstj. fór frá völdum.

Sameignarsamningur þessi og tillögur, er honum fylgdu, náðu hins vegar ekki samþykki í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar greiddu borgarfulltrúar Sjálfstfl. atkvæði gegn þessum samningi og einn borgarfulltrúi Alþfl. slóst í þann hóp og reið baggamuninn um það, að þessi mikla undirbúningsvinna var stöðvuð með þeirri atkvgr. sem þarna fór fram og unnin fyrir gýg í bili.

Ég tel nauðsynlegt að rifja það upp hér, að forusta Alþfl. virtist að öðru leyti vera heils hugar samþykk þeirri stefnu sem þarna var að unnið, þó að einn af borgarfulltrúum flokksins skærist úr leik á örlagaríku augnabliki í sambandi við þetta mál.

Meginástæðan fyrir því reiðuleysi, sem segja má að ríki nú í skipulagi orkumála, er fyrir utan umrætt óhappaverk borgarfulltrúa Alþfl. ósamlyndi og misjöfn viðhorf innan Sjálfstfl. í sambandi við skipulag orkumála og margt sem að þeim lýtur bæði fyrr og síðar. Um meginatriði þessara mála er að öðru leyti samstaða í öðrum stjórnmálaflokkum. Sjálfstfl. hefur skorið sig þarna úr, þar sem viðhorfin eru mjög ólík innan flokksins. Þannig hefur það komið fram, að hluti flokksmanna, forustumanna flokksins og þingmanna flokksins, var eindregið fylgjandi þeirri stefnu sem ég hef hér greint frá og fyrir lá í sambandi við sameignarsamning og lagafrv. að nýrri Landsvirkjun. Og í undirbúningsnefnd að þessu máli, í viðræðunefnd ríkisins var hv. þm. og núv. hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson.

Á sama fundi og bæjarstjórn Akureyrar samþykkti sameignarsamninginn 11. sept. 1979 samþykkti hún einnig að fela fulltrúum sínum í stjórn Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar samkvæmt gildandi lögum um Landsvirkjun, ef ske kynni að Reykjavíkurborg hafnaði samningnum. Þetta skyldi gert á grundvelli gildandi laga um Landsvirkjun, sem ég ætla að vitna hér til, og hljóðar þannig, 17. gr. laga nr. 59 frá 1965:

„Eigendum Laxárvirkjunar er heimilt að ákveða, að Laxárvirkjun sameinist Landsvirkjun. Náist ekki samkomulag milli eigenda Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar um eignarhlutdeild aðila og nýjan sameignarsamning, skulu dómkvaddir menn meta eignir hvors fyrirtækis fyrir sig og fer þá eignarhlutdeildin eftir því mati. Verði eignarhlutur ríkisins samkvæmt þessu undir helmingi, er ríkisstj. heimilt að ákveða, að ríkissjóður leggi Landsvirkjun til nýtt fjárframlag eða taki að sér greiðslu skulda þannig að tryggð verði helmingseign af hálfu ríkisins. — Eftir sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun skulu aðilar skipa sjö menn í stjórn fyrirtækisins, í hlutfalli við eignarhlutdeild, þó þannig, að allir aðilar eigi a.m.k. einn mann í stjórn þess. Ráðh. skipar formann úr hópi þingkjörinna fulltrúa og fer hann með tvö atkvæði við atkvæðagreiðslur stjórnarinnar, ef heimild í 1. mgr. til að tryggja ríkissjóði helmingseign hefur verið notuð, en ella með eitt atkvæði.“

Samkvæmt þessari lagagrein, 17. gr. laga um Landsvirkjun, getur Laxárvirkjun með ákvörðun af hálfu stjórnar gengið inn í Landsvirkjun og sameinast fyrirtækinu. Iðnrn. hvatti í upphafi ekki til að þessi heimild yrði hagnýtt, heldur taldi eðlilegra að reynt yrði að ná með vönduðum undirbúningi samstöðu um þessa niðurstöðu mála. En þegar það lá fyrir, að ekki var meirihlutavilji í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir þessu, þá ákvað bæjarstjórn Akureyrar fyrir sitt leyti að beita þessu heimildarákvæði, og iðnrn. lagði hið sama fyrir fulltrúa ríkisins í stjórn Laxárvirkjunar. Með bréfi stjórnar Laxárvirkjunar 5. nóv. 1979 til nr. og til stjórnar Landsvirkjunar óskaði Laxárvirkjun eftir að viðræður um sameiningu fyrirtækjanna hæfust hið fyrsta. Þáv. iðnrh. Bragi Sigurjónsson fylgdi málinu eftir fyrir hönd rn. Bæjarstjórn Akureyrar gerði og samþykkt um málið. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti 27. des. 1979 að borgarráðið komi fram fyrir hönd Reykjavíkurborgar í fyrirhuguðum viðræðum.

Í jan. 1980 tilnefndi þáv. iðnrh. fulltrúa af hálfu ríkisins í viðræðunefnd, og var Jóhannes Nordal seðlabankastjóri skipaður til að hafa forustu fyrir viðræðunum. 12. maí s.l. var svo bætt við mönnum í þessa nefnd með tilliti til stjórnarskipta sem orðið höfðu.

Síðan hafa verið haldnir fimm formlegir fundir þessara þriggja viðræðunefnda og auk þess hafa átt sér stað fundir milli fulltrúa Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Um skeið ríkti ágreiningur milli fulltrúa Reykjavíkur innbyrðis, en á síðasta fundi, sem haldinn var 8. okt. s.l., komu fram vísbendingar um að samkomulag kynni að nást milli fulltrúa Reykjavíkurborgar innbyrðis um það, hversu meta skyldi verðmæti mannvirkja Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar, og þar með um eignarhlutdeild aðila á móti ríkinu. Og fram komu yfirlýsingar frá fulltrúum Akureyrarbæjar um að þeir væru reiðubúnir til að teita samkomulags um þessi efni. Næsti formlegi fundur þessara viðræðunefnda er fyrirhugaður fyrri hluta desembermánaðar.

Ég hef talið, herra forseti, ástæðu til að rekja stöðu þessa máls, þessa mikilvæga þáttar í sambandi við skipulag orkumálanna, hv. þdm. til glöggvunar og til glöggvunar fyrir þá n. sem fær þetta mál til meðferðar. Iðnrn. hefur ekki viljað grípa inn í þessar umleitanir og viðræður um samruna Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar með lagaboði. Réttur Laxárvirkjunar, til að óska eftir sameiningu þessara tveggja orkuvinnslufyrirtækja er að mati rn. skýr samkv. lögum um Landsvirkjun. Fleiri þættir tengjast þessu máli vissulega, eins og byggðalínurnar, sem ættu þó að geta fylgt á eftir í sambandi við stofnun öflugs fyrirtækis til raforkuvinnslu og meginraforkudreifingar, eins og stefnt hefur verið að allt frá árinu 1978, og raunar fyrr ef grannt er skoðað, því þessi mál voru til meðferðar að nokkru leyti með sama hætti í tíð vinstri stjórnarinnar 1971–1974. Hér er því á ferðinni undirbúningur sem getur stefnt að sama marki og fyrirhugað var á árunum 1978–1979.

Þá vil ég geta þess, að málefni Orkustofnunar eru í sérstakri athugun um þessar mundir, hafa raunar verið það um skeið, og þá með sérstöku tilliti til þess, að stofnað yrði það raforkuvinnslufyrirtæki fyrir landið allt sem ég hef gert hér að umræðuefni. En því til viðbótar skipaði iðnrn. sérstakan starfshóp 1. ágúst s.l. til að gera tillögur um endurbætur á innra skipulagi og stjórnsýslu Orkustofnunar. Var þetta gert í samráði við Orkustofnun, ríkisendurskoðun og fjárlaga- og hagsýslustofnun, og eiga þessir aðilar auk rn. fulltrúa í starfshópnum. Frá Orkustofnun eru þar þrír fulltrúar, þ.e. orkumálastjóri og tveir fulltrúar starfsmanna. Gert er ráð fyrir að þessi starfshópur skili tillögum til rn. fyrir n.k. áramót.

Þá eru það Jarðboranir ríkisins. Gert er ráð fyrir í því frv., sem hér er til umr., að sett verði um þær sérstök lög og tekinn út úr orkulögum sá kafli sem um þær fjallar. Um það mál er það að segja, að einnig þar er unnið að greiningu mála af sérstökum starfshópi sem á að gera tillögur um úrbætur á rekstrarlegri og fjárhagslegri stöðu Jarðborana ríkisins og raunar einnig Jarðvarmaveitna ríkisins. Í þeim hópi eru fulltrúar frá Orkustofnun og fjárlaga- og hagsýslustofnun, og Raunvísindastofnun Háskólans á einnig fulltrúa í þeim starfshópi auk iðnrn.

Í þessu frv. er sem eðlilegt er vikið að Orkusjóði, og ég vil greina frá því, að varðandi málefni hans er einnig unnið að athugun. Varðar hún einkum fjármál Orkusjóðs, viðskipti hans við ríkissjóð, orkufyrirtæki og lántakendur. Athuga skal hvort þörf sé á að lánveitingar til fyrirtækja eins og Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og e.t.v. fleiri aðila eigi framvegis að fara í gegnum sjóðinn, en að því hefur verið fundið, að að því væri kostnaðarauki fyrir þessi fyrirtæki. Þá á þessi starfshópur að athuga um lánskjör þeirra lána, sem sjóðurinn tekur og endurlánar, og gera tillögur til breytinga ef þurfa þykir. Einnig er honum ætlað að greina lánastreymi til hitaveitulána og gera tillögur til einföldunar og betra yfirlits varðandi þau. Það er óeðlilegt að fyrirtæki, sem eru að reisa hitaveitur, njóti mjög misjafnrar aðstöðu í sambandi við lánskjör, eins og nú má segja að ríki, þegar sumar veitur fá erlend lán til afnota, aðrar fá lán úr Lánasjóði ísl. sveitarfélaga og í þriðja lagi er um lánveitingar að ræða úr Orkusjóði, en kjör á þessum lánum eru misjöfn eins og hv. þm. mun kunnugt. Þannig má segja að flestir þeir þættir, sem miklu máli skipta og snúa að orkulögum, séu í athugun, hver með sínum hætti, eins og ég hef hér gert grein fyrir.

Herra forseti. Ég mun senn ljúka máli mínu. En ég sé ástæðu til að rifja hér upp ákvæði í stjórnarsáttmála er varða það mál sem hér er til umr. Þar segir:

„Sett verði lög um skipulag orkumála, um meginraforkuvinnslu og raforkuflutning, þar sem m.a. verði ákveðin samræmd heildarstjórn þessara mála og tryggð heildsala raforku til almenningsveitna við sama verði um land allt. Skipulag orkudreifingar verði tekið til endurskoðunar.“

Að endurskoðun orkulaga verður unnið í ljósi niðurstaðna af viðræðum um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar, og þegar fram eru komnar tillögur þeirra starfshópa sem nú eru að vinna að einstökum þáttum.

Ég vil svo að endingu segja um það frv., sem hér er til umr., að það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að hv. þm. sýni þessum málum áhuga. Þetta frv. er ein tilraun af mörgum hjá Sjálfstfl. til að leita að stefnu flokksins í orkumálum. Hv. 1. flm. frv. er mikill áhugamaður um orkumál og velviljaður í þeim efnum og hefur þar stutt að mörgu gagnlegu. Ég hlýði gjarnan á orð hans, en þeim ráðum, sem fram koma í nefndu frv., tek ég með fullum fyrirvara, eins og hefur komið fram í máli mínu, og ég tel ekki tímabært að ráðast í endurskoðun orkulaga með þeim hætti sem gerð er tillaga um í þessu frv., þó að þar megi finna þætti sem gagnlegir geta orðið, enda gerðar tillögur um af sérstakri nefnd sem leit á þessi mál fyrir nokkrum árum og náði um þau samstöðu að hluta til. Herra forseti, ég læt máli mínu lokið.