19.11.1980
Neðri deild: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

85. mál, þingfararkaup alþingismanna

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. hv. deildar tók ég ekki þátt í afgreiðslu þessa máls á fundinum, en vil með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni og þá hvers vegna ég tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Eins og líka kemur fram var hv. þm. Matthías Á. Mathiesen fjarverandi í veikindafríi, en lætur í ljós skoðun sína í nál. sem þegar hefur verið minnst á. Ég vil lýsa því yfir að ég hefði gjarnan viljað vera með á því nál., en vegna fjarveru þm. átti ég ekki kost á því og ekki var haft samband við mig.

Ég sætti mig illa við að senda vandamál, er varða á einhvern hátt rekstur Alþingis, til ákvörðunar úti í bæ. Ég tek undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að Alþ. sé hér á flótta undan utanaðkomandi þrýstingi, og tel það miður. Ég gat vel sætt mig við að þfkn. yrði lögð niður og hefði talið það eðlilegt. En ég tel jafneðlilegt að eins og rekstur Alþingis, almennt er á ábyrgð þingforseta, þá sérstaklega forseta Sþ., hefðu kjaramál þm. verið fengin í hendur þingforsetum og þar með ábyrgð öll á rekstri Alþingis sameinuð í einu og sömu höndum. En þar sem ákvörðun um að láta undan þrýstingi sem er utanaðkomandi, og viðurkenna þar með vanmátt alþm. til að taka ákvörðun um eigin mál virtist vera ríkjandi, þá taldi ég mig ekki geta tekið þátt í afgreiðslu málsins í n., en læt kyrrt liggja, m.a. vegna þess að ég vildi ekki tefja framgang málsins.