19.11.1980
Neðri deild: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

85. mál, þingfararkaup alþingismanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Örfá orð út af þessu máli.

Það er ekki nýtt að kjör alþm. séu til umr. á hv. Alþingi, og í sjálfu sér er heldur ekkert nýtt að heyra um það skiptar skoðanir hvernig með þau mál eigi að fara. Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að með ákvörðun á þennan hátt sé Alþ. að láta undan þrýstingi. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að þm. verði að vera við því búnir og taka þá kvöð á sig, þótt óvinsæl sé, að ákvarða þetta sem annað.

Ég skal ekki gera þetta að neinu deilumáli hér. Mér er ljóst að yfirgnæfandi meiri hl. þm. er á þeirri skoðun, að þessi mál eigi að leysa með þeim hætti sem nú er lagt til. Við því er auðvitað ekkert að segja. En ég hygg að það komi fljótlega gagnrýni frá rauðvínspressunni, sem svo var nefnd áðan af hv. þm. Pétri Sigurðssyni, þegar það kemur fram, sem ég hygg að verði, að almennt hækki laun þm. mjög veruleg a frá því sem þau eru nú við það að málið fer þennan veg. Þá segja hinir sömu sem gagnrýnt hafa að Alþ. ákvæði þessi mál sjálft: Þetta vissu þeir helvískir. Þess vegna fóru þeir þessa leið. — Ég er alveg viss um að þetta verður tónninn í þeim mönnum sem hafa gagnrýnt hvað mest launakjör alþm. eins og þau hafa verið ákveðin. Ég hefði því talið æskilegast þingsins vegna og sóma þess jafnframt að það héldi málinu áfram í sínum höndum, ákvarðaði það og léti lönd og leið þrýstihópa sem hafa að verulegu leyti með rangtúlkunum og beinlínis ósannindum gert kjör alþm. tortryggileg í augum almennings í landinu. Það er ekki langt síðan ég las í Dagblaðinu hrein ósannindi að því er þessi mál varðaði.

En ég ætla ekki að fara að efna til neinna umr. Ég lýsti því yfir í þingflokki mínum að ég mundi ekki beita mér gegn þessu máli þó að ég hefði þessa skoðun, en ég taldi rétt vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið um málið, að láta skoðun mína koma fram.