19.11.1980
Neðri deild: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

85. mál, þingfararkaup alþingismanna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni á þeim málflutningi sem kemur fram í ræðum manna undir þessum dagskrárlið, vegna þess að þetta mál hefur öðrum málum fremur verið rætt í þingflokkunum að gefnu tilefni í haust og reyndar í sumar. Það er ekki rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að um utanaðkomandi þrýsting hafi verið að ræða í þessum efnum. Það hafa verið fluttar bæði þáltill. og frv. um þessi mál fyrr og ég er einn þeirra alþm. sem hafa stutt þá skoðun, að Kjaradómur eigi að fjalla um kjara- og launamál þm. Sú skoðun byggist ekki á því, að um áróður eða utanaðkomandi þrýsting hafi verið að ræða og allra síst frá svokallaðri rauðvínspressu, heldur byggist hún á allt öðrum atriðum.

Við skulum átta okkur á því, að þfkn. var lítið annað hlutverk ætlað en að fylgja ákveðnum launaflokki Bandalags starfsmanna ríkis og bæja þannig að vald hennar var orðið tiltölulega lítið. Það er stundum talað um sjálfstæði Alþingis og virðingu Alþingis, og það er alveg rétt, að auðvitað finnst okkur öllum og sjálfsagt miklu fleiri skorta talsvert á virðingu Alþingis. En ég held að þetta mál sé lítið framlag til þeirrar umr. Valdið hér á landi er stundum greint í þrennt, eins og í öðrum lýðræðisríkjum: í framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Ég veit ekki betur en Kjaradómur ákveði launakjör hæstaréttardómara. Þar er um svipað að ræða og hér er verið að ræða um þegar alþm. eiga að taka laun samkv. úrskurði Kjaradóms.

Ég er sammála nál. meiri hl., sem liggur fyrir í þessu máli, og mun styðja þetta mál. Hitt er svo önnur saga, að þau tíðindi, sem gerðust s.l. vor þegar einstakir þm. útbreiddu óhróður um störf þeirra manna sem við höfðum kosið í þfkn., eru kapítuli í málinu út af fyrir sig, en skipta litlu þetta frv., þótt ég viti að það hefur breytt afstöðu sumra. Það mál var bæði ráðh. og vissum þm. til vansæmdar og virðing Alþingis verður ekki meiri af slíkum málflutningi.