20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á þskj. 102 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi fsp. til hæstv. forsrh.:

„Mega alþm. gera ráð fyrir því, áður en þeir fara heim í jólaleyfi, að þeir fái að sjá á borðum sínum till. ríkisstj. í sambandi við þær ráðstafanir, sem hún telur nauðsynlegt að gera vegna myntbreytingarinnar sem fram á að fara um áramót?“

Þessi fsp. er flutt af því tilefni, að við umr. um myntbreytinguna og boðaðar efnahagsráðstafanir samtímis henni var þeirri spurningu þráfaldlega beint til ríkisstj., hvenær þm. yrðu kynntar þessar till. Upp úr hæstv. ráðh. dróst ekki orð sem máli skipti.

Fyrir tveim dögum gerði hæstv. forsrh. verðbólguna að umræðuefni, og ef dæmt er eftir málflutningnum, var hann hvorki bjarteygur né heiðarlegur eins og Jón úr Vör skáld hefur lýst öðrum sjálfstæðisráðherra í þessari ríkisstj. Hæstv. forsrh. sagði sem sagt að verðbólgan væri á þessari stundu 51%, en hefði verið liðlega 60% þegar ríkisstj. hefði tekið við, eða eins og hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir síðustu hækkun framfærsluvísitölu, umreiknað til 12 mánaða á ársgrundvelli, er verðbólgan 51%. M.ö.o. og það vita allir að verðbólgan er minni nú en hún var á síðasta ári og þegar ríkisstj. tók við. Þetta liggur fyrir, þetta eru staðreyndir.“

Svona lítur málflutningur hæstv. forsrh. út. Frá 1. nóv. í fyrra til 1. febr. í ár varð hækkun framfærsluvísitölu 42% miðað við ár. Ber að skilja það svo að verðbólgan hafi verið 42% þegar þessi ríkisstj. tók við, eins og reikningsaðferð hæstv. forsrh. gefur í skyn? Nei, vitaskuld ekki. Í báðum tilvikum hefur verðbólgan verið meiri, óhjákvæmilegum hækkunum hefur verið haldið niðri atvinnuvegirnir og raunar þjóðarbúið í heild hefur verið rekið með halla. Á tímabilinu frá 1. febr. til 1. maí hækkaði framfærsluvísitalan um 64% og hækkun hennar til 1. febr. n.k. verður svipuð. Ef framfærsluvísitalan er lögð til grundvallar og hliðsjón er tekin af byggingarvísitölu, hækkun hennar til 1. jan., má búast við að verðbólgan sé á þessu augnabliki ekki undir 55–56% — og raunar yfir 60% ef ekki hefði komið til niðurgreiðslnanna til að skekkja framfærsluvísitöluna sem raunverulegan mælikvarða á útgjöld heimilanna. Frá 1. nóv. til dagsins í gær hefur dollar hækkað um 3.26%, sem samsvarar 58.7% á ári.

Herra forseti. Ég hef í tengslum við þessa fsp., eins og eðlilegt er, nokkuð gert að umræðuefni hugmyndir hæstv. forsrh. um verðbólguna og þróun hennar. Ég þarf ekki að ítreka fsp. mína hér í ræðustólnum, hún liggur fyrir á þskj. 102.