20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það fór ekki á milli mála, að þar sem síðasti ræðumaður fór var sá sem valdið hafði. Hann hafði ráð hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. í hendi sér. Hann gat veitt hæstv. viðskrh. ákúrur, og raunar var ræða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar stórárás á viðskrh. og framsóknarmenn. Og það er nokkur ástæða til þess, vegna þess að hingað til hafa þeir haft nokkuð stór orð um nauðsyn baráttu gegn verðbólgu, en koðnað niður við tal frá Alþb.-mönnum eins og síðasti ræðumaður viðhafði.

Vegna ummæla hæstv. forsrh. um lengingu aðlögunartíma vaxta og verðbólgu samkv. Ólafslögum, þá er það dæmi um hvað þessi hæstv. ríkisstj. er sein að hugsa, sein að framkvæma. Þegar í vor, snemma á valdaferli ríkisstj., var tilkynnt hér á Alþ. ríkisstj. hefði í huga að lengja að þessu leyti aðlögunartíma Ólafslaga, en enn er ekkert frv. þar að lútandi komið fram. Og jafnvel þótt aðlögunartíminn yrði lengdur, þá er staðreynd að það ætti samkv. þeim lögum að hækka vexti um 2 prósentustig a.m.k. Því spyr ég hæstv. forsrh. eða aðra ráðh. sem því geta svarað: Er ætlunin enn að hækka vexti nú um mánaðamót?