20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það var sagt af síðasta ræðumanni, að þessar umr. væru framhald af umr. sem voru um fsp. mína varðandi breytingu á gjaldmiðlinum. Það er rétt. Enn þá er verið að krefja ríkisstj. um svör.

Það er einn þáttur þessa máls sem ég vil koma inn á og tel ástæðu að gera. Ég hef litið svo á að í þessum umr. hafi komið fram hjá hæstv. viðskrh. að ef það væri möguleiki á að fresta breytingunni á gjaldmiðlinum, þá væri hann til viðtals um slíkt. Hann hefur a.m.k. ekki sagt að hann væri ekki til viðtals um það. En hann hefur borið Alþ. þær upplýsingar frá Seðlabankanum, að þetta væri ekki hægt vegna þess að þá yrðu vandræði á næstu mánuðum með seðlaveltuna, það væri ekki nægilegt magn af seðlum fyrir seðlaveltuna eins og þyrfti að vera.

Ég hef sagt áður að ég ber brigður á þessar upplýsingar. Ég hef athugað þetta mál síðan ég vék að þessu síðast í þessum ræðustól. Þá kom það í ljós, sem er staðreynd og má vera öllum ljóst, að seðlaveltan á hverju ári er mest í desembermánuði. Hún er miklu meiri í desembermánuði en aðra mánuði vegna viðskipta í jólamánuðinum. Það er staðreynd líka, að seðlaveltan fer minnkandi á næstu mánuðum eftir des. Þetta geta menn lesið í opinberum skýrslum frá Seðlabankanum. Nú spyr ég hæstv. viðskrh., þegar það er upplýst að það kunni að vera fullkominn möguleiki á því að fresta gjaldmiðilsbreytingunni vegna framkvæmdaörðugleika að þessu leyti, hvort hæstv. ráðh. vilji beita sér fyrir þessari frestun. Ég hef ástæðu til þess að spyrja um þetta vegna þess að það hefur margsinnis komið fram hjá hæstv. ráðh., að við erum sammála um að það þurfa að vera fyrir hendi vissar forsendur til þess að gjaldmiðilsbreytingin nái tilgangi sínum og við erum sammáta um að þessar forsendur eru ekki fyrir hendi í dag.