20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði að verðbólgustigið væri 51% eins og það er núna. Ég hygg að hæstv. viðskrh. viti að hækkun byggingarvísitölunnar til 1. jan. verður varla undir 63% og líklega meiri, því að eins og við vitum vega launahækkanir mjög þungt í byggingarvísitölunni. Ef tekin er hliðsjón af væntanlegri hækkun byggingarvísitölunnar og haldið sig við 51% hækkun framfærsluvísitölunnar er ógerningur að halda því fram, að verðbólgustigið, eins og það er núna, sé 51%. Lægsta hugsanleg tala er 55–56%.

Herra forseti. Ég vil svo bera fram stutta fsp. Ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi allir tvær mínútur þegar þeir taka til máls í fsp.-tíma. (Forseti: Það er misskilningur hjá hv. þm. Það eru 10 mín. sem ráðh. eru leyfðar í fsp.-tíma.) Það er ekki rétt.