20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Sigurgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Það hefur litið orðið um svör við fsp. sem hér hafa verið bornar fram, þannig að þm. verða sennilega eins og aðrir landsmenn að giska á svörin sjálfir. Ég minnist þess, það er ekki það langt síðan við sjálfstæðismenn vorum að boða okkar efnahagsráðstafanir. Ég man þær tölur sem í þeim voru fólgnar. Við töluðum um að margnefnd leiftursókn, sem þá var að vísu vopnlaus, friðsöm leiftursókn, en á nú greinilega að framkvæma með valdi, átti að færa verðbólguna niður á ársgrundvelli um 15–20%. Þetta töldum við að mundi þýða um 10% á fjárl. Það þarf ekki reikningsglöggan mann til að sjá það, ef á að koma verðbólgu, sem metin er 70% á ársgrundvelli, niður í 42%, eins og fyrirhugað er í fjárlagafrv., þá er meiningin að koma verðbólgunni niður um 28% til meðattals næsta árs. Í framhaldi af þessu er hægt að halda áfram að gefa sér þær forsendur, að miðað við núverandi fjárlagafrv. þýðir þetta efnahagstilfærslu í þjóðfélaginu upp á liðlega eitt hundrað milljarða. Ég held að við hljótum að verða að gera ráð fyrir því, ef þessar tvær tölur eru bornar saman, að þetta sé sú útkoma sem þar á að koma.

Það virðist vera besta ráðið fyrir hv. þm. orðið til þess að fá upplýsingar að vakna snemma á morgnana og hlusta á Morgunpóstinn, því að á morgnana eru ráðh. ekki búnir að brynja sig og Páll Heiðar og hans lið virðast hafa einstakt lag á að koma þeim á óvart og fá þá til að tala í svefnrofunum meira en þeir segja hér niður frá eftir hádegi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta meira. Mér sýnast líkur benda til þess, ef ekki er mótmælt að efnahagsráðstafanir, sem gerðar verða í næsta mánuði, feli í sér ekki minni tölu en 100 milljarða kr.