20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála þeim hv. þm. sem hér hafa komið og sagt að ekkert hafi fengist út um það í þessari hrinu, hvað hæstv. ríkisstj. hyggst gera. Að vísu hefur ekki verið mikið um bein svör. En það er oft svo að það er hægt að lesa í það sem menn segja- (Gripið fram í.) já, og líka segja ekki. Ég er því þeirrar skoðunar, að þessi hríð að ríkisstj. hafi orðið til nokkurs gagns til þess að átta sig á því, hvað a.m.k. sumir hæstv. ráðh. vilja gera. Það er ekki þar með sagt að það sé orðin eining um þær aðgerðir.

Það var sagt hér áðan af hv. þm., ég held Benedikt Gröndal, að hv. þm. Ólafur Ragnar hefði skotið úr launsátri á hæstv. viðskrh., og það er út af fyrir sig rétt. En formaður þingflokks Alþb. skaut úr launsátri á fleiri ráðh. en hæstv. viðskrh. Það vilt nefnilega svo til að hæstv. fjmrh. hefur haft uppi yfirlýsingar, þó að lengra sé um liðið en hjá hæstv. viðskrh., í sama dúr og hæstv. viðskrh. hefur talað hina síðustu daga. Með þessu skoti frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni er hann einnig að skjóta að ráðh. Alþb. í ríkisstj.

Ég held að það sé alveg augljóst, að það er vilji a.m.k. einhverra ráðh. innan hæstv. ríkisstj. að skerða þá kjarasamninga sem gerðir voru 27. okt. s.l. Það liggur fyrir. Það er sá boðskapur sem Alþýðusambandsþing stendur frammi fyrir, að það er í undirbúningi innan hæstv. ríkisstj., hvort sem það er langt eða skammt á veg komið, að ógilda þá kjarasamninga sem nú er nýbúið að gera. Í ljósi þess hlýtur Alþýðusambandsþing að krefjast skýrra svara um það af hæstv. ríkisstj., hversu langt á að ganga í því að skerða kjörin. Það er ekkert vafamál, að það á að gera. Spurningin er þessi: Hvað á að skerða mikið? Það er það sem málið snýst um eftir þær umr. sem hér hafa átt sér stað um þetta mál, en ekki hvort það verður gert. Hversu mikið?