20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það er rétt svo að maður kemst að að þakka hæstv. forsrh. fyrir svarið við fsp. minni, en það vil ég gera hér með og eins og ég gat um í upphafi minnar fsp. staðfesta það, að hann óskaði eftir að svara þessari fsp. nú þegar, sem er eðlilegt vegna þess að hún er stað- og tímabundin við það þing sem nú er að hefjast, fjölmennasta íslenskt fulltrúaþing sem kemur saman. Varðandi almennar hugleiðingar hans um fyrirspurnatímann og hvernig umr. eru um fsp. finnst mér það mjög athugandi og get tekið undir margt af því sem hann sagði þar.

En það breytir ekki þeirri staðreynd, að í svari hæstv. forsrh. kemur fram að það er ekki samstaða um nein úrræði innan ríkisstj. í sambandi við þann voða sem fram undan er og hæstv. byssumaður, viðskrh., hefur haft á orði hér og víðar. Þeir standa frammi fyrir því, þessir 460–470 fulltrúar sem koma alls staðar að af landinu n.k. mánudag, að þeir geta komið hingað og gert samþykktir og gert kröfur og farið heim aftur án þess að vita nokkurn hlut um það, hvað eigi að ske í sambandi við þá samninga sem stór hluti þeirra er nýbúinn að gera.

Það er hins vegar alrangt hjá hæstv. viðskrh., sem kom fram hér í þinginu fyrir nokkrum dögum, að það væri búið að skapa vinnufrið. Það er langt frá því, einfaldlega vegna þess að hvert einasta verkalýðs- eða launþegafélag á Íslandi, alla vega held ég öll innan ASÍ, eru með ákvæði í samningum sínum þess efnis, að ef gengið verður fellt eru samningar lausir. Ég býst við að inn í samninga þeirra félaga, sem eiga eftir að gera samninga, muni nú bætast ákvæði þess efnis, að ef samningum — nýgerðum samningum — verður hróflað með lögum þessarar ríkisstj., — sem hefur lofað að snerta aldrei við neinu slíku og hefur lofað öllu fögru í sambandi við aukningu kaupmáttar, sem þegar hefur verið sýnt fram á og sannað að hún hefur svikið og gengið miklu lengra en nokkur önnur ríkisstj. á Íslandi fyrr og síðar í að rýra kaupmátt með beinum aðgerðum sínum, — að þá muni verða tekið upp í samninga þeirra ákvæði um að samningar verði lausir um leið og slíkt verður gert. Auk þess er eftir að semja um fiskverð um áramót, og ég geri ráð fyrir, ef ég þekki íslenska fiskimenn rétt, að þeir muni þá um leið reyna að sækja nokkuð af því sem frá þeim hefur verið stolið á síðustu misserum.