20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er vissulega réttmæt fsp., sem hér liggur fyrir, og ekki óeðlilegt að leitað sé eftir því, hvaða efnahagsráðstafanir séu fyrirhugaðar, þegar Alþýðusambandsþing er á næsta leiti. En svörin, sem við höfum fengið hér á s.l. tveim tímum, þegar þetta hefur verið rætt, eru næsta óljós og mjög loðin.

Nú hef ég verið að velta því fyrir mér, hvort hægt sé að reyna aðra leið til að fá einhver svör fram á þessum fundi sem gefi launþegum einhverja vísbendingu um hvort efnahagsráðstafanirnar, sem fyrirhugaðar eru, muni á einhvern hátt skerða nýgerða kjarasamninga. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. segir að ríkisstj. muni ekki setja lög um almenn laun nema allir aðilar að ríkisstj. séu um það sammála, enda sé haft samráð við samtök launafólks. Þetta segir okkur það, að allir aðilar að ríkisstj. verði að vera sammála um þær efnahagsráðstafanir sem gerðar verða, ef þær snerta launamálin að einhverju leyti. Ég minnist þess, að í stefnuskrá Alþb., sem ég held að hafi verið gefin út fyrir kosningar 1978 eða 1979, ég man það nú ekki orðrétt, en þar stóð eitthvað á þá leið, að undir engum kringumstæðum mætti skerða gerða kjarasamninga. Því vil ég spyrja hæstv. félmrh., sem hér er inni, en það kom ekki fram í hans máli hér áðan: Treystir félmrh. sér til þess að gefa yfirlýsingu um það hér og nú, að ráðstafanir, sem gerðar verði í efnahagsmálum, muni ekki skerða nýgerða kjarasamninga launþega?