20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það verður nú greinilegra með hverjum deginum sem nær líður Alþýðusambandsþingi, að þeir fulltrúar Alþb., sem sæti eiga hér á hv. Alþ., verða órólegri. Það kom greinilega í ljós, hafi menn fylgst með hæstv. félmrh. hér í ræðustól áðan. En ég kem nánar að því síðar.

Ég verð að segja það, að ég hef oftast nær litið upp til hæstv. núv. forsrh. og talið mér nokkurn sóma að því, og ég vil taka það fram, að ég hef ekki glatað allri trú á hann enn. En það urðu mér geysileg vonbrigði að heyra núv. hæstv. forsrh. lýsa því yfir, að ríkisstj. — ég met það svo að hann hafi talað fyrir ríkisstj. alla — ætli alls ekki að virða Alþýðusambandsþing þess að greina því frá hvaða efnahagsráðstafanir ríkisstj. ætlar sér að gera. Það urðu mér geysileg vonbrigði að virða þannig að vettugi fulltrúa yfir 50 þús. launþega sem nú eru að koma saman. Við hvern á að hafa samráð um efnahagsgerðir ef ekki Alþýðusambandsþing þegar það situr á rökstólum og verið er að undirbúa efnahagsráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins? Ég vil spyrja hæstv. félmrh. og þá Alþb.-ráðh. aðra, sem hér eru inni: Hafa þeir fallist á þá ákvörðun hæstv. forsrh. að segja nei við Alþýðusambandsþing um að það fái að vita um fyrirhugaðar efnahagsráðstafanir? (Gripið fram í: Ert þú í Alþýðusambandinu?) Hafa þeir fallist á það? Ég er einn fulltrúinn þar og tel mig eiga jafnan rétt á við alla aðra. Hafa þessir hæstv. ráðh. samþykkt neiið við Alþýðusambandsþing um upplýsingar? Og ég ítreka fsp. sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan, ég ítreka þá fsp. til hæstv. félmrh.: Vill hann hér og nú, á síðasta þingdegi Alþ. fyrir Alþýðusambandsþing, lýsa yfir að Alþb. standi ekki að neinum þeim ráðstöfunum sem skerði nýgerða kjarasamninga Alþýðusambandsins frá 27. okt.? Lýsi hann því ekki hér yfir fyrir hönd ráðh. Alþb., þá tek ég það svo að þeir ætli sér að skerða þessa samninga og hafi raunar þegar ákveðið það.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði áðan um skemmdarverk og umr. þær sem nú hafa farið hér fram, vil ég aðeins segja þetta: Það var hvorki ég né hv. þm. Pétur Sigurðsson sem ákváðum þessar umr. Það var hæstv. forsrh. sem óskaði sérstaklega eftir því, að þessar umr. færu fram nú. Það gæti verið hugrenningarefni fyrir hæstv. félmrh. að spyrja sjálfan sig um það, vegna hvers hæstv. forsrh. gerði þetta. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu.

Hæstv. félmrh. sagði áðan að það hefði verið reynt að koma í veg fyrir samninga með skemmdaraðgerðum það 10 mánaða tímabil sem tókst ekki að koma saman samningum. Það er þegar yfirlýst og vitað og var raunar vitað allan þennan tíma, að mesti þrándurinn í götu þess, að samningar gætu tekist, var hæstv. ríkisstj. sjálf. Fulltrúar Alþb. innan verkalýðshreyfingarinnar voru líka að nokkru leyti, ef ekki að verulega leyti þrándur í götu þess, að eðlilegir og æskilegastir samningar tækjust á vinnumarkaðinum. Skemmdarverkamenn af því tagi að koma í veg fyrir samninga og koma í veg fyrir eðlilegar aðgerðir í efnahagsmálum er fyrst og fremst að finna innan Alþb.

Ég vil minna á það líka að lokum, að það var hæstv. félmrh. sem einn allra ráðh. líklega í Íslandssögunni hefur orðið að afturkalla bréf sem sent hefur verið inn á samningafund hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það bréf kom í veg fyrir það um tíma að samningar gætu haldið áfram. Félmrh. Alþb. er sá eini allra íslenskra ráðh. sem hefur orðið að éta með þeim hætti ofan í sig það sem í slíku bréfi stóð.

Ég ítreka fsp. til hæstv. félmrh.: Vill hann lýsa því yfir hér, að Alþb. standi ekki að neinum þeim efnahagsráðstöfunum sem skerða nýgerða kjarasamninga Alþýðusambandsins?