20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. ókyrrðist mjög undir minni ræðu og mér þykir vænt um að hann gat ekki setið á sér og stóð upp, eins og hann átti að gera langtum fyrr. En hann þurfti að fara nokkuð langt aftur í tímann til þess að þykjast bera af sér sakir. Ég fullyrði það, að menn væru betur settir nú og launþegar væru betur settir nú hefðu febrúar- og maílögin 1978 náð fram að ganga og bera árangur. Eftir setningu þessara laga var kaupmátturinn 10% hærri eftir maílögin heldur en hann er núna og 5% hærri eftir febrúarlögin en hann er núna. Allir útreikningar hæstv. ráðh. um yfirvinnulög og annað því um líkt eru út í hött. Þessi lög áttu að gilda til ársloka 1978. Með þeim hætti hefðum við fengið viðnám gegn verðbólgu, — nauðsynlegt viðnám. Það var skemmdarverk Þjóðviljans og verkalýðsforingja Alþb. sem komu í veg fyrir það og leiddu yfir okkur þá verðbólguholskeflu sem ógnað hefur lífskjörum okkar allt frá haustinu 1978 til þessa dags.

Það hefur komið í ljós af þessum umr., að núv. hæstv. ríkisstj. hefur engin úrræði. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði það vera mótsögn að við segðum að annaðhvort hefði ríkisstj. engin úrræði eða hún vildi ekki segja frá þeim. Sú skýring getur verið til grundvallar þögn ríkisstj., að hún þori ekki að sýna úrræði sín fyrir þing ASÍ. En ég held að hin skýringin sé líklegri, að engin samstaða sé um úrræði innan ríkisstj. og hún beri þar sama svip og aðrar vinstri stjórnir.