21.10.1980
Sameinað þing: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

340. mál, fæðispeningar sjómanna

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Eins og þm. er kunnugt stóð yfir á s.l. vetri kjaradeila milli sjómanna á Vestfjörðum og útvegsmanna þar. Einn þáttur í lausn þessarar deilu var að báðir þessir aðilar óskuðu þess sameiginlega við stjórn Aflatryggingasjóðs, að reglum um fæðispeninga yrði breytt á þann veg, að þeir yrðu hækkaðir til þess að greiða sem svaraði eðlilegum fæðiskostnaði, og við það miðað, að þessi breyting gæti tekið gildi 1. júní s.l. Um þetta var hæstv. sjútvrh. kunnugt og raunar hafði hann lofað stuðningi sínum við þetta mál.

Ég spurðist fyrir um þetta utan dagskrár hér í þinginu 28. maí s.l., og þá var því svarað af hálfu hæstv. menntmrh., sem þá gegndi starfi sjútvrh., að hæstv. sjútvrh. væri mjög í mun að þetta mál yrði leyst og ef ekki tækist að leysa það með eðlilegum hætti eins og óskað var, þá yrði löggjöf, ef til þyrfti að koma, látin gilda aftur fyrir sig.

Nú er liðinn æðilangur tími frá því að þetta gerðist og ekkert bólar á, að því er séð verður, að breyting sé í vændum. Ég hef því leyft mér að leggja fram á þskj. 22 fsp. til hæstv. sjútvrh., svohljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd loforðs sjútvrh. um breytingu á reglugerð Aflatryggingasjóðs í þá veru að hækka greiðslu fæðispeninga til sjómanna?“