20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Enn varð hæstv. forsrh. til þess að valda mér vonbrigðum með ræðu sinni, þegar hann leyfði sér að slíta úr samhengi og lesa upp nokkur orð úr umræðuplaggi sem var til meðferðar þegar stjórnarmyndunarviðræður voru á sínum tíma. Ég ætla ekki að fara út í það, vegna þess að hv, þm. Benedikt Gröndal hefur svarað því. En það skyldi nú ekki vera, að launþegar almennt talað stæðu betur að því er varðar kaupmátt síns kaups heldur en þeir gera nú hefði verið farið að þeim ráðum, með þeim ráðstöfunum sem líka var gert ráð fyrir að gera að því er varðaði lækkun á sköttum og bætur að því er varðaði tryggingamál, sem núv. ríkisstj. undir handarjaðri og handleiðslu núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. neitaði alfarið að semja um við verkalýðshreyfinguna á sama grundvelli og gert var við BSRB.

Það er nauðsynlegt, að það komi inn í þessar umr. hver varð til þess að neita alfarið að fara skattalækkunarleiðina fyrir láglaunafólk. Það var núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. og núv. hæstv. fjmrh. sem neituðu Alþýðusambandinu um það alfarið að fara inn á leið skattalækkana að því er varðaði lágtekjufólk. Og það voru þessir sömu ráðh. sem neituðu því alfarið við Alþýðusambandið, að aðilar innan Alþýðusambands Íslands, einstaklingar í þeim félögum, fengju sömu lífeyrisréttindi og þessir sömu ráðh. sömdu um við BSRB. Alþb. varð til þess að neita alfarið sambærilegum lífeyrisréttindum fyrir verkafólk innan ASÍ og samið var um við BSRB, og það neitaði alfarið þeirri meginkröfu Verkamannasambands Íslands að fara skattalækkunarleiðina fyrir lágtekjufólk. Þetta eru staðreyndirnar.

Að lokum vil ég vekja athygli þingheims á því, að hæstv. félmrh. hefur ekki svarað þeim tveim fsp. sem til hans var beint hér áðan.

Fyrri fsp. var: Gáfu Alþb.-ráðh. samþykki fyrir þeirri neitun sem forsrh. boðaði hér til Alþýðusambandsþings um að það fengi vitneskju um efnahagsráðstafanir? Samþykktu ráðh. Alþb. þessa neitun á hendur Alþýðusambandsþingi?

Í öðru lagi var hann spurður og hefur ekki svarað enn: Vill hann lýsa því hér yfir fyrir hönd Alþb. í ríkisstj., að það verði ekki gerðar neinar þær ráðstafanir í efnahagsmálum sem skerði nýgerða kjarasamninga Alþýðusambandsins frá 27. okt.?

Geri hann þetta ekki, að svara báðum þessum fsp., verður ekki öðruvísi litið á heldur en Alþb. hafi samþ. neitunina til Alþýðusambandsþings, og þá verður í öðru lagi að líta svo á, að Alþb. hafi fallist á skerðingu á nýgerðum kjarasamningum.