20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er engin ástæða til þess að láta hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sendisvein félmrh. í þessum umr., hafa síðasta orðið í þeim.

Ég vil aðeins segja út af því sem hann sagði, að ég tók hér fram að hv. þm. Benedikt Gröndal hefði svarað þeim aðdróttunum, sem forsrh. var með og voru þær sömu og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi. En til viðbótar þessu vil ég aðeins minna hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson á það, að núv, hæstv. fjmrh. lýsti því margsinnis yfir, um það bil sem samningar voru að fara af stað eftir að ríkisstj. tók við völdum, að það væri ekki grundvöllur til neinna grunnkaupshækkana við ríkjandi aðstæður. Það var stefna Alþb. og er. Hæstv. fjmrh. lýsti þessu yfir margítrekað í viðtölum, bæði við blöð og Ríkisútvarp, og þessa ætti hv. þm. að minnast. Þetta voru þær till. sem Alþb. hafði að því er varðaði samningana.

Fyrir það, sem Ólafur Ragnar Grímsson er að tala í sambandi við till. Alþfl. frá fyrri tíð, svara ég ekki. Ég vil hins vegar segja það, að hefði verð farið að umræðugrundvelli sem Alþfl. lagði fram í stjórnarmyndunarviðræðunum síðustu, þá hefðu kjör launþega í landinu og þá fyrst og fremst þeirra, sem þarf að rétta hlut fyrir, þ.e. láglaunafólksins, staðið betur, — hefði verið farið að þeim till. sem voru þó ekki, eins og hér hefur verið tekið fram, stefna Alþfl. Þar var um að ræða hugmyndir að samræmingu ef um væri að ræða samkomulag við ríkisstj., sem vitanlega hefði ekki verið mynduð alfarið á efnahagsstefnu eins flokks, hvorki Alþfl. né annars.

Ég vil aðeins að lokum segja varðandi þessi mál öll saman, að það stendur upp úr þessum umr. að fulltrúar Alþb. í ríkisstj. hafa ekki þorað að segja hér af eða á hvað það er sem þeir eru nú að brugga til þess að skerða kjör launafólks í landinu, sem þeir sjálfir, að vísu sjálfskipaðir, þykjast vera bestu umboðsmenn fyrir.