21.10.1980
Sameinað þing: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

340. mál, fæðispeningar sjómanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér er ljúft að verða við ósk um upplýsingar um þetta mál. Reyndar veit ég að hv. þm. þekkir nokkuð þróun þess, því að við hann mun hafa verið haft samráð eða a.m.k. hann upplýstur um það.

Eins og fram mun hafa komið hér í maí ritaði sjútvrn. formanni Aflatryggingasjóðs, Má Elíssyni, bréf 12. maí, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, — þar segir:

„Hjálagt sendist ljósrit af bréfi, dags. 24. apríl s.l., frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða og Alþýðusambandi Vestfjarða til sjútvrn., þess efnis, að rn. beiti sér fyrir því, að núgildandi reglur um greiðslur fæðispeninga úr Aflatryggingasjóði verði endurskoðaðar. Vísað er enn fremur í bréf Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur, dags. 14. apríl s.l., til stjórnar Aflatryggingasjóðs um sama efni.

Ráðuneytið óskar hér með eftir því, að stjórn sjóðsins geri till. um breytingar á núgildandi reglum um greiðslu fæðispeninga úr Aflatryggingasjóði með tilliti til fram kominna óska þar um í áður tilvitnuðum bréfum.“

Um þetta var spurt hér þegar í maí, og mun þá hafa verið flutt grg. frá Fiskifélagi Íslands sem ég sé ekki ástæðu til að lesa hér í heild sinni að nýju. Hins vegar kom fram í þeirri grg., að þetta er miklu meiri vandi eða meira verk en menn höfðu áður talið og ljóst að taka varð upp aðra skiptingu en lögin gera ráð fyrir, þ.e. 17. gr. laga um Aflatryggingasjóð. Og það kom einnig fram, að hjá sjóðnum varð nokkur töf á því að finna nauðsynleg gögn, vegna andláts þess manns sem að þessum málum starfaði.

Ég hef síðan átt nokkra fundi með formanni Aflatryggingasjóðs og lagt á það ríka áherslu, að máli þessu verði hraðað, og mun nú lesa upp grg. sem frá honum er komin, með leyfi forseta:

1) „Hér er ekki um breytingu á reglugerð að ræða, heldur verður að koma til breyting á lögum sjóðsins til þess að unnt verði að taka til greina efni bréfs sjútvrn., dags. 12. maí s.l., svo og erindi Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur, dags. 14. apríl s.l., og erindi Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfjarða, dags. 24. apríl 1980. Meginefni ofangreindra erinda er að fæðisgreiðslur til báta 12 rúmlestir og stærri verði samræmdar, bætt verði við nýjum flokki með hærri fæðisgreiðslum, er taki til þeirra skipa er stunda veiðar á útilegu, þar með taldir skuttogarar. Við endurskoðun þessa verði stefnt að því, að greiðslur úr áhafnadeildinni nægi til greiðslu eðlilegs fæðiskostnaðar sjómanna.

2) Strax kom í ljós, að ógerningur var að ljúka nauðsynlegri gagnasöfnun og útreikningi og þar af leiðandi endurskoðun 17. gr. laga um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins frá 1971 ásamt lagabreytingu 1974 um greiðslu fæðiskostnaðar báta sjómanna á þeim tíma sem óskað var eftir.“ Ástæðunnar er að hluta getið í meðfylgjandi ljósriti frá 28. maí s.l., sem ég nefndi áðan og menntmrh. mun hafa skýrt frá sem svari við fsp. s.l. vor. „Að öðru leyti lágu ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um raunverulegan fæðiskostnað hinna ýmsu stærðar- og veiðarfæraflokka skipa. Þurfti þess vegna að afla allítarlegra gagna í þessu efni til að marktæk niðurstaða fengist. Þótti ekki annað fært en að taka til athugunar og endurskoðunar alla þætti þessa máls, þ.e. að endurskoða ákvæði um flokka skipa og báta, bæði þeirra, sem eru lögskráningarskyld, og hinna, sem eru það ekki, svo og ákvæði um endurgreiðslur fæðiskostnaðar til þessara flokka.

3) Forustumenn sjómanna á Vestfjörðum hafa fylgst með þessum störfum. Er þeim kunnugt um framangreindar ástæður og jafnframt um framgang málsins.

4) Stjórn Aflatryggingasjóðs hefur haldið allmarga fundi þar sem rætt hefur verið um leiðir til að verða við umræddum óskum um endurskoðun laga og hækkun endurgreiðslu fæðiskostnaðar og jafnframt hvernig mæta beri auknum útgjöldum sjóðsins í þessu skyni. Þá hafa þær hugmyndir sem fram hafa komið verið ræddar í stjórn Fiskifélagsins. Í stjórn Aflatryggingasjóðs eiga sæti þrír fulltrúar sjómanna og þrír fulltrúar útvegsmanna.

5) Þar sem gera þarf lagabreytingar til að fullnægja ofangreindum óskum hallast stjórn sjóðsins að því, að í stað núgildandi ákvæða í 17. gr. laga um sjóðinn komi almenn ákvæði þar sem sjóðsstjórn verði heimilað í reglugerð hverju sinni með samþykki sjútvrh. og að fenginni umsögn þeirra aðila, sem tilnefna menn í sjóðsstjórn, að ráða skipun í flokka og ákveða upphæðir endurgreiðslna fæðiskostnaðar. Í þessu sambandi eru hugmyndir sjóðsstjórnar að í viðeigandi reglugerð verði flokkaskipun sem hér segir:

1. Skuttogarar og stærri skip á loðnuveiðum.

2. Önnur stærri fiskiskip. Núgildandi reglur um 130 brúttórúmlestamörkin verði endurskoðuð og þau færð neðar og nái til sambærilegra útgerða.

3. Smærri fiskiskip yfir 12 rúmlestum að þeim mörkum, sbr. 2. lið, sem eðlileg þykja.

4. Bátar undir 12 rúmlestum.

6) Þær athuganir, sem gerðar hafa verið, sýna að endurgreiðslur til togara og loðnuskipa nema frá 65–90% raunverulegs fæðiskostnaðar. Endurgreiðsla til landróðrabáta 130 rúmlestir og stærri, sbr. núgildandi ákvæði, samsvarar nokkurn veginn raunverulegum kostnaði. Endurgreiðsla til báta undir 130 rúmlestum, sem samt eru gerðir út á sama og svipaðan hátt og bátar yfir þeim stærðarmörkum, nær yfirleitt ekki raunverulegum fæðiskostnaði. Fæðiskostnaður smærri skipa er mjög misjafn. Í sumum tilfellum er endurgreiðslan mun hærri en nemur raunverulegum kostnaði.

7) Stjórn sjóðsins telur rétt að nýtt greiðslukerfi taki gildi hinn 1. des. n.k.

8) Ætla má að árleg útgjöld áhafnadeildar aukist um 450–500 millj. samkv. áætlun um að mæta eðlilegum fæðiskostnaði. Deildin hefur nú úr nægilegu fé að spila sökum hagstæðs árferðis og verðlags útfluttra sjávarafurða undangengin tvö ár. Áður var oft um greiðsluhalla að ræða.

9) Vert er að geta að á fundi stjórnar, sem haldinn var í Keflavík hinn 1. okt. s.l., var ákveðið að ljúka þessari endurskoðun á tillögugerð á framhaldsfundi sem boðaður er 22. þ.m.“

Við þessa grg. get ég bætt því, að ég hef fyrir alllöngu tjáð formanni Aflatryggingasjóðs að þessu máli vildi ég að væri hraðað. Ég hef hins vegar enga ástæðu til að ætla annað en að að þessu hafi verið unnið ötullega. Það hefur komið í ljós að þarna þurfti að afla miklu meiri upplýsinga en áður var talið og gera aðra flokkaskipun en menn hafa haft til þessa.

Ég mun einnig flytja frv. strax og niðurstaða liggur fyrir eftir 22. þ.m., enda verði þingflokkar sammála um flutning þess frv., sem ég hef enga ástæðu til að ætla að verði ekki. Vona ég þá að málið verði farsællega leyst og eins og fram kemur í grg.: 450–500 millj. kr. renni til viðbótar í fæðiskostnað sjómanna.