20.11.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

91. mál, nýting silungastofna

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég get í flestu, ef ekki öllu, tekið undir með hv. fyrsta flm. þessarar þáltill. og raunar öllum flm. hennar.

Í grg. með till. er vikið að þeim fjölþættu möguleikum sem felast í aukinni nýtingu á okkar silungsstofnum. Það er alveg ljóst að þarna er um allverulega auðlind að ræða sem ekki hefur verið nýtt á undanförnum fjölmörgum árum. Hv. flm. vék aðeins að því sögulega samhengi sem þar er um að ræða. Þjóðfélagslegar aðstæður hafa breyst allverulega með tilliti til nýtingar á þeim stöðum þar sem rækta má fisk, t.d. upp til heiða, þar sem eru mjög fengsæl vötn eða voru það áður á tíð. Það er allkostnaðarsamt að stunda veiðar og stunda þær nytjar svo sem æskilegt væri.

Auk þeirrar matvælaframleiðslu, sem það gæti leitt af sér að rækta upp þau stöðuvötn til fisknytja sem þessi till. gerir vissulega ráð fyrir, vil ég jafnframt taka undir að stórkostlegir möguleikar eru að því er varðar sportveiði og þau tækifæri freistandi sem slíkt æti gefið fyrir utanaðkomandi fólk, þéttbýlisbúa t.d. Ég vil jafnframt taka undir það, að það, sem till. gerir ráð fyrir, er af því tagi að það gæti jafnframt leitt til verulegrar aukningar á atvinnutækifærum, og það er atriði sem við erum daglega að ræða, bæði innan þings og utan, að auka atvinnutækifærin og treysta byggðina um landið.

Ég lít svo á að þessi till. sé einn þáttur þeirrar framleiðslubreytingar sem nú gengur yfir í landbúnaði. Eins og kunnugt er tilheyra þessi mál landbúnaði, og kannske fyrst og fremst á þeim forsendum tek ég heils hugar undir þessa till. og það sem hún gerir ráð fyrir. Eins og kunnugt er hefur fiskrækt skilað allgóðum árangri víða um land. En hún hefur verið fyrst og fremst á forsendum laxveiða eða vegna ræktar á laxastofninum, og á því eru út af fyrir sig góðar og gildar skýringar sem við þekkjum raunar öll, svo að það er óþarfi að rekja það hér. Ræktun nytjasilunga hefur orðið út undan, því miður. Ég tel þó að ef okkur tekst að bregðast eðlilega við getum við bjargað þarna stórkostlegum hlutum fyrir horn, og ég vænti þess, að menn verði samtaka í því efni.

Ég þekki aðeins til vatnasvæðis á Arnarvatnsheiði. Mér er kunnugt um, að það er allveruleg ásókn í að stunda þar veiði, og ég veit jafnframt, að það er mjög vinsæl íþrótt að fara þangað upp eftir og renna fyrir fisk. En allt þetta starf, hvort sem það er ræktun eða nytjar, kostar skipulag, kostar allmikla vinnu og áhuga. Ef á að takast að koma þessum málum eins og mörgum öðrum í sæmilegan farveg kostar það mikla vinnu. En árangurinn verður sjálfsagt mestur, ef framkvæmdin, eins og ég vænti, verður í höndum áhugasamra aðila, eins og er um flest annað.

Ég vil að endingu lýsa yfir fylgi við till. og tel að hún sé af því tagi að hún stofni til þess að nýta frekar okkar auðlindir, okkar landkosti, auka atvinnu og síðast en ekki síst að treysta búsetu í þessu landi.