24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það sem kom fram í ræðu Ólafs Björnssonar, 2. þm. Reykn., þar sem hann sagði að frsm. og ráðh. virtust vilja láta taka það, sem hér er verið að ræða um, úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Ég velti því fyrir mér, hvernig þetta yrði í framkvæmd. Ég er því hins vegar eindregið andvígur, að sú leið verði farin, og spurning hvaðan og hvernig það fé verður fengið sem ætlað yrði til að greiða niður sjávarútveg á Íslandi.

Það, sem ég sagði um þetta, var einfaldlega að það væri verið að velta fyrir sér ýmsum leiðum í þessum efnum. Og ég lagði áherslu á að það ætti ekki að gera breytingar á þessu kerfi, ef við megum kalla það svo, aðeins breytinganna vegna. Og ég lagði enn þyngri áherslu á það, að þær breytingar, sem gerðar yrðu, yrði reynt að fá fram í sem mestri sátt við þá aðila sem hér eiga hagsmuna að gæta.

En ég undirstrika það, að ég sé ekki og á reyndar erfitt með að skilja hvernig hægt á að vera að ganga í sjóði landsmanna til að greiða niður þá undirstöðuatvinnugrein sem allt okkar líf hér byggist á.