24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

84. mál, orkulög

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal nú takmarka mál mitt þó hér sé um að ræða málefni sem er ákaflega víðtækt, ákaflega mikilvægt og hægt væri að ræða mikið um.

Hæstv. ráðh. hélt sér við sama heygarðshornið og fór að tala um ágreining innan Sjálfstfl. í orkumálunum, en lagði áherslu á að ég hefði áhyggjur af þeim ágreiningi. Ég held að við bætum okkur ekkert með því að ræða á þessum vettvangi frekar um þetta. Hæstv. iðnrh. telur sig þekkja betur til mála innan Sjálfstfl. heldur en ég geri. Ég leyfi mér að efast um það, þó að það kunni að vera náið samband milli hæstv. iðnrh. og nokkurra samráðherra hans úr Sjálfstfl. Ég gerði grein fyrir því, að það sé ástæðulaust að ætla að þar sé nokkurn bilbug að finna á þeim mönnum í þessu efni.

Hæstv. ráðh. lýsti þeirri stefnu, sem ég hef verið að túlka hér og liggur til grundvallar þessu frv., þannig, að það væri verið að brjóta niður raforkuvinnsluna eftir landshlutum. Þetta er nokkur einföldun á málinu og harla mikil mistúlkun. Það, sem liggur til grundvallar því, að menn vilja hafa möguleika á fleiri en einu raforkuvinnslufyrirtæki í landinu, er að menn s já fram á að á þann hátt séu skapaðir möguleikar til þess að það geti orðið betri rekstur, hagkvæmari rekstur, samanburður, samkeppni í þessum efnum heldur en að hafa allt undir sama hatti. Og það er það, sem er aðalatriðið og á að vera megintilgangur skipulags í orkumálum, að það stuðli að sem hagkvæmustum rekstri. Það er ekki nægilegt að hafa sama orkuverð um allt land ef þetta orkuverð er hærra en það þarf að vera. Markmiðið er að hafa sama orkuverð og sem lægst um allt land.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði borið það upp á hann, að hann væri á móti því að fólkið í kjördæmi hans stofni landshlutafyrirtæki, — sagði að þetta væri ekki rétt og fólkið vildi það ekki. Það, sem ég var að deila á hæstv. ráðh. fyrir, var að vera ekki sammála mér um að hafa slíkt skipulag, að fólki í hans kjördæmi gæti brugðið á þetta ráð, að stofna landshlutafyrirtæki, ef því þóknaðist að gera það, og þá ekki endilega í dag eða á morgun, heldur eftir lengri tíma. Ég sé ekki að samkv. skoðunum hæstv. iðnrh. sé neitt í hættu þó að þetta skipulag sé. Hann segir að almenningur á Austurlandi vilji ekki stofna landshlutafyrirtæki. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir að það sé beitt neinum þvingunum í þessu efni. Áherslan er á því, að þetta sé frjálst. Það er ekki annað sem ég er að tala um.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri ekki hægt núna að tala um með sama rétti og fyrir nokkrum árum að koma á því skipulagi í raforkuvinnslunni, að landshlutafyrirtæki gætu starfað, það væru breyttar aðstæður. Og hvað sagði hann að væri breytt? Það er búið að tengja landshlutana saman í eitt samveitusvæði. Það er ástæðan. Ég furða mig nokkuð á að hæstv. iðnrh. skuli halda þessu fram, því að hér er hæstv. iðnrh. að rugla saman tæknilegu atriði og skipulagslegu atriði. Það er tæknilegt atriði að tengja landshlutana saman með stofnlínum. En það þarf ekki að hafa nein áhrif til eða frá á það skipulag sem við veljum. Það geta verið mörg raforkufyrirtæki í landinu þó það sé eitt samveitukerfi. Þannig er þetta yfirleitt í okkar nágrannalöndum, sem eðlilegt er að gera samanburð við. Og þannig er það á miklu víðtækari landssvæðum. Í heilum heimsálfum eða stórum hlutum af heimsálfum er eitt samveitukerfi. Engum hefur dottið í hug að það mætti ekki vera nema eitt framleiðslufyrirtæki þó að svo stæði á. Þetta er alger misskilningur. Ég hélt að það væri búið að kveða niður slíkan misskilning sem þennan.

Hæstv. ráðh. sagði að frv. þetta bæri vott um að ég hefði verið að leita útgönguleiða frá þeim vanda sem ég hefði verið kominn í með því að halda fram þeirri stefnu, sem ég hef túlkað. Ég held að þetta sé nú fullyrðing út í loforð, enda voru ekki nein rök færð fyrir henni. Hæstv. ráðh. sagði líka að þetta frv. væri ekki þess eðlis, að það gæti verið uppistaða í orkulögum, — ekki þess eðlis. Mér þykir þetta nokkuð stór fullyrðing hjá hæstv. ráðh. Þetta frv. byggir á störfum skipulagsnefndar um orkumál sem þáv. iðnrh. skipaði. Mér er málið skylt, ég var formaður þessarar nefndar. En ég vil leggja áherslu á það, að önnur nefndarstörf voru unnin af mönnum sem höfðu sérstaka þekkingu á þessum málum. Það var valinn maður í hverju rúmi. í þessari nefnd voru t.d. ráðuneytisstjórinn í iðnrn., hæstv. iðnrh. Það var formaður í Sambandi ísl. rafveitna. Það voru tveir valinkunnir menn úr Framsfl., hæstv. núv. sjútvrh. og landsbankastjóri Helgi Bergs. Það var orkumálastjóri. Það var yfirleitt þarna á að skipa hinum hæfustu mönnum. (Gripið fram í. ) Ég nefndi hann fyrst, en ég sagði að önnur störf hefðu verið unnin af þeim mönnum sem ég gaf þá einkunn að þar hefði verið valinn maður í hverju rúmi. Allir þessir menn voru sammála um allt nema mál sem varðaði skipulag raforkuvinnslunnar. Og það var á svo takmörkuðu sviði, að hæstv. iðnrh. sagði áðan að ágreiningurinn hefði verið svo lítill, það hefði verið greinilegt að ég hefði verið að leita að útgönguleið til þess að allir gætu verið sammála. Svo leyfir hæstv. iðnrh. sér núna að segja að frv., sem er svona unnið, geti ekki orðið nýtt sem uppistaða í orkulögum. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu fyrir hönd okkar allra, sem vorum í þessari nefnd. Og ég vona að hæstv. iðnrh. fylgi ekki eftir svona yfirlýsingum með því að leitast við að varpa fyrir róða þeim merku tillögum sem eru í þessu frv. um hin margvíslegu efni sem það fjallar um.