24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

83. mál, Jarðboranir ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég flyt frv. þetta um Jarðboranir ríkisins ásamt þm. Agli Jónssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni, Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur.

Frv. þetta er flutt samhliða frv. til orkulaga og leiðir af breytingum sem þar er gert ráð fyrir að verði gerðar á Orkustofnun. Ég sé ekki ástæðu til við þessa umr. að fara að skýra það mál nánar, hver er grundvöllurinn fyrir þessu frv. Það hefur þegar verið skýrt í umr. um frv. til orkulaga.

Meginbreytingarnar, sem þetta frv. felur í sér frá gildandi lögum, eru:

1. Orkustofnun er ekki falið að annast rekstur Jarðborana ríkisins eins og verið hefur, heldur skal fyrirtækið lúta sérstökum framkvæmdastjóra sem ráðh. skipar.

2. Þá er um þá meginbreytingu að ræða, að ný ákvæði eru sett um starfshætti fyrirtækisins. Það þykir rétt að hafa sérlög um Jarðboranir ríkisins í stað þess að fjallað sé um slíkt fyrirtæki í almennum orkulögum svo sem verið hefur.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.