24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

83. mál, Jarðboranir ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. iðnrh. sagði um mikilvægi þeirrar starfsemi sem Jarðboranir ríkisins annast. Ég legg áherslu á þessi atriði, sem hæstv. ráðh. taldi upp, og tel að það sé ekki ofmælt sem hæstv. ráðh. sagði um mikilvægi þeirra.

En ég kemst að annarri niðurstöðu en hæstv. ráðh. um mikilvægi þess að flýta því að koma á betri og hentugri stjórn á þetta fyrirtæki. Hann telur að það sé ekki tímabært að gera það nú, málið þurfi að athuga nánar. Ég tel að það þurfi ekki lengri tíma til að athuga þetta mál og málið sé brýnt vegna þess að bætt skipulag í þessum efnum stuðlar að því, að betur náist þau markmið sem hæstv. ráðh. gerði ágætlega grein fyrir.