24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

111. mál, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Frv. þetta var lagt fyrir síðasta þing, en varð þá ekki útrætt. Því var fylgt úr hlaði með ítarlegri framsöguræðu og er tæpast ástæða til að fjölyrða um frv. í annað sinn. Þó er rétt að gera hér grein fyrir meginefni þess.

Í fyrra var frv. flutt samhliða frv. til l. um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda svo og frv. til l. um skráningu lífeyrisréttinda. Frv. um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda varð að lögum, en hinum málunum varð ekki lokið fyrir þingslit. Nú er þetta frv. því endurflutt, ásamt frv. um skráningu lífeyrisréttinda.

Árið 1974 voru sett sérstök lög um starfskjör launþega o.fl. Samkv. ákvæðum þeirra var öllum launþegum rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Fjármálaráðuneytinu var fengið um það úrskurðarvald, til hvaða lífeyrissjóðs iðgjöld skyldu greidd, yrði það ágreiningsmál. Ákvæði laganna um starfskjör launþega voru ekki talin ógilda ákvæði í lögum um einstaka lífeyrissjóði, en takmörkuðu sjóðsaðild við ákveðinn aldur eða ráðningu.

Það kom strax í ljós, þegar framkvæma átti lögin um starfskjör launþega, að margir launþegar áttu ekki sjálfsagðan aðgang að neinum lífeyrissjóði. Sem úrskurðaraðila var fjmrn. nokkur vandi á höndum og hvarf þá að því ráði, að höfðu samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, að stofnaður var sérstakur lífeyrissjóður fyrir þá sem ekki áttu lögskylda eða samningsbundna aðild að öðrum lífeyrissjóðum. Fékk sjóður þessi nafnið biðreikningur lífeyrissjóðsiðgjalda og var sjóðnum sett reglugerð sem í flestum atriðum er samhljóða reglugerðum sjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða.

Fyrstu árin, er biðreikningurinn starfaði, voru sjóðsaðilar nær eingöngu úr röðum lausráðinna starfsmanna ríkisins. Á undanförnum árum hafa hins vegar margir tengst sjóðnum er starfa hjá öðrum en ríkinu. Má þar sérstaklega nefna ýmsa sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Um 11 þús. manns eiga nú aðild að biðreikningi lífeyrissjóðsiðgjalda. Sjóðurinn greiðir ellilífeyri, örorkulífeyri, maka- og barnalífeyri með sama hætti og aðrir sjóðir. Með tilkomu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda bætast fjölmargir menn, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, í hóp þeirra sem skyldir eru að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld. Ljóst er að margir þessara manna eiga ekki rétt til aðildar hjá neinum ákveðnum sjóði. Þannig er og farið um ýmsa launþega er stunda svo sérhæfð störf að þeir hafa til þessa ekki tengst verkalýðsfélagi eða sjóðum á þeirra vegum. Nú eru tímamót og þykir því rétt að lögbinda sjóðinn er taki við af biðreikningi lífeyrissjóðsiðgjalda og verði samastaður þeirra sem ekki eiga lögskylda eða samningsbundna aðild að öðrum sjóðum. Stjórn hins nýja sjóðs, Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, verður að verulegu leyti í höndum samtaka lífeyrissjóða og þannig verður reynt að tryggja að hinn nýi sjóður starfi í sem bestu samræmi við aðra lífeyrissjóði í landinu. Öll gerð þessa frv. er í samræmi við reglugerðir flestra lífeyrissjóða sem tengdir eru félögum innan ASÍ.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., sem ítarlegri grein var gerð fyrir á vordögum, en legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.