24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

118. mál, Lífeyrissjóður barnakennara og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt var gerður kjarasamningur á s.l. sumri milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkissjóðs. Þessi samningur var borinn undir atkvæði félagsmanna í bandalaginu í byrjun septembermánaðar og samþykktur. Í tengslum við þennan aðalkjarasamning var samkomulag gert milli ríkisstj. og BSRB um nokkur félagsleg réttindamál opinberra starfsmanna. M.a. voru þar ákvæði um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Og samkomulag sama efnis var gert við Bandalag háskólamanna í septembermánuði. Samkv. samkomulagi því, sem ríkisstj. gerði við BSRB og BHM um félagsleg réttindamál, skyldi gefa út brbl. um nokkur atriði, þ.e. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og um breytingu á lögum um kjarasamning opinberra starfsmanna og kjarasamninga BSRB.

Í samkomulaginu við BSRB er einnig ákvæði þess efnis, að samræma skuli lög Lífeyrissjóðs barnakennara og lög Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þannig að þær breytingar á lífeyrisrétti starfsmanna ríkisins, sem samið hafði verið um og komu til framkvæmda við útgáfu brbl. nr. 67/1980, næðu einnig til hjúkrunarkvenna og barnakennara í þjónustu ríkisins. Samræmingarstarf þetta skyldi unnið í samvinnu við fulltrúa viðkomandi stéttarfélaga.

Einnig varð að samkomulagi milli fulltrúa Kennarasambands Íslands og fjmrn. að flutt yrði frv. til l. um sameiningu Lífeyrissjóðs barnakennara og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Með slíkri sameiningu ynnist tvennt:~annars vegar aukið hagræði af því að fækka lífeyrissjóðum ríkisstarfsmanna og í öðru lagi að með því væri hægt að samræma lífeyrisréttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Frv. þetta er því flutt í fullu samræmi við samkomulag fulltrúa Kennarasambands Íslands og fjmrh. sem tengdist gerð aðalkjarasamnings á s.l. hausti.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.