24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., gerir í stuttu máli ráð fyrir afnámi á áætluðum tekjum hjá skattgreiðendum í sjálfstæðum atvinnurekstri. Ég vil lýsa mig andvígan frv.

Það er skoðun mín, að óánægja fólks við álagningu á tekjuskatti sé fyrst og fremst sprottin af því, hve sumir sleppa vel, miklu frekar en að það sé óánægja um þá upphæð sem menn verða að greiða í skatta. Ástæðan til að sumir hafa sloppið svo vel, er einmitt kerfið sem þetta frv. vill koma aftur á. Við skulum ekkert vera að blekkja okkur hér á hinu háa Alþingi. Það verður að viðurkenna að ýmsir hafa í krafti lítils einkarekstrar áætlað sér allt of lág laun og fært einkaneyslu á rekstur. Jafnframt hafa afskriftarreglur lengi leitt til þess, að menn hafa þrátt fyrir háar tekjur verið skattlausir. Ég vil ekki nefna neina sérstaka hópa sem þessa hafa notið, en ég held að við getum allir verið sammála um að þessir menn eigi að greiða tekjuskatt af sínum persónulegu tekjum eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Eina leiðin sem fær er til að koma í veg fyrir að skattalögin verði misnotuð eins og ég lýsti áðan, er að áætla mönnum tekjur, eins og gert er ráð fyrir, eins og ef þeir væru í vinnu hjá öðrum. Það er einnig staðreynd, að slíkar áætlanir skattyfirvalda hafa hingað til alltaf verið í lægri kantinum miðað við raunverulegar tekjur. Ég er ekki að halda því fram, að lög nr. 40 frá 1978 séu í þessu ákvæði hið fullkomnasta, en breytingu á lögunum samkv. þessu frv. tel ég alls ekki tímabæra, enda liggja ekki fyrir neinar tölur um áhrif þessarar álagningar á þessu ári, eins og reyndar kom einnig fram í máli frsm. fyrir þessu frv. Auðvitað geta komið upp erfið tilfelli varðandi þessa áætlun, en þá væri nær að reyna að móta reglur í frv. til að koma í veg fyrir slys. Það væri miklu nær en að leggja til afnám þess kerfis sem komið var á 1978, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Með þessu frv. finnst mér ekki vera farin rétta leiðin til að leiðrétta hlut sem er ekki víst að einu sinni þurfi að leiðrétta. Þess vegna ítreka ég aftur andstöðu mína við þetta frv.