24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Þegar ég bað um orðið var það raunar fyrst og fremst til þess að kalla eftir yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh., því að eins og kom fram í fjárlagaræðu hans á hv. Alþ. lýsti hann því yfir þar, að þetta ákvæði í skattalögum væri í sérstakri athugun og þyrfti að taka tillit til ýmissa erfiðleika sem fram hefðu komið, ekki síst að því er varðar skattlagningu á bændur.

Þegar skattalögin voru afgreidd á 102. löggjafarþingi var ljóst, eða ég geri ráð fyrir að það hafi verið ljóst flestum hv. þm., að í þessum lögum voru ýmis ákvæði, ýmis nýmæli sem erfitt var að sjá fyrir hvernig verkuðu í framkvæmd. Þess vegna var það, álít ég, nokkuð samróma álit flestra þm., að gera yrði ráð fyrir að þessi lög yrðu tekin til endurskoðunar í upphafi 103. löggjafarþings sem nú situr. Þarna voru mörg ákvæði sem erfitt var að sjá fyrir, eins og fram hefur komið.

Ég skildi afgreiðslu málsins þannig að skipuð yrði annaðhvort milliþinganefnd eða nefnd þm. til að endurskoða skattalögin sérstaklega. Ég stóð í þeirri meiningu alveg þangað til fyrir stuttu að svo yrði gert. Miðað við fyrri yfirlýsingar þm. var þetta nauðsyn. Alla vega eiga þó þm. að fjalla um svona viðamikla löggjöf. Það var svo mikið um lögin fjallað á síðasta þingi að fullkomin ástæða var til þess að svo yrði.

Það væri hægt að tala hér lengi um ýmis atriði sem hafa komið ákaflega furðulega út í álagningu skattanna. Ég ætla ekki að gera það hér. Ég vil þó taka undir það sem kom fram hjá hv. frsm., að það hefur t.d. sannast að ekki er sama í hvaða skattaumdæmi framkvæmd laganna er gerð. Það er mjög ólíkt eftir umdæmum. Þetta er mikilvægt atriði, því að ætlast er til þess að allir séu jafnir fyrir lögunum og ekki hvað síst í sambandi við skattaálögur.

Eins og nú er komið vil ég treysta því, að hæstv. fjmrh. sjái svo um að þessari endurskoðun laganna verði hraðað og það verði ekki aðeins tekin til athugunar ákvæðin í 59. gr. að því er varðar bændur, heldur einnig ýmis önnur ákvæði og agnúar sem á lögunum eru.

Það var ljóst, þegar Alþ. fjallaði um þessi skattalög sem voru sett 1978, að það væru ýmsar forsendur breyttar og fyrst og fremst það sem við allir vitum, að þau voru í upphafi miðuð við staðgreiðslukerfi skatta og þess vegna var augljóst að margt í þessum lögum þyrfti breytinga við.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan, að í sambandi við frv. sem hér er lagt fram, þó að taka megi undir margt sem hér hefur verið túlkað af hv, frsm., þá finnst mér aðalatriðið að endurskoðunin, sem ríkisstj. eða fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. hefur boðað, verði lögð fram þannig að alþm. geti tekið afstöðu til málsins.